09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í C-deild Alþingistíðinda. (2574)

92. mál, sauðfjárbaðanir

Tryggvi Bjarnason:

Eg hafði tæplega búist við því, að frumv. þetta mundi sæta miklum andmælum. Eg get ekki séð, að nokkur harðneskja sé í því frá hálfu löggjafarvaldeins, þó að það setji lög, sem skipa sauðfjáreigendum að baða fé sitt.

Því hefir verið haldið fram, og það með réttu, að það væri hagur fyrir eigendurna að baða fé sitt og þrífa það vel. En til þess að vel geti heitið, þá þarf að baða árlega. Hvort þrifabaðið getur orðið til þess að útrýma fjárkláðanum, það skal eg ekki fullyrða. Það er þó skoðun ýmissa skynberandi manna, að svo geti farið. Og mér þykir það ekki ólíklegt. Það er annað, að þar sem fé er vel þrifað og baðað árlega, verðir miklu síður vart við kláðann en þar sem baðanir eru vanræktar. Það er ekki heldur óeðlilegt. Því að þótt venjulegt þrifabað drepi ekki maurinn, þá er það vitanlegt, að maurinn og alls konar bakteríur þrífast miklu ver þar sem þrifnaðar er gætt. Og þess vegna er hugsanlegt, að þrifnaðurinn geti smátt og smátt dregið svo úr lífsafli maursins, að hann á endanum deyi algerlega út. Það er ekki óeðlilegt, þó að menn yfirleitt viti ekki, hvað til þess þarf, að útrýma kláðamaurnum, þar sem þá dýralækninn Magnús Einarsson og kláðalækninn Myklestad greinir svo mjög á um lífseigju hans.

Mylkestad hélt því fram, að maurinn gæti ekki lifað utan kindarinnar lengur en í 6 daga, en eg man ekki betur en að einhverstaðar sé skráð eftir Magnús Einarsson, að ekki sé ugglaust að beita á það svæði, sem kláðakindur hafa verið á, fyr en eftir 6 vikur. En út í þessa sálma skal eg ekki fara frekara.

Þar sem það er viðurkent að þrifabaðið sé til hagnaðar fyrir fjáreigendur, þá sé eg ekki að það sé hart þó að löggjafarvaldið skyldi alla til að baða árlega. En heimildarlög í þessu eini álit eg að ekki muni koma að nokkru gagni. Mikill meiri hluti allra fjáreiganda á landinu hafa, eftir skýrslum frá fjölda hreppa; óskað eftir slíkum lögum um sauðfjárbaðanir. En þó að ýmsir hafi látið í ljós að þeir aðhyllist þrifabaðanir, þá er ekki þar með sagt að þeir geti ekki sætt sig við almenn lög í þessa eini. Spurningin, sem beint var til manna, hljóðaði ekki um annað en heimild til þrifabaðana og menn gátu ekki svarað öðru en þeir voru spurðir um. Eg þykist ekki í neinum vafa um, að ef fé væri baðað árlega úr þrifabaði, þá mundi það halda kláðanum svo niðri að hann gerði aldrei mikinn skaða, þó að hann kynni að gera vart við eig á stöku stað. kláðatilfellunum mundi fækka ár frá ári, og kláðinn mundi að síðustu jafnvel deyja út.