11.08.1913
Neðri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

57. mál, girðingar

Þorleifur Jónsson:

Að eins fáein orð út af ræðu háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.). Hann sagði, að ef alt væri gefið laust, þá væri engin trygging fyrir því, að menn girtu ekki yfir fjölfarna vegi. En eg hygg, eins og eg hefi tekið fram áður, að tryggingin sé fólgin í því, að menn mundu sjá sinn hag í því að gera það ekki. Hliðum á mjög fjölförnum vegum yrði aldrei hægt að halda aftur. (Ólafur Briem: Það mætti sekta menn fyrir að loka þeim ekki). Nei, sektum yrði ekki við komið. Hlutaðeigandi menn mundu reka sig á það eftir skamman tíma, ef þeir hefðu ekki séð það fyrir, að það er ógerningur, að halda hliðum aftur þar sem stöðugur ferðamannastraumur er bæði á degi og nóttu, viku eftir viku, sumar og vetur. Svo búið gæti aldrei staðið lengi. Eg álít þess vegna, að það gæti ekkert skaðað, þar sem um fjölfarna vegi er að ræða, þó að menn væru látnir sjálfráðir um þetta. Það mundi leiða af sjálfu sér, að þeim réttindum manna yrði ekki misbeitt.

Viðvíkjandi sýslunefndunum skal eg geta þess, að eg skaut því fram, að ef nokkuð ætti að takmarka þessi réttindi manna, þá væri eðlilegast að sýslunefndirnar réðu yfir því, hvar leyft skyldi að girða yfir vegi og hvar ekki. Þær þekkja bezt til hver í sinni sýslu, og mætti því búast við því, að þeirra úrskurður yrði í hverju tilfelli svo sanngjarn sem hann annars getur orðið. En að eg kom ekki fram með breyt.till. í þessa átt, var vegna þess, að eg áleit, að alt ætti að vera frjálst, og að engin takmörk ættu að vera önnur en þau sem leiða af sjálfu sér. En ef menn eiga ekki að vera sjálfráðir um girðingar sínar að þessu leyti, væri það mikil bót, að því væri breytt svo að sýslunefndirnar réðu fyrir því. Það mundi meðal annars taka miklu styttri tíma að fá úrskurð þeirra um þetta efni, heldur en ef leita þarf til stjórnarráðsins. Ef br.till. á þgskj. 320 verður feld, mundi eg þess vegna ekki hafa neitt á móti því, að þessu yrði breytt þannig.