06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (2509)

13. mál, vörutollur

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Þessar br.till., sem hér liggja fyrir, eru ekki mikils varðandi. eða sérlega íhugunar verðar. Br.till. um vélaáburðinn er fram komin af því, að einn háttv. þm. benti nefndinni á það, að ekki væri rétt að hafa allar tegundir af honum í sama flokki. Í sumum af þeim tegundum er feiti, sem heyrir undir annan tollflokk, en nefndin vildi gjarna að vélaáburður úr olíu væri í 25, en ekki 10 aura flokki, því að það mun vera óvanalegt, að í honum sé tóm olía, heldur og önnur efni.

Þá er annar liður í breyt.till. sá, að í staðinn fyrir orðin: »öll veiðarfæri, þar á meðal«, komi: »als konar færi, fiskinet, kork«. Þetta er gert í samráði við sama háttv. þm., sem talaði um þetta við nefndina við 2. umr. Nefndin félst á það, að ákvæðið: »als konar veiðarfæri«, mundi verða erfitt í framkvæmdinni, og hentugra vegna tollheimtunnar, að telja upp tegundirnar, þótt eitthvað kunni þá að falla úr. Svo hafði nefndin gleymt að telja kork. Og 3. liður er eiginlega að eins lagfæring á prentvillu, sem var mér að kenna, sem sé þeirri, að eins og nú er, eru mottur taldar tvisvar í frumvarpinu.

Eg vona nú að þessar breyt.till. verði samþyktar og málið afgreitt frá deildinni.