09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

120. mál, milliþinganefnd í slysfaramálum

Guðm. Björnsson, framsm.:

Háttvirti forseti ! Hjer í deildinni hefur í sumar oft verið minzt á slysfarir og ýms mannvirki til að koma í veg fyrir þau — brýr, hafnavirki og fleira þess háttar.

Háttv. þm. Hún sagði einu sinni, að öll þau mál væru gerð að tilfinningamálum, og mætti ekki svo til ganga, Það er alveg satt. Það á ekki svo að vera. En því er ekki að neita, að mönnum er nokkur vorkun, þótt svo fari, því öll slysfaramál eru tilfinningamál fyrir þá, sem bölið bíða. Það kemur við hjarta konunnar, ef hún missir manninn sinn í sjóinn, og öðrum getur sárnað það líka. Mjer líður aldrei úr minni voðinn í Viðeyjarsundi 7. apríl 1906. Þá sáum við Reykvíkingar stóra skútu hrekjast þar á skeri í ofsaveðri, skipið brotna og mennina hverfa í sjóinn, hvern á fætur öðrum; þegar 5 voru farnir, sneri jeg mjer undan; jeg gat ekki horft á það lengur. Þetta kom við tilfinningar mínar, og jeg ásetti mjer að hefjast handa gegn slysförunum, þegar jeg sæi mjer fært. Það hef jeg gert í hugvekju minni „mannskaðar á Íslandi“. Þó ritgerðin sje lítil að vöxtum, þá kostaði hún mig langa umhugsun og mikla rannsóknarvinnu. Við skulum tala varlega um tilfinningarnar, „í þeim er bæði gull og grjót“. Þær geta bæði unnið mein og hót. Þær geta leitt okkur afvega, en þær eru líka undirrót allra okkar beztu athafna, af því að þær girða skynsemina megingjörðum viljans.

Nú skal jeg ekki minnast einu orði framar á þessa hlið málsins, heldur tala um það blátt áfram, eins og hvert annað gagnsmunamál.

Öllum er Ijóst um búpeninginn, að þar er hver skepnan peningavirði, allir sjá glögt tjónið, sem hlýzt af lambadauðanum á vorin, pestinni, fjárkláðanum og — horfellinum, ef jeg má nefna hann á nafn. Þetta skilur hver maður.

En það er því miður, eins og flestum sje óljóst, að hver manneskja er líka peningavirði. Stundum rekast menn þó á það, að mannlífið er einhvers virði fyrir þjóðfjelagið, t. d. þegar fátækur en dugandi maður deyr frá konu og mörgum börnum í ómegð. En þjóðin er ekki farin að sjá þetta nærri nógu vel — eða rjettara sagt hún er hætt að sjá það: — því að forfeður okkar gerðu sjer miklu Ijósari grein fyrir gildi mannlífsins. Ef maður var veginn, varð vegandinn að bæta hann fullum bótum. Manngjöldin voru hundrað silfurs fyrir óbreyttan mann, og var það silfur að þyngd á við 480 kr. Menn greinir mjög á um verðmæti silfursins í þá daga móts við landaura, en jeg ætla að fara eftir því, sem fornfræðingurinn okkar hjer á þingi, Dr. Valtýr Guðmundsson, segir. Hann álítur, að silfrið hafi þá verið 10 sinnum verðmætara en nú á dögum og hafa þá manngjöldin numið 4800 kr. eftir nútíðar reikningi, en það voru bætur fyrir óbreyttan mann. Þrælsgjöldin voru 12 aurar, eða 10 sinnum lægri, og verða það 480 kr. á okkar vísu. Leysingjar voru bættir hálfum manngjöldum, 2400 kr. En þegar eftir höfðingja var að mæla, voru manngjöldin oft miklu hærri. Höskuldur Hvítanesgoði var bættur þrennum manngjöldum, (14,400 kr.). Hafliði Másson fekk 80 hdr. 3ja álna aura fyrir fingurna 3, sem Þorgils Oddason hjó af honum; svo að „dýr mundi Hafliði allur“. Á 14., 15. og 16. öld voru manngjöldin fyrir óbreyttan mann 20 hdr. á landsvísu. Ekki alls fyrir löngu dæmdi hæstirjettur í Kaupmannahöfn erfingjum 5000 kr. bætur fyrir mann, sem drepinn var. Engum getur dulizt, ef að er gáð, að þjóðarbúinu er meiri missir að hverjum fullorðnum manni, en einu hrossi eða nauti. Margir glöggir hagfræðingar meta hvern fullhraustan erfiðismann 20000 kr. virði fyrir þjóðfjelagið.

