08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

114. mál, íslensk lög verði eftirleiðis aðeins gefin út á íslensku

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Það er eins og vant er þegar þessi mikli lærifaðir tekur til máls, að hann sýnir sig sem góðan læriföður í öllum uppeldismálum og einkum að hann þekki kraft endurtekningarinnar. Því að 100 sínum er hann búinn að tala um að gefa sér sjálfum selbita í vasann, og áður hefi eg heyrt hann víst 300 sinnum tala um strútinn með hausinn niðri í sandinum. Og hugsa eg nú að þessi orð hans muni atanda á hverri síðu í öllum þeim bókum, sem hann mun gefa út hér eftir, og hugsa eg því að hann byrji undir eins að setja það í þessa miklu bók, sem hann á að gefa út 40 arkir á ári af.

Nú kemur þessi lærifaðir með sitt tólfkóngavit, að setja 9 manna nefnd í málið til þess að drepa það. Það er eins og hann gangi með kattarins níu líf í lúkunni og viti ekki, hvað hann á við þau að gera. Annars er það slæm dægrastytting, að vera að þjarka um þetta, og nær að láta ganga til atkvæða um það, hvort málið skuli ganga til 2. umr., og þá getur þingm. komið með kattarins níu líf í brtill.formi. Og ef 9 manna nefnd verður sett í málið, þá má setja háttv. 1. þm. S.- Múl. (J. Ól.) í nefndina einan saman, því níu manna maki er hann að álíti þingmanna efri deildar, sem skylda hann einan til þess að gefa út 40 arkir af orðabók, sem aðrir menn, þó þeir væru 4, þyrftu mörg ár til. Og þó hann ef til vill væri ekki nema 8 manna maki, þá þyrfti ekki nema einn mann í nefndina, til þess að þá væru í hana komin kattarins níu líf.

Eg hefði fylgt því að máli, hefði frv. komið fram um það, að hafa breytingu á dómstólunum þannig, að við Íslendingar hefðum okkar eigin dómstól. Minnir mig ekki betur en að þessu væri hreyft á þingi fyrir fáum árum og var eg því fylgjandi, en 1. þm. S. MúI. (J.ÓI.) gleymdist víst að ljá því sitt lið. (Jón Ólafsson : Nei).