13.09.1913
Sameinað þing: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Guðmundur Björnsson:

Hæstv. forseti! Jeg má til. að segja örfá orð um þrjú atriði í ræðu háttv. 1. þm. G.- K. (B. Kr.).

Hann fann að því, að jeg hefði bara talað um landsbankann, óánægju manna við hann, og ekki mintist á Íslandsbanka og hans veðdeild. Jeg veit vel, að margir eru óánægðir með þann banka líka, en jeg sje ekki, að það bæti neitt málstað lands bankans. Íslandsbanki kemur ekki þessu máli við; og við eigum, eins og vant er, að halda okkur að umtalsefninu.

Þá sagði háttv. sami þingmaður, að jeg hefði talað um úrræðaleysi landsbankans, en þagað um það, að stjórninni hefði stundum ekki tekizt að fá lán, — rjett eins og það sje sjálfsagt, að hafi landsstjórnin engin nýtileg ráð, þá eigi Iandsbankastjórnin líka að vera ráðalaus.

Og loks var háttv, þm. G: K. (B. Kr.) að bríg7la mjer og háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) um það. að öll okkar afskifti af þessu máli, væru sprottin af flokkshatri, af óvild til sín. En þar skjátlast honum; þau eru einmitt sprottin af velvild — velvild til bankans; við vitum, að bankinn getur aldrei haft annað en óvirðingu af þessu vanhugsaða og misráðna veðdeildarbraski.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) hefði ekki átt að vera að bregða okkur um ókurteisi við sig; það var hann sem rjeðst á okkur að fyrrabragði með móðgandi ókurteisisorðum, og þetta var svo lítið, sem jeg vjek að honum í staðinn, — það hefði getað verið miklu meira. Og ekki hefur honum farið fram í kurteisinni síðan áðan, því að nú er hann að brígzla okkur um það, að við sjeum stjórnarpeð, og okkur sje leikið eins og peðum, bæði áfram og til hliðar og aftur á bak. Það hef jeg heyrt, að peðum sje leikið áfram og á ská, en að þeim sje leikið afturábak, þess hef jeg aldrei heyrt getið, nema alls einu sinni. Það var, þegar háttv. 1. þm. G.- K. (B. Kr.) var stjórnarpeð, þá var honum leikið afturábak — inn í landsbankann!