13.09.1913
Sameinað þing: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Einar Jónsson, 1. þm. Rv.:

Hv. þm. er ekki ókunnugt um, að jeg er á móti frv.; jeg ljet það greinilega í ljós um daginn, þegar málið var til meðferðar hjer í Nd. ; skoðun mín á því hefur ekki breyzt síðan.

Háttv. 1. þm. G.- K. (B. Kr.) Ijet sjer þau orð um munn fara, að þeir, sem álitu óaðgengileg þau veðdeildarlán, sem boðin eru í þessu frv., gætu látið vera að ganga að þeim, og hætt við að taka lán. Jeg þekki ekki, að nokkur sje að taka lán að gamni sínu, heldur til einhverra nauðsynja sinna eða til þarflegra fyrirtækja. Það má því ekki setja lánskjörin svo erfið, að frágangssök sje að taka lánin. En svo má það heita hjer, þar sem fyrst eru þessir háu vextir, og þar að auki tekinn 1% af lánsupphæðinni í varasjóð; og þennan 1% á svo að greiða í hvert sinn, sem eignin, sem sett er að veði, kann að verða seld; og svo bætist við það, sem ekki er minst um vert: verðfallið á brjefunum. Það er auðsjeð, að hjer er alt svo í pottinn búið, að enginn vill líta við þessum lánum. Jeg hygg því, að það verði bankastjórnin ein, sem fær að hringla við veðdeildina, og að hún verði ekki til annars en til að baka landssjóði tap. Jeg tel það því bezt ráðið, að steindrepa frv.; og sízt yrði það okkur til sóma að samþykkja annað eins og þetta. Þó mjer verði núið því um nasir, að mig skorti þekkingu á þessu máli, þá er að taka því. Jeg verð að lifa á minni þekkingu og hegða mjer eftir henni, en vil hvorki s sækja þekkingu til háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) nje taka áminningum hans og ákúrum.