08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefði helzt viljað þurfa ekki að tala frekara fyrir brtill. mínum, en ummæli háttv. framsm. (Stgr. J.) knýja mig til að fara enn nokkrum orðum um þær. Mjer fanst háttv. framsm. (Stgr. J.) hafa það helzt á móti þeim, að svo mikið fje væri veitt til Húnavatnssýslu, og þarfirnar þar sýndust býsna margar. En jeg vil spyrja: Í hvaða hjeraði mun þörfunum vera fullnægt mest? Ekki er það í Húnavatnssýslu, heldur í Þingeyjarsýslu. Á síðustu 10 árum hefur hún fengið nær þrefalt meira fje úr landssjóði en Húnavatnssýsla, til vega og brúa. Hún vegur á þessu tímabili móti 8 sýslum öðrum, þessar sýslur eru: VesturSkaftafellssýsla, Austur-Skaftafellssýsla,

Rangárvallasýsla, Skagafjarðarsýsla, Norður-Ísafjarðarsýsla, Barðastrandarsýsla, Strandasýsla og Dalasýsla. Það er vel þess vert, að á þetta sje mint, þegar svo er skorið við neglur, og strítt á móti bráðnauðsynlegum fjárframlögum eins og hjer. Þó skal jeg taka það fram, að jeg bið aldrei aðra um að ljá mjer atkvæði sitt, enda ekki heldur til neins fyrir nokkurn mann að biðja mig nm atkvæðisfylgi og því ætla jeg mjer ekki að lifa á bónbjörgum með málið. Þótt nú Þingeyjarsýsla hafi fengið svo mikið fje, sem jeg nefndi, þá hafa þó aðrar sýslur orðið enn hærri síðustu árin: Suður-Múlasýsla og Borgarfjarðarsýsla.

H. frsm. (Stgr. J.) mintist á Svarfaðardalsveginn, og mjer til gleði játaði hann nú, að það væri hreppsvegur, og þó kvað hann við 2. umræðu sitt princip vera, að eigi væri veitt fje úr landssjóði til hreppavega, og kvaðst þó vera með styrk til Svarfaðardalsvegarins. (Stgr. J. Jeg gat þess þegar í upphafi, að þar væri fyrir mjer um undantekning að ræða). En nú er svo gott til að vita um Svínavatnsveginn, að hann er ekki hreppsvegur, heldur sýsluvegur; jeg hef hjer í höndunum yfirlýsing stjórnarráðsins. Og sízt vantar það, að Svínavatnshreppsbúar hafi lagt á sig gjöld til að bæta veginn; þeir hafa lagt fram um 500 kr. móts við 300 kr. úr sýslusjóði. Það er ekki ofsögum sagt af þörfinni á vegabót þessari. Jeg gæti málað með svörtum litum, og sönnum þó, vegatálmana í Svínavatnshreppi og erfiðleikana, sem af þeim stafa. Viðvíkjandi því, hvað Húnavatnssýslu fengi nú mikið á fjárlögum, þá má geta þess, að þessar hækkanir hjer í deildinni nema ekki meiru en 2600 kr. í þremur upphæðum. En af því það er í 3 upphæðum, vex þinginu það líklega í augum, en ein 10 þús. kr. beiðni þykir góð og rjettlát, ef hún er aðeins ein.

H. 5. kgk. (B. Þ.) talaði á móti styrknum til Þórarins Guðmundssonar, ekki sízt fyrir þá sök, að því sem mjer skildist, að agiterað hefði verið fyrir honum af utanþingmönnum. Þetta finst mjer ekki vel Frambærileg ástæða. Jeg segi fyrir mig, að hafi jeg sannfæring fyrir, að eitthvað sje rjett og gott, þá hverf jeg ekki frá því, þótt agiterað sje fyrir því. Jeg er annars hræddur um, að það sjeu fleiri en utanþingsmenn, sem hjer agitera; þingmenn munu ekki vera lausir við það innbyrðis. Jeg skifti mjer ekkert um það, læt það eins og vind um eyrun þjóta og fer mínu fram. Jeg býst við því, að jeg greiði atkvæði með styrknum til Sigurðar Eiríkssonar regluboða, því að jeg virði bindindisstarfið mikils, þótt jeg sje ekki mjög hrifinn af bannlögunum. Reyndar sýndist mjer styrkurinn mega vera nokkru lægri fyrir það, sem landssjóður hefir lagt fram til kosningaundirbúnings bannlaganna.