09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg mun hiklaust greiða atkvæði með þessu frv., því að það er í beinu samræmi við 2. gr. í lögunum um sölu þjóðjarða. Þar eru reistar skorður við því, að jarðir verði seldar, sem hægt er að skifta í grasbýli. Úr því að þingið hefur samþykt þetta ákvæði, þá hlýtur það að álíta skyldu sína, að rjetta hjálparhönd til þess, að grasbýli komist upp. Heimajörðinni virðist enginn skaði gerður, þó að þessi landspilda sje tekin undan henni. Og það er altaf framfaraspor, þegar óræktaður blettur, hvort sem hann er stór eða smár, kemst í rækt. Landinu gæti ekki verið að öðru meiri styrkur, en fjölmennri smábændastjett. Það getur því ekki komið til mála, að þessu frv. verði eigi vel tekið hjer í deildinni. Með því að samþykkja það, sýnum vjer í verkinu, að vjer viljum „elska, byggja og treysta á landið?“