12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Steingr. Jónsson:

Strax og nefndin fór að athuga þetta frv., þá sá hún, að hjer voru nokkur nýmæli, sem ekki eru til í hinum eldri veðdeildarlögum, er við höfum. Menn voru í nokkrum vafa um það, hvernig þessi nýmæli væru, sjerstaklega var það þó 3. gr. frv., er vakti athygli nefndarinnar, því þar er ábyrgðum öðruvísi fyrirkomið en verið hefur. Þar er fyrst ákveðin sameiginleg ábyrgð allra lántakanda, er nemi alt að 10% af upphæð lánanna, og í öðru lagi á bak við þessa ábyrgð, ábyrgð landssjóðs. Og er þetta alt öðruvísi, en verið hefur áður.

Þessi breyting var rædd allrækilega í æfndinni hjer, og eftir allmiklar bollaleggingar var ákveðið að koma fram með breytingartillögur þær, er voru samþyktar hjer við 2. umræðu.

Jeg get sagt fyrir mig, að mjer veittist allerfitt að fylgjast með þessu; jeg var hræddur um, að það væri nokkuð hál braut, er hjer væri verið að fara inn á.

Jeg er að vísu ekki bankafróður maður, en jeg var samt hálfhræddur um, að brautin væri hættuleg, og að þessi ákvæði mundu ekki auka álit bankavaxtabrjefanna erlendis, en um það skal jeg þó ekkert segja með vissu. En um það er jeg viss, að þetta ákvæði vekur óhug hjá fjöldamörgum lántakendum, að minsta kosti til sveita, og þeir munu jafnvel líta svo á, og það ekki alveg ástæðulaust, að hjer sje um hættu að ræða fyrir þá.

Jeg býst við því, að margur sveitabóndi mundi hugsa sem svo, hvað á jeg, sem hef góða og verðmæta jörð, að láta hana að veði — eða ábyrgð — fyrir húsaskrokkum í kaupstöðunum. Þeir eru oft illa bygðir og í þeim er mesta hættan fyrir veðdeildina.

En það varð samt úr, að nefndin vildi ganga að þessu, en þó jafnframt koma fram með breytingar til bóta. Og þessar breytingar voru samþyktar hjer í háttv. deild í einu hljóði eða nær því, og mjer datt ekki í hug annað en háttv, neðri deild gengi að þeim, og viðurkendi það, að það væri sjálfsagt, að taka þessu nýmæli með mestu varkárni. Og þeim mun fremur hefði hv. neðri deild átt að gera það, þar sem frv. þetta kom ekki rjetta leið til þingsins — frá landstjórninni, sem að sjálfsögðu ætti að bera slíkt mál fram, — heldur frá einstökum þingmanni.

En hv. neðri deild hefur ekki gert það.

Hinsvegar hefur hún sýnt nokkra viðleitni á því að orða ummælin mýkra, svo að hv. efrideildarþingmenn gætu gleypt þau án þess að fá klýu. En þessar brtill. hef jeg ekki getað fallizt á, og því fundið mig knúðan til þess að bera fram brtill. á þingskj. 8611, og hefur hv. 6. kgk. þm. (G. Bj., borið þær fram ásamt mjer.

Fyrsta brtill. er um, að í stað 5 miljónir í 1. gr. komi 3 miljónir. Jeg lít svo á, sem gera eigi þessa nýbreytni á veðdeildinni ekki nema til bráðabirgða. Jeg hygg, að sú skoðun verði almenn meðal þjóðar innar, að það sje nauðsyn að breyta þessu fyrirkomulagi, og hygg, að flestir sjeu á því, að rjett sje að setja á fót veðbanka. Og verði það, þá er næsta undarlegt, að fara nú að setja á fót stóra nýja veðdeild.

Fyrst er veðdeildin var sett á fót, var upphæð hennar 1100 þús. kr., en síðan , var bætt við hana viðbót, er nam 1200 þús. kr. En við 2. og 3. flokk nam upphæð þeirra hvor um sig 3 miljónum króna, og jeg sje ekki ástæðu til þess, að þessi nýi flokkur sje stærri en þær.

Það mun láta nærri, að fasteignir sjeu nú svo veðsettar hjer á landi, að ný veð deild, er nemur 5 miljónum kr., mundi endast ein 8 til 10 ár eða jafnvel lengur, og þar sem hjer er um tilraun með nýju fyrirkomulagi að ræða, og þar sem menn alment munu fremur hallast að veðbanka, þótt það mál sje ekki undirbúið nú, þá sje jeg ekki neina ástæðu til þess að láta upphæðina vera svo háa, að hún endist svo lengi. 4–5 ár ætti að vera nóg til þess að sýna reynsluna og undirbúa veðbanka, svo vel væri. En þetta er þó í sjálfu sjer ekki neitt meginatriði, því það verður auðvitað ekki lánað meir en eftirspurnin og þörfin krefur.

