10.09.1913
Efri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

115. mál, Reykjavíkurdómkirkja

Júlíus Havsteen:

Þessi þingsál.till. gengur út á að setja dómkirkjuna undir umsjón biskups, en stjórnarráðið hefur áður haft þá umsjón á hendi, og getur þetta að minni hyggju ekki látið sig gera án laga. Þessi kirkja er eign landssjóðs og gilda því um hana sömu reglur sem um bændakirkjur, en nú á með væntanlegum úrskurði stjórnarráðsins að gera hana að nokkurskonar „beneficiaer“-kirkju, Þetta verður ekki gert nema með lögum, og jeg byggi mína skoðun um, að ekki megi afhenda hana á þann hátt, sem til ætlað er, á Iögum frá 22. maí 1890, og ennfremur á ýmsum lögum frá 1887 og 1897, snertandi afhending nokkurra landssjóðskirkna söfnuðunum í hendur. Álít jeg því, að þessi tillaga hafi engan árangur, þó að hún verði samþykt.

Að því, er snertir þessa löngu ræðu hv. 5. kgk. og allan upplestur hans, þá skildi jeg hann svo, að hann hefði fundið ýmislegt útásetningarvert við stjórn kirkjunnar frá því stjórnarráðið tók við henni. Jeg hef sjálfur haft umsjón með kirkjunni frá 1894–1904, og var þá viðhöfð hin mesta sparsemi. Hversu það hefir verið eftir 1904, get jeg ekki dæmt um, en líklega hefir sömu reglu verið fylgt og áður. Annars er búið fyrir löngu að endurskoða þessa reikninga og úrskurða þá, og ekki til neins að vera að lesa þá upp hjer í deildinni. Hv. 5. kgk. heldur, að alt sje komið undir að safna í sjóð, en jeg hugsaði, að það væri nú ekki nóg að safna í sjóð, heldur þyrfti líka að brúka peningana. Það þarf að halda kirkjunni við og ekki til neins að safna svo mikið í sjóð, en gera ekki við kirkjuna, en láta hana grotna niður, þar til hún er komin alveg að falli, því að þá verður kostnaðurinn við viðgerðina miklu meiri.