08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Björn Þorláksson:

Það er brtill. nefndarinnar um að færa niður styrkinn til Sigfúsar Einarssonar úr 1100 kr. í 800 er jeg finn mjer skylt að segja nokkur orð um, því jeg skal fúslega játa, að jeg átti frumkvæði til þess í nefndinni. En jeg gekk burtu snöggvast og á meðan var háttv. 6. kgk. þm. að tala á móti þessari brtill. og gerði tekjur Sigfúsar Einarssonr nokkru minni, en jeg hygg þær vera.

Jeg hef reynt að rannsaka, hversu miklar tekjur hann hefur, en jeg skal fúslega játa, að jeg hef það ekki frá honum sjálfum,. heldur frá þriðju hendi.

Eftir því er mjer hefir talizt til, þá verða. tekjur hans svo:

fyrir organleikarastörf við dómkirkjuna, fast kaup kr. 800,00

fyrir aukaverk við dómkirkjuna — 600,00

fyrir kenslu við 3 skóla kr. 3–400,00;

en auk þess hefur bæði hann og kona hans tímakenslu, og má telja víst, að með því muni tekjur hans alls nema um eða yfir 2000 kr., og jeg hygg því, að 800 kr. sje sómasamleg viðbót og með því yrðu tekjurnar um 3000 krónur, og jafnvel meira, ef hann fær söngkensluna við mentaskólann, sem sagt er líklegt. Og mjer finnast þetta nægilegar tekjur, og svo mundi vera litið á, ef hann ætti heima utan Reykjavíkur, en jeg hef orðið þess var, að menn líta svo á, að hjer þurfi hærri laun en annarstaðar á landinu. Jeg vil því mæla með brtill. og hvetja háttv. þm. til að ljá henni atkvæði.

Þá vil jeg minnast á brtill. hátt. 1. kgk. þm. (J. Hav.) um 200 kr. viðbót við laun 1. kennarans við gagnfræðaskólann á Akureyri. Á móti þessari brtill. er jeg fyrir þá skuld, að hjer á í hlut ungur maður, og mjer virðist það vera nóg að hækka laun hans um 200 kr. á fjárhagstímabilinu; tel varhugavert að hækka þau meira í einu. Jeg vil benda á eitt dæmi. Á Alþingi 1909 bað maður einn um að laun sín væru hækkuð um 200 kr. og þingið varð við þeirri beiðni, og á þinginu 1911 vildi hann fá þau hækkuð upp í 1800 kr., en þingið vildi ekki ganga inn á það, en hækkaði þau upp í 1600 kr. og í ár hefir hann fengið þau hækkuð upp í 1800 kr. og jeg býst við að á næsta þingi vilji hann fá þau hækkuð upp í 2000 kr. Þetta vil jeg benda á til þess að sýna, að þessi braut er varhugaverð.

Jeg var svo óheppinn, að jeg var ekki við, er háttv. 1. kgk. þm. (J. Hav.), var að tala fyrir breytingartillögu sinni, en jeg heyrði þó, að hann var að bera laun Akureyrarkennarans saman við laun kennaranna við mentaskólann. En jeg vil taka það fram, að jeg hefði heldur kosið, að þingið hefði ekki hækkað laun þeirra, og jeg tel, að það hafi farið þar feti framar en vert var, þó jeg hinsvegar viðurkenni, að fremur hafi verið ástæða til að hækka laun þeirra, en annara embættismanna eða opinberra starfsmanna í Reykjavík. En jeg hygg, að ef laun þeirra væru borin saman við laun embættismanna út um land, þá væri ekki ástæða til að hækka þau. Embættismenn á okkar fátæka landi þurfa að læra að gera sig ánægða með hæfileg laun, og að líða súrt og sætt með þjóðinni. Og þegar verið er að ræða um laun embættismanna hjer í Reykjavík, þá vil jeg benda á, þótt jeg hafi ekki heyrt aðra gera það, hve miklu betur þeir standa að vigi með að menta börn sín, heldur en allir aðrir embættismenn landsins. Hjer geta allir útvegað börnum sinum það, sem jeg tel bezt í lífinu, — mentun. Enda eru þess fjölda mörg dæmi, að bláfátækir menn hjer í Reykjavík, og það jafnvel menn, er hafa átt mörg börn, hafa getað kostað þau í skóla, og það jafnvel fleiri en eitt. En það hefði þessum fátæku mönnum verið öldungis ómögulegt, ef þeir hefðu ekki átt hjer heima; þeir hefðu þá ekki getað staðizt kostnaðinn, og það eru ekki nema efnaðir menn út um land og sárfáir embættismenn, er geta kostað hjer börn sín til náms. Á þetta veit jeg ekki til að hafi verið litið, þegar um laun reykvískra manna er að ræða, en þetta vildi jeg taka fram, því það er þýðingarmikið atriði.

