12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherra.:

Það er ekki eins dæmi, að svipaðir gallar hafi komið fram á frv. undir þinglok, eins og hjer, og frv. þó verið samþykt, en bætt úr göllunum, þegar á næsta þingi. Þannig var í lögunum um Íslandsbanka skírskotað í grein sem ekki átti við; frv. var eigi að síður samþykt á þingi, þótt menn vissu um þennan galla á því, og síðan staðfest af konungi. En á næsta þingi, þegar árið eftir –því þá var haldið aukaþing — var samþykt leiðrjetting á Iögunum. Eins mundi jeg fara að hjer, ef málið þá kemur til minna kasta.

Jeg get ekki sjeð, að skilningur háttv. þm. Skgf. (J. B.) á málinu sje nauðsynlegur. Og hvað er hægt að hafa á móti því, þótt sendiræðismennirnir flytji vin sitt sjálfir í land eða annist um flutning á því, fyrst þeim á annað borð er leyft að flytja vinföng til landsins? Það er ákveðið, að þeir megi ekki flytja inn vín nema til heimilisþarfa, og er mjer óskiljanlegt, hvaða freisting það ætti að geta verið fyrir því, að flytja vín milli skipa, rjett að gamni sínu.

Jeg sje ekki annað en samþykkja megi frv. eins og það er, þegar jeg lýsi því yfir, — að úr gallanum á því skuli bætt á næsta þingi, og þegar jeg ennfremur lýsi því yfir, að lögin skulu verða „praktíseruð“ eins og þingið ætlaðist til með þessu ákvæði aftan við 2. grein.

Umræðurnar um málið hafa verið svo skýrar, að þær taka af öll tvímæli um það, að hjer er ekki meiningin að útiloka apótekara eða aðra, sem nú hafa innflutningsrjett, frá því að nota hann. Jeg get ekki sjeð, að það sje stór skömm fyrir þingið, þótt einhver villa eða ósamræmi kunni að slæðast inn í eitt frv., þegar tíminn er svo afar naumur, og slíkur málafjöldi að afgreiða, og jafnmikið að gera, eins og nú hefur verið síðustu dagana að öðru leyti.