13.09.1913
Efri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Steingrímur Jónsson, framsm.:

Jeg geri ráð fyrir, að sumum deildarmönnum komi það á óvart, að nefndin hefur lagt það til, að fjárlögin yrðu ekki látin ganga í sameinað þing, heldur samþykt óbreytt. Ástæður nefndarinnar til þessa eru þær: að hún áleit, að þótt fjárlögin kæmu í sameinað þing, mundu litlar líkur til þess, að þau atriði fengjust löguð þar, sem okkur hjer í efri deild er mest áhugamál um, en hinsvegar óttast hún, að opnaðar verði dyr fyrir fleiri breytingum. Þess var getið við 2. umr. fjárlaganna, að frv. stjórnarinnar hefði verið mjög varlegt, því að tekjur og gjöld stóðust nokkurnveginn á. Að vísu var bersýnilegt, að bæta yrði við nokkrum nýjum útgjaldaliðum, en nefndin í efri deild áleit þó, að hægt væri að gera frv. vel úr garði, án þess tekjuhallinn yrði mjög mikill. En niðurstaðan í neðri deild varð þó sú, að útgjöldin hækkuðu um fullar 350 þús. kr., áður en frv. kom hingað í deildina, og var þó feld niður ein stórbrú, sem farið var fram á að veita fje til í frv. stjórnarinnar. Það er máske ekki hægt að segja, að þessi meðferð neðri deildar sje óforsvaranleg, en hún er að minsta kosti mjög athugaverð; sú aðferð, að fjárlögin sjeu varla þekkjanleg frá því, sem þau voru, er þau komu frá stjórninni. Þetta hlýtur að taka hina fjárhagslegu ábyrgðartilfinningu frá stjórninni, því hún getur að eins borið mjög litla ábyrgð á því, hvernig farið er með fjárlógin á þinginu. Nefndin í efri deild hefur reynt að draga úr tekjuhallanum eins og mögulegt er, og hún vonar, að hún hafi sýnt, að þetta eru meira en orðin tóm hjá henni, enda hækkuðu gjöldin hjer í deildinni ekki nema um kr. 11.500. En við eina umr. í neðri deild hækkuðu þau um tæp 40 þúsuud, og er nú tekjuhallinn 316, 723 kr. Þessi tekjuhalli er að vísu ekki verulega hættulegur, en hann er þó óheppilega hár, því að æskilegt hefði verið. að fjárlögin væru nú svo úr garði gerð, að vænta hefði mátt nokkurs tekjuafgangs, en þess er nú ekki að vænta, því að við útgjöldin bætast ný fjárframlög samkvæmt lögum, sem þetta þing hefur samþykt. Sje jeg svo ekki ástæðu til að tala frekar um málið en vona, að frumvarpið verði samþ. óbreytt.