09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Jón Jónatansson, framsm.:

Jeg býst ekki við, að halda langa framsöguræðu í þessu máli, því jeg hef ekki sjerstakan kunnugleika á því, og nefndin byggir álit sitt á þeim ítarlegu gögnum, er fyrir liggja. Málið hefur fengið rækilegan undirbúning hjer á þinginu. Fjárlaganefndin í neðri deild hefur haft það til meðferðar, og hjer liggja til athugunar þau skjöl, sem hún hefur haft við að styðjast. Hjer er að ræða um fyrirtæki, sem menn hafa lengi haft í hyggju að koma í framkvæmd. Eins og menn vita, eru Vestmannaeyjar mjög fiskisæl veiðistöð, og er þar mikill mótorbáta útvegur. En það er galli á, að höfnin er mjög ill og svo lítil, að vjelabátaútvegurinn getur tæplega aukizt, ef eigi eru gerðar umbætur á henni, því að legan er svo takmörkuð að varla er hægt að bæta við fleiri bátum. Jeg vissi til þess í fyrra, að tveir vjelabátar komu vestan af Ísafirði og varð að leggja þeim annarstaðar, en þar sem eyjamenn höfðu sína báta og þar sem lega er ótryggari. Ef veður kemur, er mjög algengt að bátar skemmast, því þröngin er svo mikil, að þeir rekast hver á annan og brotna þá oft meira og minna. Þörfin á höfninni er því mjög tilfinnanleg, eins og sjest á því, að Eyjabúar sjálfir vilja leggja á sig mjög tilfinnanleg útgjöld; leggja til hafnarinnar 187 þús. kr. Eins og menn vita, eru Vestmannaeyjar í þjóðbraut skipa, sem koma hingað til lands, og þar hafa póstskipin viðkomu á leið sinni til Reykjavíkur, og er gott að þau geti fljótt fengið sig afgreidd, og fyrir því mundi höfnin flýta. Hún gæti og bætt nokkuð úr hafnarleysinu á suðurströndinni, því þarna gæti verið miðstöð fyrir flutninga til Suðurlandsins. Væri hugsanlegt, að þarna gæti fengizt lóð undir vörugeymsluhús; sem gæti verið nokkurskonar almenningur, þar sem geymdar væru vörur, sem síðan ætti að flytja lengra. Það er alveg vafalaust, að brýna nauðsyn ber til að bæta höfnina. Eyjamenn hafa fengið danskan hafnarverkfræðing til þess að gera allar nauðsynlegar mælingar og athuganir um umbætur á höfn þessari. Hefur þessi verkfræðingur gert uppdrætti af höfninni og mannvirkjum, þeim er gera þarf, og gert áætlanir um, hvað mikið muni kosta að gera höfnina. Það er ætlazt til, að gerðir verði 2 skjólgarðar svo að enginn sjór geti komizt inn á höfnina; svo á að dýpka höfnina og gera bryggju. Þrátt fyrir þetta verður höfnin að vísu mest fyrir vjelabáta og smærri hafskip, því dýpi innsiglingarinnar verður hvergi meira en 4 metrar, og það hagar svo til, að það er ekki unt að fá meira dýpi, nema inni á höfninni nálagt því sem bryggjan á að vera; þar er dýpið 5 metrar. Þetta dýpi er að vísu ekki nóg fyrir millilandaskipin, en það er nóg fyrir minni skip, svo sem botnvörpunga og smærri skip. Segja Eyjamenn þetta dýpi nóg fyrir þau skip, sem nú alment flytja kol og salt til eyja. Er ætlazt til, að á þessum polli, sem dýpri verður, geti legið um fjöru þau skip, sem inn sigla með flóði. Innan þessara skjólgarða verður svo ennfremur rúmgóð og trygg höfn fyrir vjelabáta. Það er áætlað, að höfnin muni kosta 249 þús. kr. og það er farið fram á, að landssjóður leggi fram 1/4 hluta af þessu fje. Um horfurnar á því, hvort höfnin muni bera sig, hefur sýslunefnd Vestmannaeyja gert áætlun, og er hún bygð á því, sem nú gerist, gert ráð fyrir jafnmörgum vjelabátum, og nú eru, og jafn miklu flutningsmagni og nú. Jeg ætla að grípa niður á nokkrum liðum. Nú eru 60 vjelabátar í eyjunum og gjaldið af hverjum er áætlað 60 kr. Það verða 3600 kr. Gjald af fiskiskipum, 5 og 10 aurar í fyrsta sinni og 21/2 og 5 í hin sinnin 3000 kr. Gjald af flutningaskipum 2500 kr. Gjald af vörum 1 kr. af tonni, 10000 kr.

Als er gert ráð fyrir, að tekjurnar muni nema 19,600 kr., og verður þá tekjuafgangur 1360 kr. Það er eins og jeg drap á, farið fram á, að landssjóður leggi fram 1/4 og taki að sjer ábyrgð á hinum 3/4, sem hafnarsjóður Vestmannaeyja leggur fram. Framlag landssjóðs er ekki ætlazt til að gjaldist fyr en 1916, og verður greitt jafnframt og hafnarsjóður leggur fram sitt tillag. Frumv. það til hafnarlaga fyrir Vestmannaeyjar, sem hjer liggur fyrir, er sniðið eftir hafnarlögum Reykjavíkur og í fullu samræmi við þau. Jeg sje svo ekki ástæðu til þess, að fara fleirum orðum um málið að sinni. Skjöl, sem snerta málið, liggja, frammi svo að þeir, sem óska, geta athugað þau. Jeg þykist annars vita, að háttv. deild sje ljóst, að hjer er um mikilsvert nauðsynjamál að ræða, og að hún verði nefndinni samdóma um frv.