Að bera laun 1. kennara gagnfræðaskólans á Akureyri saman við laun kennaranna. við mentaskólann er heldur ekki alveg rjett, því í mentaskólanum er 9 mánaða kensla en 8 mánaða á Akureyri, svo þar hefur kennarinn frían einum mánuði meir, og það er altaf einhvers virði.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) hefur flutt brtll. við 18. gr. um að veita Sigurði regluboða Eiríkssyni 300 kr. ellistyrk á ári. Hann mælti svo vel fyrir þessari tillögu og eins háttv. 2. þm. Skagf. (Jósef Bj.), að jeg hef litlu við það að bæta, enda er jeg þeim sammála. Sigurður reginboði Eiríksson hefur nú varið um 20 árum af æfi sinni til þess að boða bindindi, og hann hefur unnið að því jafnt vetur sem sumar, jafnt í góðum veðrum sem versta illviðri og því oft hætt heilsu sinni við það starf.

Og ef menn því kannast við, að Góðtemplarareglan hafi bjargað lífi, heilsu, fje og ánægju margra manna, þá hefur einmitt þessi maður ekki átt lítinn þátt í því.

Og Sigurður Eiríksson hefur á þessu tímabili ekki gert annað, svo hann hefur afvanizt annari vinnu, og er því orðinn ófær til hennar. Jeg teldi því illa farið, ef alþingi ekki vildi veita honum þennan styrk, og það mætti finna margan á 18. gr. bæði karl og konu, er síður á skilið þennan styrk en hann.

Að lækka styrkinn til bifreiðaferða Sveins Oddssonar er jeg mótfallinn. Jeg vil láta gera verulega alvarlega og fullkomna tilraun næsta ár um, hvort slíkar ferðir geti ekki verið hjer. Jeg hef heyrt talað um það, að ferðirnar hafi gengið illa í sumar, vjelin hafi bilað o. s. frv. En þetta er ekki að marka. Menn þeir, er höfðu bifreiðina hjer í sumar, fluttu ekki með sjer neitt af varatækjum; þegar þeir fóru svo að nota bifreiðina, þá biluðu sem eðlilegt er ýms stykki, og þau var ekki hægt að fá hjer, svo það er ekki nema eðlilegt, þó bifreiðin væri öðruhvoru í lamasessi. En þá, er þeir hafa fengið styrkinn, þá hefur alt gengið prýðilega, og jeg hef von, um að þeir hafi orðið hyggnir af reynslunni og birgi sig betur, og þeim mun fremur er þeir munu hafa í hyggju að hafa hjer 2 –3 vagna næsta ár. Jeg tel illa farið, ef þingið vildi ekki veita þeim styrkinn og þeir yrði að hætta við svo búið.

Þá vildi jeg minnast á einn styrk, er fjárlaganefndin hefur tekið upp, það er styrkurinn til Þórarins Guðmundssonar til þess að fullkomna sig í hljóðfæraslætti. Jeg veit, að fyrir þessum styrk er agiterað af miklu kappi, og jeg kann því illa, er menn utan þingsins vilja hafa áhrif á fjárveitingar þess. Á mig hefur þetta miklu fremur mótstæð áhrif, og jeg hygg, að þingmenn ættu ekki að sinna slíku tali.

Við verðum að gæta þess, að við erum hjer að fara með landsfje, og þótt hver sje sjálfráður, hvernig hann fer með fje, er hann greiðir úr sinni eigin pyngju, þá tel jeg hann það ekki, er hann fer með fje annara — fje landsmanna. Mjer er sagt, að faðir þessa pilts sje efnamaður, er hafi getað kostað konu sína og börn í Kaupmannahöfn síðasta vetur og ár, og því tel jeg ekki þörf á að veita þennan styrk, en nær að veita hann einhverjum, er hefur verulega þörf á því.

Um ekkjufrú Guðrúnu Torfadóttur vildi jeg geta þess, að fjárlaganefndin var öll á einu máli að veita henni þennan styrk. Hún er fátæk kona með 4 ungbörn og hefur aðeins rúmar 100 kr. að eftirlaunum. Jeg vildi því mæla hið bezta með brtt.

Á skáldin bjóst jeg við að ekkert yrði. minzt við þessa umræðu, menn Ijetu sitja við það, er fjármálanefndin lagði til og samþykt var við 2. umræðu.

En jeg hef fundið hjer breytingartill. um að hækka þrjú þeirra úr 1000 kr. á ári í 1200 kr. á ári. Jeg hjelt nú, að skáldin mættu una við brtill. nefndarinnar og teljast betur trygð með henni en eins og háttv. neðri deild gekk frá því. Það kæmi þeim betur.

Jeg mun því óhikað greiða atkvæði móti þessum hækkunum og það þeim öllum jafnt. Út úr þessari brtill. og öðrum, um að hækka styrki úr landssjóði, vildi jeg beina þeirri spurningu til háttv. þingm. og sjerstaklega til hins 1. kgk., hvort þeir mundu vera eins fúsir að veita þessa styrki, ef þeir ættu að greiða þá úr eigin vasa.