Það er því augljós gróði fyrir hverja þjóð, að draga úr manndauðanum, koma í veg fyrir vanhöldin. Að því keppa líka allar þjóðir nú á dögum, hver sem betur getur. Og þegar farið er í þjóðarjöfnuð, eins og farið var í mannjöfnuð í firndinni, þá telja hagfræðingarnir þær þjóðir fremstar, sem minstan hafa manndauðann, en lengsta mannsæfina. Og vafalust eruð þjer, háttvirtu þingbræður, við því búnir, að við munum þar, eins og vant er, vera neðarlega eða neðstir á blaði. Þess vegna fær það mjer fagnaðar, að geta sagt og sannað, að sje litið á æfilengdina, þennan ólýgnasta vott um velmegun hverrar þjóðar, þá erum við ekki lakasta þjóðin, þó vjer sjeum einna fámennastir, heldur erum vjer að því leyti komnir í tölu beztu þjóða heimsins.

Öllum er í minnum, að í stóru bólunni, 1707–08 dóu hjer 18 þúsund manns, fullur þriðjungur þjóðarinnar.

Í þá daga kunni engin þjóð að reisa rönd við drepsóttunum. En síðan hefur alt breyzt til batnaðar, heilsufræði, sóttvarnarfræði og læknisfræði hafa tekið óvenju miklum og margvíslegum þroska. Það er þeirri framför að þakka. að margar þjóðir þrefölduðust á 19. öldinni; sumar fram yfir það. Hjer á landi gekk alt miður, ekki svo vel, að um tvöföldun væri að tala; árið 1801 var fólkstalið rúmar 47000, en rúm 78000 árið 1901. Þetta seinlæti stafaði af því, að heilsubæturnar og sóttvarnirnar komu hingað á seinni skipunum, og urðu ekki að verulegu liði fyr en undir lok 19. aldar. En þá tókum við líka fjörsprett, sem þjóðin er að verða fræg fyrir. Jeg hef nýlega átt brjefaviðskifti við einn heimsfrægan vísindamann í þeim greinum; hann hefur kynt sjer út í æsar heilsuhagi allra menningarþjóða, þar á meðal Íslendinga; og hann hefur nýlega skrifað mjer, að heilsuframförin hjer á landi á síðasta mannsaldri, sje eins dæmi, hún sje aðdáunarverð, svo fljótt hafi okkur miðað áfram. Hann kallar þessa framför okkar umbyltingu („Revolution“), og þjóðinni til stór sóma. Hann spáði því, að við mundum fljótt ná beztu þjóðum heimsins ef ekki væru slysfarirnar, svona voðalega miklar.

Þessa miklu framfarabyltingu má sanna í einni svipan. Frá 1830–1870 dóu rjett um 30 menn af hverju þúsundi á ári 1871–1890 dóu upp og ofan rúmlega 24 af þúsundi á ári. 1891–1900 dóu tæplega 18 af þúsundi á hverju ári. 1902–1910 dóu rjett um 16 manneskjur af þúsundi á ári, til jafnaðar. Árið 1911 dóu rúmlega 14 af þúsundi, og eins 1912. Svona er nú þetta; um miðja 19, öld deyja að jafnaði 30 af 1000 á ári og mannsæfin er rúm 30 ár. Nú deyja ekki nema 15 af þúsundi og æfivonin er orðin yfir 60 ár að meðaltali. Nú eru ekki nema 4 þjóðir á undan okkur, dánartala þeirra er komin niður úr 14 af þúsundi, engin niður í 13. Og hvað gerir muninn? — Slysfarirnar, ekkert annað en slysfarirnar. En ef nokkur heldur, herra forseti, að þessi mikla framför þjóðar vorrar hafi komið sjálfkrafa og fyrirhafnarlaust, þá veit jeg ekki, hvað jeg á að halda. Jeg hef sjálfur átt dálítinn þátt í þessu framfarastriti síðan fyrir aldamótin, svo mikinn, að mjer er það kunnugt, að þar hefur oft verið við raman reip að draga. Og sjálfur hef jeg ekki annað aðhafzt, það sem af er æfinni, en að toga í það reipið af öllum mínum veika mætti. Og fjárlögin okkar láta á sjá, að þessi barátta þjóðarinnar fyrir lífi og heilsu er æði kostnaðarsöm. Það fje hefur líka oft verið talið eftir og skorið við neglur. Og þó hefur það borið margfaldan ávöxt. Barnadauðinn minkar óðum; hann er orðinn þrefalt minni en um miðja öldina sem leið; sullaveikin þverrar óðum ár frá ári; sama er að segja um holdsveikina. Fyrir 15 árum voru hjer á 3. hundrað manneskjur holdsveikar, nú ekki nema rúmlega 80; og óðum fækkar líka mannslátum af völdum taugaveiki, barnaveiki og annara farsótta: og hvað voru mislingarnir 1907 á við sömu veiki 1882 eða 1886? Eins og ekkert! manndauðinn margfalt minni. Og nú erum við líka loksins albúnir í baráttuna við berklaveikina, hún skal fara að þverra hjer, eins og í öðrum löndum. En eitt er þó eftir, og ekki nema það eitt, sem okkur hefur tekizt miklu ver en öðrum þjóðum: Það eru slysfarirnar. Þar stöndum við í stað, að heita má. Þar eigum við bágt; þar erum við ver settir, en nokkur önnur þjóð, sem jeg þekki til.

