08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

109. mál, forðagæsla

Pétur Jónsson:

Það er nokkuð óvanaleg aðferð, sem háttv. 2. þm. Rang. viðhefir í þessu máli. Það er mjög óvanalegt af honum að hafa svona litla breyt.till. til þess að eyðileggja heilan lagabálk. Því hefir maður ekki átt að venjast af honum áður, að hann hafi reynt að kyrkja mál með svo óviðeigandi aðferð. Eg get vel skilið, að hann sé mótfallinn lögunum í heild sinni, en hitt get eg ekki skilið, að hann skuli nota slíka aðferð til þess að eyðileggja framkvæmd þeirra.

Eg skal geta þess, að fyrirkomulag það sem hér á að vera á laununum eftir fyrri hluta breyt.till. hans, er alveg það sama sem nú er í lögum. En viðaukinn er algert nýmæli.

Eg verð að mótmæla fullyrðingum háttv. 2. þm. Rang. um, að þessi lög yrðu aldrei annað en »Humbug«. Eg hefði getað sætt mig við, þótt hann hefði sagt það sem sína eigin skoðun, en eg get ómögulega sætt mig við að hann slái því fram sem óyggjandi dómi. Það er mín skoðun, að fjárskoðanir séu til mikils gagns og mín skoðun er bygð á reynslu.

Í minni sveit hafa fjárskoðanir farið fram næatum því á hverjum vetri síðan eg man eftir mér og eg hefi séð árangurinn, sem af þeim hefir orðið; og hann er mikill. Það er óhætt að fullyrða, að fjárskoðanir hafa meiri áhrif en flestir gera sér í hugarlund. Þetta er líka alveg eðlilegt, því að betur sjá augu en auga. Árangurinn er aukinn kunnugleiki manna á milli á högum og háttum, meira félagslyndi og hjálpfýsi þegar að herðir. Betri meðferð á búpeningi og betri úrræði, ef til vandræða kemur. Í stuttu máli aukin menning. Eg þekki til víðar en í minni sveit og veit, að árangurinn hefir orðið þar góður líka.

Þar sem háttv. þm. sagði, að hann þekti ekki til að gagn hefði orðið að lögunum, þá verð eg að álíta, að það komi af þeirri ástæðu, að Rangvellingar, þótt ótrúlegt sé, séu ekki komnir svo langt enn þá að hafa gagn af þeim.

Hér er einungis um það að ræða, að gera gömlu lögin ljósari. Hér er ákveðið, að skoðað verði tvisvar á vetri hjá hverjum manni. Gömlu lögin fyrirskipuðu ekki nema eina skoðunarferð, en fyrirskipa þó eftir lit, sem ekki verður framkvæmt með minna en 2 skoðunarferðum á vetri. Því koma þau ekki að eins miklu haldi og hægt hefði verið. Eg veit t. d. að í minni sveit hepnaðist að fá 2 beztu fjármennina til þess að vera skoðunarmenn, en þeir fengust með öngu móti til þess að takast það á hendur nema með 2 skoðunum. Þeir sögðu, að þeir gætu ekki haft eins mikið eftirlit og þyrfti með því að skoða ekki nema einu sinni. Eg var alveg sömu skoðunar, enda vissi eg tilgang laganna, af því eg var viðriðinn tilbúning þeirra.