08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

109. mál, forðagæsla

Stefán Stefánsson:

Eg hefi hér áður á þingi talað um þetta mál, og hefi þá fremur lagt á móti því. Sérstaklega hefi eg verið mótfallinn því, að mönnum sé falin haustskoðun á heybirgðum og fóðurgildi heyanna, og er það af þeirri ástæðu að eg álít svo afarerfitt verk, bæði að áætla hve heyin sé mikil, og þó einkum hvert næringargildið sé, að heita má ógerningur. Oftast ekki unt að mæla heyin, og verður þá að fara eftir frásögn um hestatölu, en band er mjög misstórt. En þegar meta á fóðurgildið, þarf að vita, hvernig heyið er verkað, hvort það hefir hrakist og hvers konar hey það sé. En um þetta er alls ekki unt að fá fullnægjandi vissu og þess vegna er eg þeim sammála, sem sleppa vilja ákvæð inu um að meta fóðurgildið.

En eins og þessu nú er fyrir komið, mun eg þó greiða frv. atkvæði mitt, og treysti þá því, að valdir menn verði kosnir til að annast skoðanirnar menn sem almenningur ber ið bezta traust til. Eg vænti þess einnig, að hreppstjórar beiti valdi, því sem þeim er ætlað samkvæmt breyt till. við 11. gr. svo samvizkusamlega sem kostur er á, og vandi um við menn og hjálpi til úrræða þegar þörf krefur. Í öðru lagi er farið fram á í breyt.till. að fastákveða ekki 2 króna dagkaup til skoðunarmanna og álít eg það betur fara að slíkt sé samningamál. Það væri tilfinnanlegur kostnaður að hafa t. d 2 menn í hverjum hreppi við forðagæzluskoðanir, sem greiða yrði 2 kr. á dag, sé strjálbygð mikil og gengi þess vegna langur tími í ferðalög. Og ef þetta ákvæði frv. verður samþykt óbreytt, þá veit eg með vissu að alþýða manna verður alt annað en þakklát fyrir, því að margur mun hafa litla trú á gagnsemi þessara skoðunarferða og þá álíta þar af leiðandi ekki mjög miklu fé til þeirra verjandi. En breyt.till. með orðunum »alt að« er til venjulegra bóta, og mun eg greiða henni atkvæði mitt.

Breyt.till. háttv. 2. þm. Rang. get eg ekki gefið atkvæði, því að mér virðist hún verða til þess, að koma hreppanefndum í hreinan og beinan vanda. Það má heita ógerningur fyrir 1 mann og því verra, ef tveir eru, að fara 3 ferðir í strjálbygðum sveitum að vetrarlagi fyrir eina einustu krónu á búanda samanlagt. Það er með örðrum orðum vart hugsanlegt í flestum tilfellum að bjóða það nokkrum hæfum manni. Hvað það snertir, er háttv. 2. þm. Rang. sagði eða gaf í skyn, að skoðunarmenn mundu ekki halda vel áfram við skoðanirnar, þá er mér ekki kunnugt um, að þeir hafi slæpst á ferðum sínum. Hitt öllu fremur, að þeir þykja stundum fara of hart yfir, og þá máske ekki vinna verkið af nógu mikilli vandvirkni.

Að þetta verði tilfinnanlega aukinn kostnaður, frá því sem nú er, ætti ekki að þurfa að verða, sé starfið falið að eins einum manni. Hvert hreppsfélag er nú skildugt til að láta fara fram eina skoðun, og eru þá venjulegast 2 menn saman. Verði nú einum falið þetta starf, ætti kostnaðaraukinn ekki að fara að mun fram úr þriðjungi, ekki sízt yrði sá sami maður við það um mörg ár, því óefað æfist hver í þessu sem öðru.

Í þeirri von að með tímanum leiði þetta fyrirkomulag, sem frumvarpið bendir á, bæði til betri ásetnings og meðferðar á búfé manna, þá mun eg greiða því atkvæði.