Hjer á landi er mannadauði af slysförum um það bil þrefalt tíðari en í öðrum löndum, og það eru mest alt druknanir; yfir 80% af öllum okkar slysförum eru druknanir. Og það eru rjett eingöngu fullhraustir karlmenn, sem drukna —fara í sjóinn, alt mjög verðmæt líf, ef metið er til peninga. Árin 1881—1910 fórust að jafnaði 84 manneskjur á ári, þar af 70 druknaðir; á þessum 30 árum druknuðu um 2000 karlmenn, en ekki nema rúmlega 100 konur. Og það er ekkert lát á þessu tjóni, enginn afljettir, engin framför. Lítið á uppdráttinn minn hjerna á lestrarstofunni, hann er ekki stór, en talandi vottur um það, að slysfarirnar hafa heldur færzt í vöxt, síðan um aldamót frá 1902 til 1910 og ekki eru síðustu árin glæsilegri; 1911 dóu 81 af slysförum, þar af 64 druknaðir (61 karlar og 3 konur); og 1912, núna í fyrra, dóu 115 af slysförum, þar af 96 druknaðir (94 karlar og 2 konur). Alls dóu í fyrra (1912) ekki nema 1246 manneskjur á öllu landinu, svo að það vantar lítið á, að 10, hvert mannslát hafi hlotizt af slysförum ! Tökum nú bara í reikninginn þessa 94 karlmenn, sem druknuðu, og metum þá til uppjafnaðar á 5000 kr. — það er mjög lágt mat — og þó verður tjónið fyrir þjóðarbúið, þetta manntjón, nærri hálf miljón kr. á því eina ári (1912).

Í norskum landhagsskýrslum hef jeg fundið, að þar druknaði árin 1901–10 ekki nema einn af hverjum 1000 fiskimönnum á ári, þeirra sem stunduðu fiskveiðar á. sjó, en þeir voru um 90,000.

Og jeg hef fundið í íslenzkum landshagsskýrslum, að hjer drukna margfalt fleiri árlega af hverjum þúsund fiskimönnum. Jeg hef fundið alveg fyrir víst, að frá 1904–1910 druknuðu árlega að jafnaði 15 af hverjum þúsund lögskráðum og vátrygðum hásetum á íslenzkum þilskipum.

Jeg hef fundið, herra forseti! að manntjón Þjóðverja í franska stríðinu 1870–1871 var minni að tiltölu við fólksfjölda, en mannskaðar hjer á sjó, sem íslenzka þjóðin varð fyrir árið 1887, og aftur 1897, og eins á árinu 1906, hvert þessara ára um sig.

Þetta má ekki svo til ganga. Vjer verðum að komast fyrir, hvernig á þessu stendur, grenslast eftir því svo ítarlega, sem frekast er unt — leita uppi orsakirnar. Þær hljóta margar að vera viðráðanlegar, eins hjer, sem annarsstaðar. Norðmenn hafa komið fyrir sig mörgum og miklum slysavörnum, sem ekkert er sint um hjer á landi. í Noregi voru slysfarir margfalt tíðari áður á tímum — meðan þjóðin ljet þær afskiftalausar, ljet alt orka að auðnu, eins og vjer gerum enn í dag.

Sá er eldurinn sárastur, sem á sjálfum brennur. Menn eru farnir hjer á landi að skammast sín fyrir þetta hirðuleysi; þess vegna vilja menn sem minst um það tala, helzt ekki nefna það á nafn, eða hilma yfir það, bera af sjer sökina, hver á annan, eða skella henni á brimið og bálviðrin.

Sjómennirnir kenna skipunum, útgerðarmennirnir kenna sjómönnunum. Hver kennir öðrum og þykist góður fyrir sinn hatt. Og málgagn þeirra sjómannanna vildi ekkert gera úr þessu, þegar jeg var að fást um það í fyrra; og fiskiþingið í sumar gaf því lítinn gaum, eins og þar væri ekkert hægt að gera — fór svo að hugsa um líftrygging sjómanna, og við vitum, hvernig það gekk; höfum allir sjeð þetta vanhugsaða frumvarp, þar að lútandi, sem kom frá fiskiþinginu til alþingis, og er öllum hjer ljóst, að ekkert vit er í því.

