09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Hákon Kristoffersson; Jeg verð að svara háttv. 3. kgk. nokkrum orðum.

Hann sagði, að þetta frv. væri í samræmi við stefnu undanfarinna þinga. Það getur vel verið, að það sje rjett. — Jeg hef víst ekki eins mikið vit á búskap eins og háttv. 3. kgk., en það veit jeg þó. að búskapur þrífzt ekki eins vel á smábýlum, og á stórbýlum, nema við sjávarsiðuna. þar sem bóndinn getur haft stuðning, eða jafnvel aðaluppeldi sitt, af sjávarútveg. Jeg vonast til, að menn hafi ekki skilið orð mín svo, að jeg vildi spilla fyrir þeim manni, sem hjer á hlut að máli. Jeg hef að eins viljað láta mína sannfæringu í ljós. En þessu frumv. er auðvitað ætlað að komast fram, því að hjer á sýnilega í hlut mikils metinn maður, og verða þá mín orð væntanlega ekki þung á metunum. En að halda því fram, að þetta sje sama og að stuðla að því, að hver bóndi verði eigandi að ábýli sínu, það verð jeg að segja að er sjeð frá einstöku en ekki almennu sjónarmiði.