11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

113. mál, brúarstæði á Miðfjarðará

Flutningsm. (Tryggvi Bjarnason):

Það er víst flestum háttv. þm. kunnugt, að þessi á, sem hér er um að ræða, er eitt af þeim stærstu vatnsföllum og verstu yfirferðar hér á landi. Svo atendur á, að póstvegur liggur yfir ána og liggur því auðsjáanlega fyrir, að hún verði brúuð innan skamms. Verkfræðingur hefir oft ferðast um þessar slóðir til þess að rannsaka hentugt brúarstæði. Hann hefir fundið það; en það er alllangt frá þjóðveginum og hefir hann því hugsað sér að rannsaka það að nýju, hvort ekki væri tiltækilegt að gera brúna einhverstaðar nær veginum. Hann leggur það til, að brúin verði gerð sem fyrst, annaðhvort jafnhliða eða næst á eftir brú á Eyjafjarðará. Ástæðurnar til þess, að þessi tillaga er fram komin, eru þær, að litlar líkur eru til þess, að Eyjafjarðará verði búin á næsta fjárhagstímabili, en það getur haft talsverða þýðingu fyrir það, hvar brúarstæðið verður valið, hvernig vegirnir verða lagðir út frá. Og þótt verkfræðingur hafi nokkuð rannsakað þetta mál, er hann ekki kominn að fastri niðurstöðu enn þá. Það er því nauðsynlegt, að fullnægjandi rannsókn fari fram sem fyrst, og vil eg því mælast til þess, að þessi tillaga verði samþykt.