10.09.1913
Efri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Steingr. Jónsson:

Jeg býst við, að frv. þetta verði samþ., en mjer finst málið svo mikilvægt, að mjer finst rjett að gera samt sem áður grein fyrir atkvæði mínu og lýsa skoðun minni á frv. Ef það hefði komið svo snemma fyrir deildina, að hún hefði getað athugað málið rækilega, mundi jeg hafa komið fram með breytingartillögur, en nú er það þýðingarlaust.

Jeg skal ekki neita því, að frv: þetta hefur talsvert mikla kosti til að bera, og mun jeg því ekki greiða atkvæði á móti því. Það er að minsta kosti eitt atriði, sem þar er ráðin bót á, og sem allir landsmenn eru sammála um; það er afnám konungkjörinna þingmanna. Jeg viðurkenni, að það er nauðsynlegt vegna þingræðisins; því að með okkar fámenna þingi samrýmast þingræði og konungkjörnir þingmenn ekki. Aðalástæðan fyrir því, að rjett er að afgreiða þessa stjórnarskrá, er líka þetta.

Þá er annað atriði, það er kosningarrjetturinn. Þar finst mjer rjett að greina á milli tvens. Annarsvegar, að bætt er úr órjetti. Má þar fyrst nefna að konur, sem eru í sjálfstæðri stöðu, hafa ekki átt kosningarrjett. Þær hafa í um 30 ár haft kosningarrjett til sveitastjórna og alt rjettlæti heimtar, að þær fái einnig kosningarrjett til alþingis. í annan stað er útsvarsgreiðslan afnumin sem skilyrði fyrir kosningarrjetti. Slíkt skilyrði er ekki rjettmætt, eins og skattálögum er nú háttað, hjer á landi. Þetta hvortveggja er mjög til bóta. En það hefur verið gengið lengra, og jeg álít, að þingið svigni þar fyrir straumi, sem gengur yfir löndin, svo mjög, að það er vafamál, hvort það er holt fyrir okkur; athugavert, hvort við svignum ekki um of fyrir straumþunganum. Að minsta kosti finst mjer, að það hefði mátt dragast lengur. Á meðan þessir menn, sem hjer er veittur kosningarrjettur, hafa ekki fengið æfingu í að nota hann rjett á ýmsum svigum öðrum, svo sem í sveitarstjórnarmálum, er mikið vafamál hvort þetta verður til góðs, og finst mjer því, að við rennum hjer dálítið blint í sjóinn. En þetta frv. er betra en frv. 1911 að því leyti fjölgunin kemur ekki öll í einu, heldur smámsaman á 7–8 árum. Þá getur líka komið til greina, hvort þetta samrýmist hjúalögunum okkar, hvort þau lög leyfa hjúum það frjálsræði, sem nauðsynlegt er til þess, að geta neytt þessa rjettar, sem þeim er hjer veittur. Þá er 3. atriðið, sem jeg álit þýðingarmikið. Það er afnám ríkisráðssetuákvæðisins úr stjórnarskránni. Þetta atriði er mjög þýðingarmikið fyrir það, að hjer gerum við tilboð til Dana, um að leiða þetta spursmál til lykta með samvinnuþýðleik, og held, jeg að þetta geti með engu móti spilt samvinnunni við Dani. Menn geta að vísu spurt, hvað sje unnið með þessu. Málin verði eftir sem áður borin upp í ríkisráði Dana. Það er tvent unnið; fyrst að það er viðurkent, að þetta mál sje sjermál, og hitt, að ekki þarf annað en að ráðherra undirskrifi með konnngi „resulution“ um, að þessi mál verði ekki borin upp í ríkisraðinu, til þess að því verði hætt. Jeg skal ekki segja um, hvort þetta verður samþykt, en jeg álít, að aðferð okkar sanngjarna og afstöðu okkar til Dana því góða. Vegna þessara atriða, sem jeg hef nú talið, mun jeg ekki greiða atkvæði á móti frv.

