19.07.1913
Neðri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (228)

59. mál, prentsmiðjur

Flutningsm. (Tryggvi Bjarnason):

Jæja, það hefir mætt nokkrum andmælum þetta frv. mitt, bæði frá háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) og frá háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.).

Eg get ekki fallist á það, þó að þetta frv. yrði að lögum, að það yrði til þess, að fæla menn út úr landinu með bókaútgáfu. Eg get ekki séð að það gæti munað svo miklu á sölunni eins og hv. 1. þm. S.-Múl. lét í veðri vaka. Því ákvæði sem nú er í lögum um afhendingu ókeypis eintaka til bókasafna, er haldið óbreyttu. Þau á að afhenda hlutaðeigandi bæjarfógeta eða lögregluatjóra í lok þess árs, er bækurnar koma út. Hann á að varðveita þær í heilt ár, og eftir þann tíma á hann fyrst að afhenda þær bókasöfnunum.

Væri svo innan þess tíma spurt eftir einhverri bók á sýslubókasafni, sem út hefði komið á því ári eða næstliðnu ári, þá er hún þar ekki til, svo að ef einhver vill lesa hana, þá er ekki um annað að gera en kaupa hana.

Færi svo, að frumvarpið yrði ekki að lögum, þá mundi þingið að líkindum sjá sér fært að auka styrkinn til Sýslubókasafnanna, og þá kæmu bækurnar fyr inn á söfnin. En ef frumv. verður ekki samþykt, þá koma bækurnar ekki á söfnin fyr en 2 árum eftir útkomu þeirra. Við skulum taka til dæmis bók, sem kemur út snemma á árinu 1914. Prentsmiðjan afhendir hana lögreglustjóra fyrir árslok sama ár. Lögreglustjóri geymis bókina í eitt ár og afhendir hana þá fyrst söfnunum. Þá er eftir að binda bókina, og getur gengið talsverður tími til þess. Það má því gera ráð fyrir, að það liði um eða yfir 2 ár frá því að bækurnar koma út og til þess að þær koma á sýslubókasöfnin. En á þeim tíma er allur fjöldi manna búinn að lesa þær bækur, sem þeim þykir þess verðar að vera lesnar.

Eg get ekki orðið við þeim tilmælum að taka frumvarpið aftur. Eg læt það ráðast, hvernig því reiðir af, og eg býst við, ef að það verður felt, að sýslubókasöfnunum verði séð fyrir auknum styrk úr landssjóði.