09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í C-deild Alþingistíðinda. (2582)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Lárus H. Bjarnason:

Hæstv. ráðherra sagði, að það væri undarlegt, að eg notaði þann tíma, sem hann væri ekki viðstaddur, til þess að koma fram með ákúrur til stjórnarinnar. Til þessa er því að svara, að eg nefndi það þegar í byrjun, að eg saknaði háttv. ráðherra og skaut því fram, hvort ekki ætti að segja honum til, í því skyni að honum yrði gert aðvart. Hafi hann því ekki vitað um þetta, þá er það ekki mín sök, enda þekkir hæstv. ráðherra mig svo, að hann veit, að mér eru tamari brjóstvíg en bakvíg.

Hæstv. ráðherra sagði, að réttara hefði verið af mér, að bera fram fyrirspurn til stjórnarinnar um þessi atriði, þar sem mér væru ekki kunnir málavextir. Það hefði eg líka gert, ef svo hefði ekki staðið á, að eg hefi liggjandi fyrir mér öll skjöl málinu viðvíkjandi, kæruna frá Akureyri og neitun stjórnarráðsins um að sinna henni, og afrit af farmskrá, sem settur landritari hefir skrifað upp á. Skjölin sýna það berlega, að stjórnin hefir leyft innflutning áfengis, jafnvel ákavitis og whisky, sem þó er hægt að kaupa í hvaða vínverzlun, sem til er í landinu.

Eg þarf því ekki að spyrja um þetta. Það er öllum ljóst. Spurningin er að eins um það, hvort eg hafi dregið rétta ályktun af »factis«, og það er ekki fyrirspurnarefni.

Hæstv. ráðherra sagði, að það væri rangt að blanda þessu máli inn í umræður um bannlögin. Ekki hefir hann þó úrskurð forseta fyrir því. Forseti hefir þó sagt, að hann muni bera rökstuddu dagskrána undir atkvæði. Enda sér það hver maður, að bannlögin og eftirlitið með framkvæmd þeirra er jafnnáið hvort öðru og nef augum. Eg veit heldur ekki betur en að ráða megi hverju þingmáli, sem er, — þingsályktun jafnt sem fyrirspurn og frumvarpi, — til lykta með rökstuddri dagskrá. Og eg hefi sýnt og sannað það með því að lesa upp 2. gr. bannlaganna, sem alveg tæmandi telur upp, hverjum heimilt sé að flytja vín inn í landið, að innflutningur, sá sem eg mintist á, er óheimill. Háttv. ráðherra vitnaði í »exterritorialitetsrétt« og alþjóðarétt. En misskilningur hans á því, í hverju hvor sá réttur um sig væri fólginn, var svo rammur, að eg hefði sízt af öllu búist við að heyra slíkt úr ráðherrastólnum. Í fyrsta lagi getur aldrei verið um þjóðarétt að ræða, nema í viðskiftum milli framandi ríkja, en hingað til hefir ráðherra ekki talið Danmörku framandi ríki gagnvart Íslandi. Og þar næst gæti þjóðarétturinn ekki bjargað ráðherra hér, þótt svo væri. »Exterritorialréttur«, eða úrlendisréttur, sem eg kalla hann, leysir ekki þann sem þess réttar nýtur, undan því að hlýða lögum dvalarlandsins, en leysir manninn að eins undan dómsvaldi og lögregluvaldi dvalarlandsins, gerir það að verkum, að dvalarlandið verður að leita réttar síns í heimalandi ina útlenda manns. Jafnvel konungar, sem eru á ferð í framandi landi, mega ekki brjóta lög þess lands, sem þeir eru staddir í, því síður mega aðrir gera það.

Eg þurfti ekki upplýsinga háttv. ráðherra um það, að íslenzkir dómstólar gætu ekki átalið gerðir »Fálkans« og mælingamanna, hafi þeim annars verið um nokkuð að kenna. Það hafði mér aldrei komið til hugar. En ráðherra hefði getað kært gerðir þeirra til hermálastjórnarinnar dönsku, og það hefði ráðherra átt að gera út af fánatökunni 12. Júní. En vitanlega gerði hv. ráðh. ekkert þvílíkt. Stjórnarráðið leið landflutning áfengis á Akureyri, en leyfði hann beinlinis í Stykkishólmi.

Annars skal eg geta þess, að mér virðist það ekki karlmannlegt af hæstv. ráðherra að bera það fyrir sig, að hann hafi verið ytra þegar þetta skeði, enda ósennilegt, að inn setti landritari mundi hafa gert slíkt upp á eigin spýtur, ef honum hefði ekki verið kunnugt um hugarfar háttv. ráðherra. Og að minsta koati kemur Alþingi það ekki við, hver fyrir þessu stóð í stjórnarráðinu. Ráðherra ber ábyrgð á öllum gerðum stjórnarráðsins og Alþingi á því við hann einan. Eg vil líka benda hæstv. ráðherra á það, að dagskráin beinist ekki að ráðherra persónulega, heldur að landstjórninni.

Háttv. ráðherra sagði, að það væri gagnstætt öllum reglum, að þingið færi að skera úr um slík mál sem þetta, en þessar bágbornu varnir eru afturgöngur frá í fyrra, uppvaktar þá af honum og fyrverandi ráðherra, núverandi þm. Borgf. (Kr. J.). Þá tók deildin sér vald til þess að dæma um það, hvort rétt hefði verið að leyfa geymslu hér á höfninni í nokkra daga á víni, sem átti að fara til New-Foundiands, virti þær mótbárur að vettugi, og eins vona eg að nú muni fara. Eg þori því óhræddur að leggja það atriði undir dóm deildarinnar, enda liggur annað nær en að landsstjórnin sjálf, sem sök á að máli, dæmi um, hvað hún má og má ekki. Og hver atendur þá — að landsdómi sleptum, sem engum dettur í hug að leita út úr þessu — nær en einmitt þingið, sem átöluvaldið gegn ráðherra er hjá, til þess að finna að gerðum ráðherra, enda er ráðherra í raun og veru aðallega umboðsmaður þinga og þjóðar milli þinga, um leið og hann auðvitað er ráðunautur konungs og aðstoðarmaður.

Eg hefi nú svarað vörn háttv. ráðh. og sé ekki, að hún sé á rökum bygð, enda legg eg málið á vald hv. deildar í þeirri von að hún verði sjálfri sér samkvæm, enda þótt forseti hafi neitað að bera tillöguna upp í tvennu lagi, af hverju sem það er. »Facta« standa óhögguð: Innflutningur áfengis hefir verið liðinn á Akureyri og leyfður í Stykkishólmi.

Eg get ekki talað oftar í þessu máli, nema þá hæstv. forseta og mig greini eitthvað á um þingsköpin, því að þá á eg heimtingu á að tala. Hæstv. ráðh. getur því sagt óátalið af mér það sem honum þóknast að láta taka sig út í þingtíðindunum.