En jeg finn galla og þá all-verulega á frv. Aðalgallinn virðist mjer vera, hvernig skipun efri deildar er fyrir komið, því það er skoðun mín, að heppilegast sje, að efri deild sje öll hlutfallskosin. Jeg álít, að hún eigi að vera fulltrúi þeirra manna, sem hafa borið og bera enn byrðar þjóðfjelagsins. Þetta er viðurkent að nokkru leyti með því, að aldurstakmarkið fyrir kosningarrjetti við kosningu hinna sjálfsögðu efrideildarmanna er hærra og þetta væri gott, ef deildin öll væri kosin á sama hátt. Hvort menn kalla þetta íhald, skiftir ekki máli, en það liggur í hlutarins eðli,. að af ákvæðunum um kosningu 8 þm. af sameinuðu þingi til Ed. leiðir, að yngri menn, og fjöldinn yfir höfuð ræður mestu eða að minsta kosti miklu um of, hvernig hún er skipuð. Mjer er það mjög ógeðfelt, að einir 6 menn eru kosnir á þennan rjetta, hátt og þótt það bæti nokkuð úr, að þeir 8, sem kosnir eru af sameinuðu alþingi, eru kosnir með hlutfallskosningu, þá er það þó ekki nægilegt að minni hyggju. Þetta gerir það að verkum, að jeg álít að þetta geti aðeins orðið bráðabirgðar fyrirkomulag, og þjóðin þarf að athuga það vel, hvort ekki er nauðsynlegt að breyta þessu á næsta þingi, því þótt það kosti að vísu nýjar kosningar, þá kostar það þó ekki aukaþing, því að reglulegt alþingi verður haldið árið 1915, eins og venja er til. Auk þess vona jeg, að þess verði ekki langt að bíða, að við fáum góða samninga við Dani, um sambandsmálið, og þá verður stjórnarskránni að sjálfsögðu breytt, og þetta atriði væntanlega tekið til athugunar.

Sú mótbára hefur aðallega verið færð fram á móti því, að hafa fleiri en 6 þm.. hlutfallskosna, að þá yrði að breyta kjördæmaskipun landsins. En þessi mótbára er mjög veigalítil, því að það þarf að breyta kjördæmaskipuninni hvort sem er áður langt um líður; það er þannig óhæfa, að 6 þm. mæli fyrir 8 þús. manna, en einungis 2 fyrir 13 þús. hjer í Reykjavík. Það getur verið rjett, að höfðatalan ráði ekki eingöngu við kjördæmaskipunina, en þetta er þó að hafa algerlega hausavígi á rjettu og röngu.

Þá er annað atriði, sem er mjög athugavert, og það er að innleiða þjóðaratkvæði um sambandsmálið. Jeg get hugsað, að þetta geti reynzt mjög óheppilegur slagbrandur fyrir samningum milli landanna, og er þá illa farið. Það er að vísu ekki mikið um að tala, ef að ræða er um samninga eins og uppkastið frá 1908, þar sem gerð eru lög um sambandið í heild sinni, en ef semja á um einstök atriði, get jeg hugsað, að þetta reynist mjög óheppilegt, og hygg, jeg að þetta hafi ekki verið athugað sem skyldi.

Auk þessa, sem jeg nú hef tekið til athugunar, eru ýmsir gallar á frv., sem jeg tel ekki svo mikils umvert, að vert sje að breyta því af þeim ástæðum, eða hindra framgang þess fyrir það. Það er t. d. undarlegt, hvernig frv. hefur nærri því skafið út 4. gr. stjórnarskrárinnar, og jeg hef ekki fundið neina ástæðu færða fyrir því, hversvegna það er gert. Jeg vil benda á eitt: rjett konungs til að flytja embættismenn. Því hefur að vísu lítið verið beitt, en hjer kemur þó fram tiltilhneiging til þess að rýra konungsvaldið, og það finst mjer ekki heppilegt. Ef hjer er hætta á misbrúkun þá; er sjálfsagt að þetta sje afnumið, en sú hætta er alls ekki til staðar. Sama er að segja um kunnáttu í íslenzkri tungu; því ákvæði er full ástæða til að halda, á meðan við höfum sama konung sem Danir. Þá er og eitt atriði í 11. gr., sem jeg kann illa við, það er útilokun dómara, sem ekki hafa umboðsstarf á hendi, frá kjörgengi. Jeg álít, að okkar fámenna Iand sje ekki svo efnað af færum mönnum, að það megi við því að banna dómurum þingsetu. Það gæti þó verið meining í þessu, ef mögulegt væri að banna þeim algerlega að fást við stjórnmál, en að banna þeim þingsetu en leyfa þeim að fást við stjórnmál að öðru leyti, er gagnslaust. Jeg álit, að þeir verði ekki síður háðir flokksæsingum fyrir þetta, þótt þeir megi ekki sitja á þingum.

Þá get jeg tekið undir það, að mjer finst óþarft að útiloka menn búsetta í Danmörku frá þingsetu, og mjer finst þetta hafa þann blæ, að það beinist nokkuð móti einstökum manni. Finst mjer það ekki vel viðkunnanlegt. Það virðist engin ástæða til þess að útiloka menn búsetta í Danmörku frá þingsetu, ef þeir geta fengið fylgi kjósenda, svo að nægilegt sje til þess að ná kosningu.