11.09.1913
Efri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Guðmundur Björnsson:

Hæstv. forseti! Jeg vildi leyfa mjer að gera ofurstutta athugasemd út af ummælum háttv. frsm. (J. B.) um símastöðina á Hraunum. Jeg hef ferðast þar um sveitir, og farið yfir Siglufjarðarskarð, og jeg, sem er spurull og vil vita sem flest, fjekk að vita það, að margir hafa orðið úti eða slasazt á Siglufjarðarskarði. Mjer finst það vera mjög skiljanlegt, að menn vilji fá símastöð á Hraunum, enda mjög bagalegt, að hún skuli ekki vera komin á fót. Ef símastöð væri á Hraunum, þá væri hægt að síma frá Siglufirði þegar menn leggja þaðan upp á skarðið, og yrði þá strax uppvíst, ef mennirnir næðu ekki til bygða; eins er það er menn leggja upp frá Hraunum, þá væri jafnan hægt að síma þaðan til Siglufjarðar. Þetta gæti bjargað mörgu mannslífi. Jeg skal ekki fara lengra út í þetta, það skilja allir. En víða stendur likt á, og það ætti að vera algild regla, að báðum megin við hættulega fjallvegi væri símastöð. Þetta mun nú sumstaðar vera komið í lag, en því miður ekki nógu víða.

Og eins er í víðáttumiklum hjeruðum, að síminn getur víða hjálpað mönnum til að ná í lækni. Jeg minnist á þetta af því, að mjer finst alt of lítið tillit hafa verið tekið til þessa tvens, þegar símar hafa verið reistir.

Þing og stjórn ætti að hafa vakandi auga á því, hvar símastöðvar eru gagnlegastar, því það er ekki mesta nauðsynin, að konurnar geti sem víðast símað milli sín alt sögulegt, sem gerist í sveitinni.

Og þörfina á símastöð á Hraunum áleit jeg svo mikla, að jafnskjótt og jeg kom heim úr ferð minni í fyrra, þá ritaði jeg stjórninni og vakti athygli hennar 8 því.