09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

120. mál, milliþinganefnd í slysfaramálum

Steingrímur Jónsson:

Mjer virðist rjettast að styðja tillögu háttv 2. kgk. (E. B.) um að taka málið út af dagskrá, og skýt jeg því til háttv. flm., hvort hann geti ekki fallist á það (Guðm. Björnsson: Jeg hef ekkert á móti því). Jeg tel það rjettara, af því að hjer er um kostnað að ræða, að sett sje „alþingi“ í staðinn fyrir „efri deild“. Jeg er annars tillögunni samþykkur; en játa það, að það getur orðið örðugt að hafa full not af mannskaða skýrslunum fyrstu árin. En þess ætti heldur ekki að þurfa, nje heldur er það bráðnauðsynlegt að leggja málið þegar fyrir næsta þing. Nefndin getur verið starfandi ein 4–6 ár. Það sem mest ríður á, er að sem fullkomnustum skýrslum sje safnað, og málið að öllu leyti sem bezt undirbúið, áður en því er ráðið til lykta af þinginu, betra þó það dragist árinu lengur. Mjer hefur dottið í hug, að það mundi rjettara, að bæta aftan við tillöguna ákvæði um að, að öll stjórnarvöld væru skyldug til að láta nefndinni í tje allar þær skýrslur og upplýsingar, sem þau gætu. Slíkt hefur áður verið venja. Jeg skýt þessu fram til athugunar.