11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í C-deild Alþingistíðinda. (2617)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) og eg, höfum báðir komið fram með breytingartillögu við aðalatriði þessa frumv. (Lárus H. Bjarnason: Það er ekki aðalatriðið). Það er annað aðalatriðið í þessu frumv., að sendiráðsmenn annara ríkja fái að hafa það mataræði, sem þeir eru vanir, þann tíma sem þeir eru hér. Munurinn á breyt.till. okkar er að eins sá, að eg fer fram á að setja sama ákvæði inn í frv. og áður var í því, þegar það fór héðan úr deildinni. En tillaga háttv. 1. þm. S.-MúI. gengur inn á að leyfa þeim að flytja inn vissa pottatölu af áfengi og það að eina vissa tegund. Í báðum tilfellum er orðið við óskum ræðismannanna að nokkru leyti. Eftir minni till. er aðflutningsbanni ekki beitt við þá, en í hinni er því beitt með takmörkun. Og sú takmörkun er aðallega í því fólgin, að miða við það hvað löggjafarvaldið álítur þeim holt og heilsusamlegt. Eg er hræddur um, að ef að fallist verður á þetta, þá kunni að koma fleiri, sem segja að þeim sé mjög holt og heilnæmt að drekka svona saklaust vín, sem ekki hafa nema 15% styrkleika. Þessu mundi oft verða erfitt að mótmæla og því tel eg eftirkasta-minna að hafa það þannig, að banninu væri alls ekki beitt við þessa menn, að því er snertir þá sjálfa. Þeir fengju sjálfir að ráða því, hvað og hve mikið þeir vildu nota til heimilisþarfa sinna. Spurningin er um það, hvor breytingin sé líklegri til þess að ná samþykki eiri deildar. Eg tel það alveg víst, að mín breytingartillaga nái samþykki efri deildar, ef hún verður samþykt hér. Eg vona, að háttv. 1. þm. S.-Múl. verði ekki á móti henni, þar sem eg tek upp orðrétt það sem áður var samþykt hér í deildinni.