08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Út af ummælum háttv. þm. N: Ísf. (Sk. Th.) skal eg taka það fram, að það gleður mig, að hann vill ekki spilla fyrir málinu. En það er hætt við því, þegar menn grípa inn í málin á síðasta augnabliki, að menn hafi ekki sett sig inn í þau, og til þess benti ræða hans. Hann var að tala um, að þeir sem verðbréfin keyptu, spyrðu ekki um varasjóð, heldur um trygginguna. Eg vil benda á, að tryggingarákvæðin eru prentuð á hvert einasta bréf og reglugerð fyrir deildina. Viðvíkjandi því sem hann sagði, að landasjóður ætti að bera þetta, þá getur það vel verið, en það hafði ekki fylgi. Annars eru þessi lánskjör, sem menn verða að sæta hér nú; miklu betri en annarstaðar þar sem eg þekki til. Berlínarbanki lánar t. d. gegn 7% með 1. veðrétti í fasteign. En við lánum ennþá meðan deildin hrekkur gegn 5% og »kurs« 94.

Viðvíkjandi fyrirspurn háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) verð eg að segja það sama sem eg sagði í upphafi, að bankastjórnin gerði sér enga vissa von um að selja bréfin þó frumv. hefði gengið fram ólimlest, hvað þá nú þegar búið er að skemma það.