08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

109. mál, forðagæsla

Eggert Pálsson:

Eg get tekið í sama strenginn, sem háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), hvað sjálft frumv. snertir, því að eg lít svo á sem hann, að öll svo kölluð horfellislög komi ekki að tilætluðum notum, heldur séu þau högg út í loftið, sem lítið eða alls ekkert gagn geri.

Það veit og skilur hver einasti maður, að engum einum manni er fært að gefa öðrum fullgildar fyrirskipanir um, hvað sé holt eða hagkvæmt fyrir hann að því er snertir inar sérstöku kringumstæður og fyrirkomulag á búnaði. Það hagar svo misjafnlega til meira að segja í sömu sveit, að það sem einum er holt, getur verið öðrum ilt og óhagkvæmt. Og ef menn vita ekki sjálfir, hvað þeim er fyrir beztu að því er búskap snertir, þá geta aðrir tæplega kent þeim það. Það er farið fram á það í frumv. þessu, að gefa einum eða tveim mönnum í hreppi vald til þess að ráða fyrir öllum öðrum búendum í hreppnum að því er heyásetningu og fénaðarhirðingu snertir, en það getur að minni hyggju aldrei blessast. Menn verða sjálfir að læra að sjá sér farborða og haga sér í þessum eflum eftir því sem reynslan sýnir að bezt á við á hverjum einstökum stað. Reynslan hefir leitt í ljós, að horfellislögin, sem Við nú höfum, hafa ekki komið að notum, heldur verið hreinasti hégómi eða »humbug«, og eg býst við að svo verði einnig með þetta frumv., þótt það verði að lögum og beri annað heiti. En eg þykist vita, að það sé að berja höfðinu við ateininn að vera á móti því, og að það verði samþykt með afli atkvæða, hvort sem þjóðin vill eða ekki og að henni fornspurðri. En eg finn skyldu mína til að bæta úr þessu hégóma horfellisfrumv., sem unt er, og þess vegna hefi eg borið fram brtill. á þgskj. 748. Fyrri hluti brtill. minnar er að efni til samhljóða brtill. á þgskj. 749, en seinni hlutinn kemur í veg fyrir að ótakmörkuðu fé hreppabúa sé eytt í alt þetta »humbug« og að engu gagni. Eg vil ekki láta gjaldið fara fram úr 1 kr. á búanda. Það hefir hingað til þótt nóg, þegar um borgun til hreppstjóra hefir verið að ræða, og starf þessa svo nefnda forðagæzlumanns er sannarlega ekki þýðingarfyllra eða veglegra en starf hreppstjórans. Eg sé það, að sumir vilja láta þessa borgun eingöngu fara eftir samkomulagi við hreppsnefndina, en mér er ekki ljóst, hvernig það samkomulag getur fengist. Hve nær eiga hreppsnefnd og forðagæzlumaður að koma sér saman ? Á það að gerast áður en kosið er, eða þegar búið er að kjósa ? Ef samið er fyrir fram og hreppsnefndin vill vitanlega halda í, getur verið að beztu menn skorist undan kosningu og þá takmarkast valið og lendir sennilega á óheppilegum manni. En ef samið er eftir á, þegar búið er að kjósa, getur hreppsnefnd ekki sett manninn af þó að hann gangi ekki að kjörum, þeim sem hún býður, svo að það getur þannig í eðli sínu ekki verið um neitt samkomulag að ræða. En ef mín brtill. kemst fram, þá er þar um fast lagaákvæði að ræða, hvað miklu megi verja úr hreppasjóði í þessu skyni.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) taldi þetta ákvæði mitt alt of bindandi fyrir sveitarstjórnirnar. En má eg spyrja: Er ekki alt frumv. bindandi fyrir þær? Er það ekki bindandi, að þurfa að borga svo og svo mikið úr hreppssjóði fyrir allar þessar ráðstafanir, jafn þýðingarlausar og þær eru og hljóta að verða ? Eg geri að vísu ekkert kappsmál úr því, hvort þetta frumv. nær fram að ganga eða ekki, því að hér er ekki um neitt höfuðmál að ræða. En óþarfi finst mér að vera að fleygja út mjög miklu fé í þessu skyni, jafn bersýnilegt og það er, að árangurinn verður litill sem enginn.

Kostnaðurinn við þetta í hverjum hreppi verður sýnilega talsverður, þó að ekki séu borgaðar forðagæzlumanni nema 2 kr. á dag. Og þó er það svo lágt, að enginn verulega góður maður fæst til að gefa koat á sér í svona starf, með fram líka vegna þess, að þeim er það ljósast, hversu ónýtt og tilgangalaust atarfið er. Þeir, sem helzt mundu sækjast eftir þessu starfi, yrðu þeir sem minsta tiltrú hefðu í raun og veru. Þeir mundu gangast fyrir borguninni, og það því fremur, sem þeir gætu treint sér starfið allan veturinn, með því að fara t. d. á einn og einn bæ á dag, og gefa svo fullan reikning fyrir, sem þeim væri fullkomlega heimilt, ef frumv. verður samþykt óbreytt eða breyt.till. mín nær ekki fram að ganga.

Umr. var eigi lokið á nóni, var þá fundi frestað þar til stundu fyrir miðaftan.

Kl. 5 síðd. var fundur settur á ný og haldið áfram umræðum.