09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Jósef Björnsson:

Jeg er þessu frv. meðmæltur. Jeg álít sjálfsagt, að alþingi snúist jafnan vel við, þegar beðið er um land til ræktunar. Alþingi hlýtur að óska þess, að ræktun landsins aukist og þó að þetta frv. ekki marki stórt spor í þá átt, þá er þó sjálfsagt að taka því vel. Jeg er fyllilega samdóma háttv. 3. kgk. um þetta atriði málsins. — Hins vegar væri sjálfsagt rjett að setja skilyrði um, að presturinn afgirti landspilduna, því að það er jafn nauðsynlegt fyrir nýbýlið og höfuðbólið. Garður er granna sættir. — Það sem aðallega kom mjer til þess að standa upp, voru þau ummæli hins háttv. 3. kgk., að þótt hann væri meðmæltur sundurskifting stóreigna, þá væri hann samt mótfallinn þjóðjarðasölu. Sagðist hann óttast, að afleiðingin af henni yrði sú, að stórar lendur kæmust í eign einstöku manna. Mjer finst ólíklegt, að þetta verði. Það er ekki arðvænlegt, að leggja peninga sína í jarðir á móts við aðrar eignir, og þar að auki er og verður búskaparlagi voru fyrst um sinn þannig varið, að örðugt og arðlítið verður að sitja stórar jarðir. Hann vitnaði til reynslu Dana í þessu efni. En í Danmörku hefur það tvent farið saman, að vel ræktuð smábýli hafa sprottið upp og ræktun landsins í heild sinni hefur fleygt áfram. Þessi framför hefur stafað mest af því, að sjálfseignarbændum hefur stórfjölgað. (Steingr. Jónsson: Sjálfseignarsmábændum). Já, það er satt, að smábændurnir rækta land sitt betur en stórbændurnir. En jafn satt er hitt, að sjálfseignarbændur rækta lönd sín betur en leiguliðarnir. — Jeg mun því greiða atkvæði með þessu frv., því að það fer í rjetta stefnu.