11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

124. mál, íslenskur siglingafáni

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sagði að það væri leikaraskapur að fela mér á hendur að bera það upp við konung, að frumvarp til laga um íslenzkan fána verði lagt fyrir næsta Alþing. Eg álít fyrir mitt leyti, að það sé fult eins mikill leikaraskapur, sem hefir farið fram hér í dag, fyrst hjá háttv. þm. Dal. (B. J.) að koma fram með þessa þingályktunartillögn um siglingafána og þá ekki síður hjá. háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) að þykjast vilja létta af mér þessari byrði með breytingartillögu sinni. Það er varla mögulegt, að jafn vel háttv. þm. Dal. geti lagt þann skilning inn í orðabreyting nefndarinnar í efri deild, að þar með væri löghelgaður sérstakur siglingafáni. Orðin »hér á landi« í 1. gr. frumvarpsins benda miklu fremur til þess, að fánann megi ekki nota nema innan landssteinanna, og útiloka það alveg að um siglingafána geti verið að ræða, enda tekur nefndarálitið það skýrt fram, að frumvarpið eigi ekki að koma í bága við eða breyta neinum gildandi lögum.

En íslenzk fánalög, sem ekki koma í bága Við nein gildandi lög, þau geta ekki einu sinni varnað því, að ið sama sem kom fyrir 12. Júní, verði föst regla. Samkvæmt gildandi lögum mega menn sem sé ekki nota neinn annan fána á lögskráðum skipum en danska ríkisfánann, og í Danmörku er þeirri lögskýringu haldið fram, að þær flaggreglur, sem gilda um lögskráð skip, verði einnig analogiskt að gilda um báta. Sú spurning liggur undir úrskurð dómstólanna. Fyrir þeirra dómi verða stjórnarvöldin að beygja sig, meðan lögin eru óbreytt. Nú gæti farið svo, ef í mál færi, að hæstiréttur dæmdi þannig, að einsskyldi fara um báta eina og registreruð skip í þessu efni. Og þá er augljóst, að það hefði verið lakur »siglingafáni«, sem við hefðum fengið með fánafrumvarpinu, þrátt fyrir breytinguna, sem kom fram í Ed., að nefna »fána« í stað »landsfána«.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að það væri nauðsynlegt að slá fyrirfram fastri gerð fánans, að hann skuli vera blár með hvítum krossi. En eg verð að álita, að svo framarlega sem konungur vildi aðhyllast eitthvert fánafrv., þá væri einmitt vel til faltið að leita álits þjóðarinnar um það, hvort hún vill þá gerð á fánanum, vita, hvort hún vildi stúdentafánann eða einhvern annan. Eg veit það, að víða um land alt eru menn óánægðir með stúdentafánann, og vilja hafa fána, sem sé fallegri, einkennilegri og ólíkari öðrum fánum. Ef tíminn leyfði; þá álít eg að það væri heppilegt áður en fánafrumv. væri sett á pappírinn, að leita fyrst, eftir því sem við verður komið, vilja þjóðarinnar um gerð fánans.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) leyfði sér að segja, að eg hefði hvað eftir annað haldið því fram, að Alþingi bresti heimild til að lögleiða heimafána. Þar fór hann nokkuð laust með sannleikann eins og stundum áður, því að það hefi eg aldrei sagt, heldur hefi eg að eins bent á það, að aumir menn héldu því fram, að alt fánamálið, og þá einnig þetta, væri sameiginlegt mál. Eg hefi talið skyldu mína að vekja athygli á því, að við eigum að sækja málið á móti þessari kenningu. Eg hefi alls ekki haldið þessu fram sem minni skoðun, og skal ekki segja neitt um, hvor kenningin verður ofan á, en Við megum ekki dylja okkur sjálfa þess, að það er einn af aðal-erfiðleikunum, sem við eigum við að etja, að þessari kenningu hefir verið, er og mun væntanlega verða otað á móti málinu.

Þá sagði hann sömuleiðis, að eg væri vitanlegur mótstöðumaður fánans og »íslenzku litanna«. Eg veit ekki til, að eg hafa nokkurn tíma látið í ljósi að eg væri á móti fánahugmyndinni, en eg hefi verið og er á móti því, að einn pólitískur ungæðisflokkur, sem hefir tekið sér fána í mynd og líking flaggs frá öðru landi, og notað hann til »demonstrationa« í stjórnmáladeilum og flokkserindum, tromfi þessum fána fram undir því yfirskyni, að þetta sé ið eina og sanna merki íslenzks þjóðernis og íslenzks hugarfars.

Af því er hann sagði að öðru leyti, skal eg að eins athuga það sem hann sagði út af því, að í inni rökstuddu dagskrá efri deildar er nefnt »reglulegt Alþingi«. Ástæðan fyrir þessu orðalagi mun vera sú, að þegar þessi tillaga var samin, var engin vissa fengin fyrir því að stjórnarskráin gengi fram. En eg lýsti þegar yfir því, þegar tillagan kom fram, að ef aukaþing yrði, þá mundi verða fengin full vissa fyrir það þing um afdrif málsins.

Það þarf því enga áskorun til mín um það, að flýta málinu fyrir auka þingið. Hitt er efasamara, hvort endanleg ákvörðun af konungs hendi verður komin fyrir kosningar, ef þær fara snemma fram, sem vel má vera. Frumvarp um fána verður væntanlega ekki lagt fyrir konung til endanlegrar ákvörðunar fyr en um leið og önnur stjórnarfrumvörp, sem leggja á fyrir aukaþingið, en það hefir aldrei verið gert fyr en skömmu fyrir þing. Hitt mun sýna sig, þegar aukaþingið kemur saman, hvað málinu hefir orðið ágengt.

Eg vil svo helzt ekki vera að þrátta um þetta mál lengur, en eg get þó ekki látið vera að benda háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) á það, hvað ósæmilegt það er af honum, að vera að ausa auri mikilsmetinn þingmann annarar deildar, sem ekki er viðstaddur, og ætti slíkt ekki að líðast átölulaust.

Um slettur hana út úr lotterismálinu, sem ekki kemur þessu máli við, skal eg að eins segja það, að það er næsta óviðfeldið að hann bregði mér um það, að eg hafi ekki boðið mig fram undir lögsókn frá hr. Philipsen fyrir það orð, sem eg slepti hér í deildinni, að það sem háttv. 1. þingm. Rvk. hermdi eftir honum, væri það sem á íslenzku er kallað »lygi«. Í fyrsta lagi er þetta ekki meiðyrði gegn hr. Philipsen; það er til bæði »objektiv« og »subjektiv« lygi, og eg sagði ekkert um það, að hér væri um ina síðari tegundina að ræða. En auk þess var lífs ómögulegt, að hr. Philipsen gæti sannað það sem aldrei hefir átt sér stað. Hann hefir sennilega misskilið eða á einhvern hátt fært úr lagi einhver ummæli, sem eg kann að hafa látið falla um það, að dómsmálaráðherrann gæti komið með lagafrumv. um þetta margumtalaða Hafnarlotterí, en að hann ætlaði að gera það, það hefi eg aldrei sagt né getað sagt, því að um það hafði eg enga vitneskju fengið En þessi árás háttv. þingmanns liggur svo mjög fyrir utan umræðuefnið, að eg mun ekki svara henni frekara, þótt inn háttv. þm. fái að taka til máls aftur.

Eg hefi svo ekki fleira um þetta mál að segja, heldur en það sem eg sagði í efri deild, og það er engin ástæða til að halda, að eg standi ekki við það sem eg sagði þar.