09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í C-deild Alþingistíðinda. (2583)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Bjarni Jónsson:

Mér er það mjög nauðugt að standa upp og tala um þetta bannmál. Það virðist liggja beint fyrir, að það sé vilji þjóðarinnar að full reynsla fáist á bannlögunum, og er þá ekki nema sjálfsagt að bíða þess að það komi í ljós, hvernig þau gefast. Orsökin til þess að eg stóð upp er sú, að hæstv. ráðherra var að vitna til alþjóðalaga. Því var nú svarað að nokkru leyti af háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), og eg hygg að það sé vegur til að vera rétt einn jafnvel fyrir herskipum annara þjóða. Eg veit ekki til að það sé heimilt að leggja áfengi hér á land. Ef franskt herskip kæmi hingað, gæti það ekki sent brennivín með verzlunarskipi og látið skipa því upp hér á bryggjuna og standa þar þangað til það kæmi aftur. Til þess hefir það engan alþjóðarétt, eða eg þekki hann þá ekki. Mér er ókunnugt um, að herskipum sé slíkt heimilt í hvaða landi sem er. Öðru máli er að gegna um Fálkann, því að í hann var flutt vín úr öðru erlendu skipi, enda er efasamt að hann sé herskip, eða að mineta kosti er fjárveiting til hans skrifuð á Íslands reikning í fjárlögunum dönsku. Hann er því eins og nokkurs konar lögreglubátur til að gæta fiskiveiðanna hér, en ekki herskip. Það var reyndar ekki aðallega þetta, sem eg ætlaði að tala um, heldur vildi eg minnast lítið eitt á herdeidina í Gilsfirði. Þegar eg bað um fjárveitinguna til að mæla innsiglinguna á Gilsfjörð, þá var það ekki ætlun mín, að farin yrði herferð inn í kjördæmi mitt. Það er annars undarlegt, hvað þessi mæling hefir dregist lengi. Ef beðið hefir verið eftir dönskum hersveitum undir forystu reglulegt hershöfðingja, þá var það óþarfi, því að nóga aðra mátti fá. (Forseti: Hvernig kemur þetta því máli við, sem er til umræðu?). Það stendur í beina sambandi við það sem hæstv. ráðherrra talaði um exterritorial-rétt. Það er ekki hægt að skoða þessa menn sem herdeild undir forystu hershöfðingja, heldur sem rétta og slétta verkamenn, sem engan exterritorial-rétt hafa til að flytja með sér vínföng. Svör hæstv. ráðherra hafa hert á mér að finna að þessu. Eg sé mér ekki annað fært en taka fyrir það með mínu atkvæði, að þeir menn, sem ekki bera neina ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum, leyfi sér að gera slíkar undantekningar á ábyrgð ráðherra í fjarveru hans.

Að endingu skal eg taka það fram, að það er óþarfi fyrir hæstv. forseta að ókyrrast í sæti sínu út af því sem eg hefi sagt, því að það var alt því máli viðkomandi, sem til umræðu er, og eg kann því illa að eg fái áminningu fyrir það.