Næsta brtill. við 10. gr. er þýðingarmeiri. Það hefur verið svo, að þegar menn hafa fengið veðdeildarlán, þá hafa þeir ekki átt rjett á að fá þau greidd í peningum, heldur átt rjett á því, að fá þau borguð út í bankavaxtabrjefum. Þetta hefur mjer skilizt að væri sjálfsögð grundvallarregla, og sjerstaklega við viðdeildir eins og okkar hjer. En nú er þessu breytt svo, að bankinn ræður því sjálfur, hvort hann lætur lántakanda fá lánið greitt í bankavaxtabrjefum, sem honum eru afhent, eða hvort bankinn greiðir honum andvirði bankavaxtabrjefanna í peningum. Og ræður bankinn því, hversu hátt verð hann greiðir fyrir brjefin.

Nú stendur svo á hjer, að við höfum enga kauphöll, og því erfitt að vita hvað bankinn fær fyrir þau, eða hvað þau standa á hverjum tíma sem er, en þó jeg vænti þess, að bankastjórnin reyni, hvað hún getur, að fá sem mest fyrir þau, og fari vel með heimildina, þá gæti það samt farið á annan veg, og lögin eiga að vera til þess, að girða fyrir það, að svo geti orðið.

Af hvaða ástæðu á svo að ganga að þessu ákvæði? Jeg hef heyrt færða fyrir því þá ástæðu, að það sje hægra að selja í einu stóra fúlgu af bankavaxtabrjefum, hægra að selja fyrir 5 miljónir kr. í einu en 1 miljón kr. En jeg get ekki almennilega skilið, hvernig á að takast að selja bankavaxtabrjef fyrir miljónir kr., á sama tíma og bankinn ekki getur selt þan svo nemi 1000 kr., hvað þá meir, og á sama tíma og ónotuð er lánsheimild til þess að kaupa bankavaxtabrjef fyrir 250 þús. kr. En jeg skal gera það fyrir meðhaldsmenn málsins að setja svo, að Landsbankinn gæti selt brjefin fyrir 5 miljónir kr. nú á þessum tímum er öll verðbrjef standa óeðlilega lágt og lægra en peningaeklan í heiminum bendir til að vera ætti, líklega af pólitískum hreyfingum meðal stjórna landanna. Hvernig hegðar bankastjórnin sjer þá, er hún selur þessar 5 miljónir fyrirfram? Hún hegðar sjer alveg eins og sjómaður, er vill selja fiskinn í sjónum, eða bóndi, er vildi selja lambið innan í ánni. Bankastjórnin vissi harla lítið um, hvað mikið menn notuðu þessa nýju veðdeild, og hvort hún þar af leiðandi gæti afhent brjefin og sjómaðurinn veit heldur ekki, hvert hann veiðir fiskinn.

En hvernig fer nú, ef bankastjórnin selur bankavaxtabrjefin, segjum fyrir 94%, en eftir nokkur ár eru þau komin upp í og ganga kaupum og sölum í Noregi, Danmörku og Svíþjóð fyrir 98% eða jafnvel fult verð (pari). Hvernig er bankastjórnin þá stödd? Getur það þá gengið að því, að greiða bankavaxtabrjefin út þegar lán eru tekin með 94%? Mundi það verða vinsælt eða heppilegt fyrir hag bankans yfirleitt? Jeg held, að ef svo væri komið, færu ekki aðrir til Landsbankans til að fá veðdeildarlán, en þeir einir, sem allar aðrar bjargir væru bannaðar.

Alt þetta virðist mjer benda á það, að hjer hafi bankastjórnin að eins hugsað um það eitt, að gera bankavaxtabrjefin glæsileg að útliti, svo hún þættist heldur geta selt þau, en hins vegar ekkert litið á þá hlið málsins, er veit að lántakendum, enda er sú hlið næsta ískyggileg.

Jeg veit það, að báðir bankarnir hafa fengið að nokkru leyti ilt orð meðal landsmanna. Þeir hafa þótt ganga hart að lánum, og jeg hef heyrt menn nefna þá okurstofnanir, en það held jeg að sje ekki verðskuldað. En hvað fara menn þá að segja, ef þetta frumvarp nær fram að ganga? Jeg er mjög hræddur um; að það dragi ekki úr þessu áliti.

