12.07.1913
Neðri deild: 9. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

44. mál, skipun landbúnaðarnefndar

Sigurður Sigurðsson:

Það hefir verið venja á undanförnum þingum, alla tíð frá 1901 að minsta kosti, að skipa nefnd manna til að íhuga þau mál, er snerta landbúnaðinn og kynnu að vera borin upp í deildinni. Eg geri ráð fyrir, að á þessu þingi komi einnig fram ýms frumvörp eða tillögur, sem ástæða væri til að vísa til slíkrar nefndar. Eg skal ekki nefna nein sérstök frumv., sem eru á ferðinni, en að eins geta þess, að þegar hefir verið útbýtt hér í deildinni langri þingsál.till. um breytingu á ábúðarlöggjöfinni o. fl., sem sennilega verður vísað til nefndarinnar.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till., en vænti að hún verði samþykt og nefndin kosin.