11.09.1913
Efri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

109. mál, forðagæsla

Einar Jónsson:

Fyrir skemstu sam þyktum vjer hjer í deildinni stjórnarskrárfrumvarp, þar sem það ákvæði er í, að sambandsmálið skuli lagt undir alþýðuatkvæði. En hjer í þessu frumv. og því er næst á undan var samþykt, er um þau mál að ræða, sem fremur ætti að leggja undir dóm alþýðunnar, áður en þau eru gerð að lögum, því að almenningur hefur ólíkt betur vit á þeim, en á sambandsmálinu, sem eðlilegt er. Í því máli hefði átt betur við, að beita þingrofi eins og þegar stjórnarskrárfrumv. er samþ.

En þó að jeg hefði heldur viljað, að þessi mál hefðu beðið næsta þings og verið betur rædd hjá þjóðinni, þá mun jeg ekki greiða atkvæði á móti frv., enda þótt ýmislegt sje að athuga við það, eins og minzt hefur verið á, því að sjálfur álit jeg, að bæði þessi síðustu mál sje þörf. Mjer þykir það líklegt, að ef frv. verður að lögum, þá verði þau lög ekki vinsæl. Því að þess er að gæta, að hjer er talsvert gjald lagt á sveitarsjóðina, og þarf almenningur að vera mjög sannfærður um nytsemi laganna, ef þeim á að vera vel tekið. En ef lögin reynast mjög óvinsæl, þá er auðvitað hægt að breyta þeim síðar.