Í sambandi við þetta má benda á það, að samkv. 14. gr. hefur hver lántakandi rjett á að greiða aukaafborganir af skuld sinni með bankavaxtabrjefum eftir ákvæðisverði þeirra, og getur það því oft verið talsvert tap að eiga ekki rjett á því að fá bankavaxtabrjef til þess að greiða þessar aukaafborganir.

Þá er jeg kominn að þriðju brtill. á þgskj. 860, sem jeg skal játa að mjer er mest áhugamál um, og mjer þótti verst, að háttv, neðri deild tók ekki til greina, og hefði jafnvel ekki komið með hinar breytingartillögurnar, ef þessi hefði verið samþykt þar.

Samkvæmt 11. gr. á hver lántakandi að greiða 1% af lánsupphæðinni til varasjóðs, um leið og hann tekur lánið, og mjer finst þetta gjald vera sæmilegt og nóg, svo að við það þurfi ekki að bæta aftur 1%, ef eignin er seld. Mjer sýnist þetta gjald vera svipað og 1/2% gjaldið, er áður var greitt til landssjóðs, en nú er afnumið. En nú á að innleiða það í nýrri mynd, en ekki sem skatt til landssjóðs, heldur sem skatt til landsbankans. Þetta tel jeg með öllu óþarft, og tel það yrði að eins til þess, að hefta viðskifti manna. Og svo er þetta gjald alsendis óviðeigandi. Ef að á að innleiða slíkan skatt, þá á það ekki að vera til Landsbankans heldur til landssjóðs.

Ef maður á hús, sem er virt á 20 þús. kr., og fær út á það 8 þús. kr. í veðdeildinni — þá þarf hann eða kaupandinn að greiða 80 kr. til veðdeildarinnar, ef eignin er seld. Skattupphæðin verður þá 2/5% og er þá mjórra muna vant við gamla 1/2% gjaldið. Ef það hefði staðið óbreytt þetta ákvæði, eins og það kom frá háttv. neðri deild, þá hefði það oft getað numið 4/5% og það er alveg óhæfilegt haft á viðskiftalíf þjóðarinnar.

Og setjum svo annað dæmi: maður á jörð, sem er metin til veðdeildar á 2000 kr., og getur hann þá fengið 1000 kr. lán, ef jörðin er ekki yfirbygð af húsum. Við sölu á þeirri jörð þarf þá að greiða 10 kr. til veðdeildarinnar, ef hún þar er veðsett, eða 1/2 % af jarðarverðinu.

Nú eru jarðir fremur að ganga meir kaupum og sölum en áður: það gerir byltingin í þjóðfjelaginu. Menn flytjast burtu úr hjeruðunum til kaupstaðanna, og aðrir kaupa jarðirnar og fara að reisa bú. Þessi breyting er svo miklu meiri en áður var. En á þetta er lagt óeðlilegt og ranglátt haft með þessum skatti, og hann er ekki einu sinni lagður á vegna landssjóðsins, heldur vegna Landsbankans. Þetta er alt of langt farið, og ekki hægt að forsvara það.

Þeir, sem hafa verið að halda vörnum uppi fyrir þetta nýmæli hjer, hafa gert það með því, að hjer væri um hina sömu reglu að ræða sem í Danmörku. En þar er allt öðru máli að gegna. Þar voru það ýmsir einstakir menn, er slóu sjer saman til þess að setja veðdeildina á fót, og þeir hafa alla stjórnina sjálfir, þeir bera sjálfir tap, ef það verður, en fá líka hagnaðinn.

Jeg hefði getað ef til vill verið með þessu, ef það hefði gengið á undan, að skipulagi landsbankans hefði verið gersamlega breytt, þannig að landstjórnin hefði miklu meiri áhrif á stjórn bankans en nú er. Því að því verða menn að gæta, að landstjórnin er sá eini umbjóðandi, er þingið getur treyst, og því sjálfsagt, að hún ráði þar miklu um. Og að landstjórninni getur þingið altaf snúið sjer.

Jeg vænti því, að þessar brtill. verði samþyktar, og jeg get ekki sjeð neina hættu við það, þótt að frumvarpið fari í sameinað þing. Og jeg get heldur ekki sjeð, þar sem aukaþing á að verða að sumri, að það gerði í sjálfu sjer neitt til, þótt málið biði til þess tíma. Það, sem nú er eftir af 3. flokk veðdeildarinnar, mundi nægja þangað til, og þá gæti líka þjóðin lagt sinn dóm á málið.