09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

116. mál, mælingar á túnum og matjurtagörðum

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Skýst þó skýrir séu ! Og ekki þarf háttv. þm. að bregða mér um það, að eg hafi ekki hugsað málið. Gæti hann fremur beint þeirri ásökun til sjálfs sín, að hann hafi ekki alt af hugsað það sem hann talar um.

Það er ekki svo auðhlaupið að því, að fá réttar mælingar á túnum eins og háttv. þm. heldur. Hélt eg að honum væri kunnugt um það sjálfum.

Háttv. þm. var að tala um það, að hagstofan ætti að gera það í frístundum sínum að mæla tún manna. Í sjálfu sér hef eg ekkert á móti því, að hagstofan bæri þann kostnaðarauka, sem af þessum mælingum leiddi, en hitt hefir mér aldrei dottið í hug að hagstofan ætti sjálf að sjá um mælingarnar, heldur hafði eg hugsað mér að hagstofan ynni úr þeim skýrslum, sem mælingamennirnir gæfu um mælingarnar.

Hann sagði það, háttv. þm., að þessi tillaga væri fram komin af fordildinni einni og til þess að nafn mitt sæist á þingskjalinu. Ójá, svo er nú hvert mál, sem það er virt, og hægaat að borga þingm. í sömu mynt, og segja að hann hafi víst að eins staðið upp til þess, að það skyldi sjást í þingtíðindunum, að hann hafi talað um málið.

Háttv. þm. sagði, að menn gætu mælt tún sin sjálfir og reiknað út flatarmál þeirra. Þar held eg að hann ætlist til of mikils af bændum. Geri eg þeim ekkert lágt undir höfði þó eg segi, að þeir geti ekki gert það eins vel og þeir menn, sem hafa lært það. Og legg eg þeim það ekki neitt til lasts, því þeir hafa aldrei fengið tækifæri til þess að læra það. Það eru tiltölulega fáir bændur, sem geta mælt svo bletti, að ábyggilegt sé. Og eigi að mæla túnin á ann að borð, þá er ekki nema sjálfsagt að það sé gert af þeim, sem kunna og vit hafa á.

Háttv. þm. sagði, að ráðunautarnir gætu gert þetta. Háttv. þm. hefir þar víst meint ráðunauta Búnaðarfélagsins eða búnaðarsambandanna. En það er líka meining mín að þeir hjálpi til við þetta, mæli túnin, þegar stjórnin er búin að undirbúa málið, þegar búið er að gera áætlun um, hvernig verkinu skuli hagað.

Þegar háttv. þm. athugar málið, vona eg að hann verði með því, og að eg verði ekki fyrir þeim vonbrigðum, að neinn fari að snúast gegn jafn-einföldu máli og sjálfsögðu.