08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

113. mál, brúarstæði á Miðfjarðará

Jósef Björnsson:

Jeg vil aðeins bæta því við, að h. frsm. sagði ekki ofsögum af því, hve ófær áin verður og ókleif yfirferðar. Jeg get sjálfur talað um þetta af reynslu. Þegar jeg var á ferð til þingsins 1911, kom jeg að henni ófærri. Jeg var með pósti, og varð hann að fara fram að Urriðaá, en svo heitir bær einn þar í firðinum. Þar vorum við nóttina. Morgunin eftir var leitað, hvort hún væri fær yfirferðar. Var þá spöng á ánni örmjó að heita mátti, en svo ilt var að fara yfir hana, að það varð að hrinda hestunum fram af flughálli ísskör ofan á spöngina, og var áin þar í taglhvarf ofan á spönginni. Til þess að taka á móti hestunum, urðu 2 menn að standa í vatninu upp undir hendur, og tókst þó ekki að verja suma hestana falli. Og þetta var eini staðurinn, sem áin var fær þann dag. Það var því auðsjeð, að það er ekki vanþörf á, að brúa þessa á.