12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Eiríkur Briem, framsögumaður:

Jeg vil minnast örlitið á dæmið, sem háttv.6. kgk. tók. Hann bar saman alment ábyrgðarlán og veðdeildarlán, og þótti lánskjörin harla ólík. En hann gætti þess ekki, að veðdeildarláninu fylgja ýmsir hagsmunir, sem ábyrgðarláninu fylgja ekki. Ábyrgðarlánin verða menn venjulega að borga á stuttum tíma, og bankastjórnin getur hvenær sem er sagt þeim upp; en veðdeildarlánin eru til mjög langs tíma. Þar að auki er rentan af veðdeildarláninu mun lægri. — Háttv. þm. var að tala um okur, og sprettur það af þeim almenna hugsunarhætti, sem jeg áðan mintist á, að öll renta, sem fari yfir 4%, sje okurrenta. En hvernig á að útvega lán frá útlöndum fyrir lægri vexti, en eru á heimsmarkaðinum? Í ríkisbankanum þýzka var rentan af veðlánum í allan fyrra vetur, frá því í oktober og fram í maí, 7%. Hún var þó nokkru lægri hjer. Það er eins með peninga eins og með hverja aðra vöru, að menn verða að beygja sig fyrir þeim prísum, sem eru á heimsmarkaðinum. Það er auðvitað tilfinnanlegt að þurfa að borga háa vexti. En það er ekki hægt að ráða við það, að vörur hækki í verði. Fátæklingnum svíður, þegar hann þarf að borga meira fyrir matbjörg sína, en hann hefur búizt við að þurfa að borga, en hann verðar að beygja sig fyrir nauðsyninni. Háttv. 3. kgk. sagði, að einstökum lántakendum mundi ekki suðvelt að sanna bankastjórninni, að hún byði oflítið fyrir brjefin. En það mundi ekki lengi dyljast, ef bankastjórnin hefði slíkt í frammi. — Það getur vel verið, að hjer sje um spekúlation að ræða, en það er spekúlation til hagsmuna fyrir lántakendurna. Hjer er um sama að ræða, eins og ef maður er gerður út til þess, að selja einhverja vöru, t. d. fisk, fyrirfram. Hann hrósar happi, ef hann getur selt fyrir það verð, sem hann telur gott, en ef varan svo seinna stigur í verði, þá veldur það vitanlega óánægju.

En þó mjer líki ekki frumv. að öllu leyti, þá álít jeg þá galla, sem á því eru, ekki svo verulega, að ekki beri að samþykkja frumv. fyrir það, og að samþykkja breytingartillögur er gagnslaust, eins og jeg hef þegar tekið fram.