Það er hin hliðin á málinu: slysatryggingin. Hún er alstaðar komin á í öðrum löndum, fyrir alla verkamenn, og alstaðar er heimtað af vinnuveitendum, að þeir slysatryggi verkafólk sitt og borgi mestöll, eða öll iðgjöldin, sem til þurfa; og þetta er gert af því, að þar með eru vinnuveitendur knúðir til þess, af eigin hagsmunum, að hafa allan útbúnað í góðu lagi, gera alt sitt til þess, að varna slysum, til þess að slysaábyrgðin verði þeim ekki of þungbær. Hjer á landi verða verkamen oft fyrir voðaslysum, sem vinnuveitendur eiga sök á — en þeim aldrei gefið að sök.

Líftrygging sjómannanna okkar er dæmalausasta kák. — Ef sjómaður druknar, fær kona og börn tryggingarfje. Nú slasast maðurinn, lifir af, en verður öryrki, ómagi á heimilinu, í stað þess að vinna fyrir því. Þá fær heimilið — ekkert!

Hvað er slysatrygging? Hún er í því fólgin, að fyrir tiltekið iðgjald öðlast maður rjett til uppbótar, ef hann slasast. Fyrst og fremst fær hann dagpeninga, meðan meiðslið er að batna. Verði hann öryrki, þá fær hann uppbót eitt skifti fyrir öll eða ársfúlgu. Og deyi hann af slysum, fá erfingjar hans tryggingarfjeð.

En þetta er vandamál. — Það allra. vandasamasta af öllum tryggingarmálum; — þess vegna druknaði það í sumar í neðri deild.

Það er ekki efamál, herra forseti, að hjer er mikið og veglegt verkefni fyrir milliþinganefnd.

Sumir segja reyndar, að milliþinganefndir geri aldrei neitt gagn; en það er ósannur óhróður; þær hafa margar gert stórgagn, og allflestar haft góðan árangur, t.d. búnaðarmálanefndin, kirkjumálanefndin, fátækramálanefndin og eins skattamálanefndirnar, þó fátt hafi þar enn orðið að verki.

Þá segja aðrir, að fiskifjelagið eigi að gera þetta. En það er svo ungt og óþroskað. Hjer var búnaðarfjelag, miklu öflugra en fiskifjelagið, en þó var skipuð búnaðarmálanefnd. Þeir í fiskifjelaginu eru líka sakaraðilar í þessu máli og bera sökina af sjer — hver sem betur getur, og skella henni svo loksins á sjóinn og storminn, og vilja telja okkur trú um, að hvergi í heimi sje annað eins rok eins og hjer. — Þar fer sem oftar, að blindur er hver í sjálfs síns sök.

Hjer mega sjómenn og útgerðarmenn ekki vera einir um hituna, ekkert vit í því að selja þeim sjálfdæmi í þessu máli — sinni eigin sök.

Og loksins veit jeg vel; að einhver sparnaðarmaðurinn kann að segja, að þetta borgi sig ekki — svona rannsókn; við höfum ekki efni á því, það muni verða svo dýrt. En höfum við fremur efni á því, að borga Vesturheimsku umrenningafjelagi þúsundir króna til þess að koma hingað og græða á því, að hlaupa með okkur í gönur. Við gjöldum mönnum kaup á hverju ári fyrir að rannsaka dýr, og jurtir, og steina; — og segja svo, að þetta ætti ekki að borga sig! — Þessi rannsókn, sem vænta má að orðið, geti til þess, að draga að miklum mun úr því voðamanntjóni, sem árlega hlýzt af slysum. Verum ærlegir menn, og játum allir, að þetta nær engri átt. Ef nokkur rannsókn er ábatavænleg, þá er það þessi; ef spurt er um bráða þjóðarnauðsyn, — þá er hún hjer. Í firndinni hjeldu menn, að drepsóttirnar væru refsivendir drottins — eða álögur andskotans — og ekkert við þeim að gera — og svo var ekkert gert.

Slysfarirnar eru ekki drottni að kenna og ekki andskotanum, og heldur ekki að öllu leyti sjónum eða storminum, eða hríðunum, eða Bolungarvíkunum, eða jökulánum. Slysfarirnar eru ekki allsendis óviðráðanlegar; þær eru margar klaufaskap að kenna, eða vankunnáttu, eða illum útbúnaði, hinu og þessu, sem hægt ætti að vera að laga.

Og þess vegna eigum við ekki að draga það að hefjast handa — það borgar sig ekki.