11.09.1913
Efri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

71. mál, löggilding verslunarstaðar í Karlseyjarvík

Steingrímur Jónsson:

Það er rjett, að jeg hef verið andstæður þjóðjarðasölunni vegna þess, að sú þjóðjarðasala, sem jeg þekki, hefur gengið í þá átt, að fækka býlum, en fjölga ekki. En ef hún leiddi til þess, að smábýlunum fjölgaði, eins og átt hefur sjer stað í Danmörku, mundi jeg að líkindum ekki vera henni mótfallinn. Og af því, að það frv., sem hjer er um að ræða, gengur í þá átt, að taka landspildu undan einni jörð, sem er of stór fyrir, mun jeg ekki verða þessu mótfallinn. Einn aðalgallinn á landbúnaðinum hjá okkur er sá, að jarðirnar eru of stórar, en það gerir það að verkum, að menn hugsa litið um að rækta jörðina, en mest um að þenja sig yfir sem mest landsvæði. En þetta er öfugur hugsunarháttur. Og þjóðjarðasalan hefur ekki bætt þetta á neinn hátt. Jeg skil háttv. þingm. Húnv. svo, að hann vilji fækka býlunum en gera þau stærri, en við það fækkar fólkinu í Iandinu. Síðan um 1860 hefur þeim, sem lifa á landbúnaði fækkað, um 3000, og er það ilt að vita.