21.07.1913
Neðri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (242)

14. mál, vitagjald

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Það tókst svo til við atkvæðagreiðsluna við 2. umr. þessa máls, að það var felt að herakip skyldu vera undanþegin vitagjaldi. Eg hygg, að þetta hafi einungis verið af vangá, því að menn munu hafa talið það sjálfsagt að þeirri alþjóðareglu væri fylgt, að undanþiggja þessi skip gjaldinu. Því var það, að eg kom fram með breyt.till. á þgskj. 92. En síðan hefir nefndin átt tal við háttv. 1. þm. G.-K. (B. gr.), sem gat þess við 2. umr., að hann mundi annaðhvort koma fram með breytingartill. eða reyna að koma sér saman við nefndina. Nú hefir hann og nefndin komið sér saman um breytingingartill. þær, sem prentaðar eru á þgskj. 105. En með því að þar er farið fram á að undanþiggja herskip vitagjaldi, er minni breytingartill. ofaukið, og tek eg hana þess vegna aftur.

Úr því að aðrar breytingartill. hafa ekki komið fram frá nefndinni og þeim hv. þm., sem eg nefndi, er ekki ástæða til að tala um þetta frekara. Eg skal að eins geta þess, að nefndinni skildist svo, að það hefði alment fylgi, að skip, sem leituðu hafnar í nauð, skyldi undanþegin vitagjaldi og að það hefði verið móti vilja manna að það var felt við 2. umræðu. Þess vegna hefir nefndin tekið það ákvæði upp aftur.

Eg skal taka það fram, nú sem fyr, að mér er þetta ekkert kappamál, og eg held engum í nefndinni. En eftir því sem málið liggur nú fyrir og eftir öllum ástæðum, sem fram hafa komið, tel eg rétt að samþykkja breytingartill. á þgskj. 105.