09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Steingrímur Jónsson:

Það vill svo til, að jeg, sem er mótfallinn þjóðjarðasölu, er með þessu frv., en háttv. þingm. Barð. (H. Kr.), sem er meðmæltur sölu þjóðjarða og opinberra eigna, er á móti því. Það kemur til. af því, að okkur greinir á um eitt meginatriði í þessu máli. Háttv. þm. vill hafa jarðeignir sem stærstar, vill halda gömlu stórbýlunum við og ekki raska þeim nje minka þau. Jeg er aftur á móti þjóðjarðasölu, af því að jeg vona, að það verði til þess, að jörðunum verði skift, og það tel jeg skilyrði þess, að íslenzk jarðrækt taki framförum. Ef menn hefðu kynt sjer landbúnaðarsögu Dana, sæju þeir rjettmæti þessarar skoðunar. Jeg fæ ekki sjeð, að þjóðjarðasalan sje leiðin til þessa, en verður því hins vegar oft valdandi, að einstakir menn ná eign á stórum löndum, sem þeir nota lítið. Það var sagt um stóreignir Rómverja í fornöld, að þá er ónýttu hið ágæta land, Ítalíu. (Guðm. Björnsson: Sama er sagt um England nú).

Hjer er sótt um, að einstakur maður fái dálítinn blett til ræktunar. Þetta getur ef til vill í framtíðinni orðið lífvænlegt býli. Svo stendur á, að því jeg hygg, að presturinn er tekinn að eldast, en á konu nokkru yngri og hyggur, að henni sje vel borgið, og að henni geti liðið vel, ef hún fær býli og fótfestu á þessum stað.

Jeg skal í sambandi við þetta minna á, að partur úr Vallaneslandi var seldur.

Á þessari landspildu er nú reist eitthvert prýðilegasta býli þessa lands. Og mjer er ekki ljóst, að Vallanes hafi orðið fyrir svo mikilli rýrð af þessu, að neinu muni. Úr því andmæli hafa komið fram gegn þessu frv., þá þótti mjer rjett að láta þessa skoðun í ljósi. Sú skoðun hefur raunar fyr komið fram hjer á þingi, og ef menn vilja líta í lögin um sölu þjóðjarða frá 1905, þá geta menn sjeð, að þá hefur vakað fyrir þinginu alveg sama hugsjónin, sem jeg hef nú verið að halda fram. í 2. gr. laganna stendur sem sje, að ef sýslunefnd hyggur einhverja jörð sjerstaklega vel fallna til þess að skiftast sundur milli margra grasbýla, þá má eigi selja jörðina án sjerstakrar lagaheimildar. Af þessu ákvæði sjest ljóslega, hverja skoðun þingið þá hefur haft á þessu málefni.