11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Kristinn Daníelsson:

Það er ein breytingartillaga, sem eg vil mæla með. Á þgskj. 814 er farið fram á það, að 1750 krónur verði veittar til þess að kaupa vitajörðina á Reykjanesi. Háttv. framsögumaður fjárlaganefndar lýsti yfir því, að nefndin hefði tekið mjög vel í mál þetta, enda vona eg að allir sjái, að ekkert er við þetta að athuga. Kaupverð jarðarinnar svarr algerlega til þess leigumála, sem landssjóður hefir áður haft á jörðinni. Auk þess skal eg benda á, að lóð þessi gæti hækkað í verði, þar sem þetta er á mjög merkilegum stað. Frá mínu sjónarmiði er það því alls ekki rétt af eigandanum að selja. Hann hefir haft umleitanir um þetta við stjórnarráðið, og eftir því sem hann hefir skyrt mér frá, mun ekkert hafa staðið í vegi fyrir því að kaupin kæmust á, annað en það, að fjárveitingu vantaði til þess. Eftir þessum ádrætti hefir maðurinn svo farið og bygt á honum og gert ráðstafanir sínar.

Vona eg því að þetta mæti engri mótspyrnu.

Þá skal eg lýsa yfir því fyrir hönd sjávarútveganefndarinnar, að breyt.till. á þgskj. 817 er tekin aftur, þar sem hv. fjárlaganefnd hefir tekið hana upp í tillögur sínar, og hækkað fjárveitinguna í 4000 úr 3000 krónum, sem háttv. efri deild færði hana niður í.

Það eru ekki fleiri tillögur, sem eg ætla um að tala í þetta sinn, þótt mig langi til að skjóta inn einu og einu orði hér og hvar, t. d. um skilyrðið, sem á að binda styrkinn til Eimskipafélagsins við.