08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

109. mál, forðagæsla

Þorleifur Jónsson:

Eg skal fyrst játa, að eg hefi ekki sérlega mikla trú á nytsemi þannig lagaðra laga eins og þetta frumvarp er, sem nú liggur fyrir. Við höfum haft um nokkurn tíma þess konar lög, horfellislögin frá 9. Febrúar 1900, og eg held að flestir viðurkenni, að þau hafi ekki gert sérlega mikið gagn. Eg held, meira að segja, að þau lög hafi reynst alt annað en praktísk, og það er varla við öðru að búast. Það er mikið vandaverk að setja lög um, hvernig menn eigi að hegða sér, sem atvinnurekendur. Það er vandasamt að semja lög, sem skipa vissum mönnum að búa fyrir sveitunga sína að meiru eða minna leyti. Margir þeir sem telja slík lög nauðsynleg, hafa haldið því fram, að það hafi vantað í horfellislögin frá 9. Febrúar 1900, að haustskoðanir skyldu fara fram. Það má vel vera, að þær hefðu gert frekara gagn en vorskoðanirnar einar, því skal eg ekki neita, þó að eg hina vegar geti ekki viðurkent, að þetta sé það eina sem að þeim lögum má unna. En þó að eg hafi nú ekki mikla trú á þannig löguðum fyrirskipunum, þá vil eg ekki beinlinis leggjast á móti þessu frumv. Eg vil að þeir er halda því frekast fram, að þetta sé allra meina bót, fái að komast að raun um, hvort það verður til þess að bæta búskapinn að því leyti, að skynsamlegar verði sett á og menn þar af leiðandi betur búnir undir harða vetur. Þess vegna hefi eg ásamt háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) komið fram með nokkrar breytingartill. Viðvíkjandi einstökum atriðum frumvarpsina. Háttv. framsm. (Ól. Br.) tók vel á þeim öllum og þarf eg þess vegna ekki að eyða mörgum orðum að þeim.

1. brt. okkar á þgskj. 749 fer fram á, að í 3. gr. komi: snemma vetrar, í stað orðanna »í vetrarbyrjun«. Það hagar svo til í mörgum hreppum hér á landi, að óheppilegt er að skoðunin fari fram í vertarbyrjun. Fé er þá víða varla komið að og í mörgum útigangasveitum getur það dregist fram undir Jól, að fénaður sé kominn að húsi. Þess vegna fanst okkur rétt, að binda ekki skoðunina við vetrarbyrjun, og álitum nægilegt að ákveða að hún skyldi fara fram einhvern tíma snemma vetrar.

Þá förum við fram á, að síðasti málsliðurinn í 3. málsgr. 3. gr. falli burt. Við eru hræddir um, að mörgum skoðunarmönnum muni verða erfitt að mæla heyin, en þó einkum að meta fóðurgildi þeirra. Við búumst því ekki við öðru, en að ákvæði um það yrði ekki annað en dauður bókstafur. Það eru miklir annmarkar á því fyrir ókunnnuga menn, að komast að því, nokkurn veginn með víssu, hve miklar heybirgðirnar eru á þeim og þeim stað. Það er auðvitað hægara þar sem heyunum er kastað úti, en þar sem þau eru í hlöðum, verður skoðunarmaðurinn að fara að mestu leyti eftir því sem bóndinn segir til. Og að meta fóðurgildi heyjanna, það verðum við að álita, í flestum tilfellum, alveg óframkvæmanlegt.

3. brt. okkar fer fram á, að því sé einhver takmörk sett, hve mikið sveitasjóðunum beri að borga fyrir þessa forðagæzlu. Menn munu álíta, að ef hún verður ekki að miklu gagni, þá sé hún því verri því dýrari sem hún sé. En eins og frumvarpsgreinin er nú orðuð, þá er ekki loku skotið fyrir það, að skoðunarmennirnir geti ekki teygt tímann eins og þeim sjálfum sýnist. En með því móti gæti kostnaðurinn orðið alltilfinnanlegur fyrir hreppssjóðina. Við viljum því breyta greininni þannig, að það fari eftir samkomulagi milli hreppsnefndar og skoðunarmanna, hvert kaupið verður. Eg ímynda mér, að horfellislögin frá 1900 hafi víða þótt leggja hreppunum óþarfa byrði á herðar. Eftir þeim var þó ekki nema um eina skoðun að ræða. En þegar nú á að fara að borga fyrir tvær eða fleiri skoðanir, þá er eg hræddur um, að menn muni risa mjög á móti því, einkum þeir sem álita, að þetta muni ekki gera mikið gagn. Við álítum, að það sé til talsverðra bóta, að breyta greininni á þann hátt, sem við förum fram á.

Þá höfum við í fjórða lagi komið fram með brt. við 8. grein frumvarpsins um, að niður falli ákvæðið um, að sýslunefnd semji reglugerð forðagæzlumanna eftir fyrirmynd, sem bjargráðastjórn landsins lætur í té. Þetta ákvæði kann í sjálfu sér að gera lítið til, en það hefir verið skoðun okkar, að sýslunefndir ættu að fjalla um þetta sjálfar og hafa sem óbundnastar hendur, því að þær munu reynast fróðastar um, hvað bezt hentar í þessu efni á hverjum stað.

Þá höfum við einnig viljað nema brott það ákvæði, að stjórnarráðið þurfi í hvert skifti að leita álits bjargráðastjórnar áður en það samþykkir reglugerðir sýslunefndar. Okkur virðist það ekki annað en óþarfa snúningar og töf; en ef stjórnarráðinu sýndist, gæti það borið það undir Búnaðarfélag Íslands.

Þá er breytingin við í 1. gr., sem er í því fólgin, að við viljum fá hreppstjórum það vald í hendur, sem sýslumanni er þar ætlað samkvæmt frumv. Það getur komið fyrir, að svo langt sé til sýslumanns, að ógerningur sé að ná til hans í tæka tíð. Eg skal geta þess til dæmis, að í Austur-Skaftafellssýslu tekur það 3 vikur til mánuð frá því sýslumanni er skrifað þar til svar kemur til baka með póstum. Gæti þá alt verið dautt hjá veslings bóndanum, áður en úrskurður sýslumanns kæmi. Það getur verið, að sumum þyki hreppstjórum fengið fullmikið vald í hendur með þessu, en eg vænti þess, að þeir beiti ekki valdi sínu mjög frekt í þessu, það sé engin hætta. Og eitthvert vit fæst þó í þessi fyrirmæli með svona löguðu ákvæði.

Eg vænti þess, að brtill. okkar, þó að smávægilegur sé, horfi fremur til bóta frumv., ef þær ná fram að ganga, og mun eg fylgja frumv. í heild sinni, ef þær verða samþyktar, þó að eg telji það raunar ekki annað en nýja bót á gamalt fat, að fara nú enn einu sinni að basla við að búa til ný horfellislög.