11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2444 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Björn Kristjánsson:

Eg á hér nokkurar breytingartillögur. Á þgskj. 812 er farið fram á það, að tíl sýsluvegar úr Grindavík á Keflavíkurveginn sé veitt 5000 kr. síðara árið, gegn jafnmiklu tillagi annarstaðar að.

Eins og háttv. þingdeild er kunnugt, var hér við 3. umræðu samþykt lítils háttar fjárveiting til brúar á Bleikdalsá, 3800 kr. síðara árið. Þetta var sú eina fjárveiting til þeirra tveggja sýslna, sem eg er þingmaður fyrir. Þessari fjárveitingu hefir háttv. Ed. þóknast að kippa burtu, svo að, eins og fjárlagafrumv. nú liggur fyrir, er ekki 1 króna í því til þarfa fyrir þær tvær sýslur. Þær sýslur, sem greiða hvað mest allra sýslna toll í landssjóð, fá ekki 1 eyri í fjárlögunum. Eg hefi átt tal við einn mann úr fjárlaganefnd Ed. og int hann eftir, hvernig stæði á, að þessari brú hefði verið kipt burtu. Hann sagði mér, að það hefði deildin gert samkvæmt tillögum landaverkfræðingsins. Þetta þykir mér óneitanlega kynlegt að heyra. Eg hafði skilið stöðu landsverkfræðingsins svo sem hann væri ráðunautur, er segði til um það, hvar vegir og brýr ættu að liggja, gerði áætlanir um kostnað þeirra, stjórnaði lagningu þeirra o. s. frv., en aldrei hafði mér til hugar komið, að hann væri eins konar yfirfjárveitingarvald, því að hvað vel sem einn verkfræðingur er gefinn, getur hann þó ekki fylgst með því, hvað þingið er að gera í fjárveitingum. Það er hlutverk fjárlaganefndanna, að skifta hæfilega milli sýslnanna, og það eiga þær að gera réttlátlega, svo að hver sýsla fái sitt. Eg hefi líka rekið míg á það, að tillögur landsverkfræðingsins eru mjög einhliða, þó eigi sé meira sagt, og hafa verið síðan vegalögin komust á, en þau eru einmitt mestmegnis bygð á tillögum hans. Með vegalögunum er Gullbringusýsla útilokuð úr tölu þeirra sýslna, er hafa þjóðvegi og flutningabrautir, og þó er hún sú sýslan, sem mest hefði þurft þess með. Eg hefi ferðast meira og minna um allar sýslur landsins, nema

Skagafjarðarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu, og hvergi hefir mér virzt eins mikil þörf á vegum og í Gullbringusýslu, en þrátt fyrir það er hún ekki í tölu þeirra sýslna, er hafa þjóðvegi. Þess vegna er það, að þessi sýsla hefir neyðst til að taka lán á lán ofan til vegabóta. Nú er ekki því að heilsa, að hún hafi fengið lánin úr landssjóði með aðgengilegum kjörum, eins og svo margar sýslur hafa fengið til framkvæmda sinna. Nei, Gullbringusýsla hefir orðið að taka lán sín í bönkum með miklu dýrari kjörum, af því að hún var skuldbundin til að leggja sinn helming fram til móts við landssjóðstillagið.

Svo að eg snúi aftur að þessum fyrirhugaða vegi, þá er það að segja um hann, að hann er framhald Keflavíkurvegarins og er ætlaður til að tengja saman Keflavík og Grindavík. Grindavík er, eins og kunnugt er, mjög afskektur staður. Þar eru um 60 búendur og um 400 manns eiga þar heima. En á vetrum er þar fjöldi manns, því að verstaða er þar góð. Þessi hreppur hefir lofað að leggja fram 10 þús. kr. til vegarins. Þessa upphæð ætlar hreppurinn ekki að taka að láni, heldur hafa hreppsbúar lagt á sig þann skatt, að taka hálfan hlut af hverju skipi og láta ganga til vegarins.

Þess er að gæta um Grindavik, að hún hefir litil sem engin not af samgöngum á sjó. Þegar bezt lætur, geta að eins smádallar komið þar við á sumrum. Höfn er þar engin og brimasamt mjög og hraunbotn, svo að skipum er mjög hætt þar, þegar nokkuð er að sjó. T. d. skal eg geta þess, að einu sinni setti svolítil vindgola stórt hafskip þar á land upp þvers um í aðalvörina.

Árið 1911 nam innflutta varan til Gullbringusýslu, að Hafnarfirði meðtöldum, samtals 572,052 kr., en útflutta varan 764,897 kr. Næst á eftir kaupstöðunum þrem, Reykjavík, Akureyri og Ísafirði, er Gullbringusýsla ein sú sýslan, sem mest útfiutningsgjald greiðir í landssjóð, en þrátt fyrir það fær sýslan ekki 1 eyri til sinna nauðsynja.

Eg vil benda háttv. fjárlaganefnd á dæmi til samanburðar á fjárveitingum til sýslnanna. Það er langt frá því, að eg vilji setja út á það eða telja eftir fjárveitingar til annara sýslna, en tek dæmið til að sýna réttsýni þingsins í fjárveitingum. Tek eg þá Rangárvallasýslu til dæmis. Sú sýsla hefir fengið veg alla leið heim til sin, án þess að leggja fram 1 eyri sjálf. Rangárbrúna hefir hún fengið án þess að leggja fram 1 eyri úr sínum vasa. Brú á Hróarslæk hefir hún fengið með sama hætti. Og loks eru nú á fjárlögunum ætlaðar 18 þús. kr. til brúar á Eystri-Rangá, á, sem er smáspræna og er eins lygn og stöðuvatn, og þessi fjárveiting er veitt af því, að smáhylur hefir myndast í ánni á vaðinu á þjóðleiðinni svo vögnum er ófært. Eg þekki þessa á mæta vel. Hún er, eins og eg sagði áðan, lygn eins og stöðuvatn. Hefði eg nú átt heima við þessa á og þurft að gera hana vagnfæra, þá veit eg, hvað eg mundi hafa gert. Eg mundi hafa tekið nokkura cementssteypupoka og fjórlagt botninn. Því er vel hægt að koma við þar, því að efnið er til á báðar hliðar við ána, tárhreinn sandur, hæfilega grófur. Kostnaðurinn við þetta mundi hafa numið svo sem 1000 kr. Þannig hefði eg farið með þessa sprænu þótt ef hefði átt stórfé. Og þú hefði hún verið alveg örugg fyrir vagna. En nú horfa menn ekki í að verja 18 þús. kr. til brúar á þessa sprænu. Eg get þessa nú alls ekki af því, að eg telji þessa fjárveiting eftir, heldur get eg þess sem dæmis upp á missparnað þingsins, dæmi um það, hve misskift er láninu sýslnanna, þegar svo miklu fé er varið til einnar sýslu. Þegar litið er til fólksfjöldans, gætir mismunarins eigi siður. Eftir síðasta manntali (1910) Var mannfjöldinn í Rangárvallasýslu 4043, en í Gullbringusýslu ásamt Hafnarfiði 7378.

Þegar eg nú lít til þessa, þá fer mér að skiljast það, sem einn þingm. sagði við mig, að fjárlaganefndin væri solidariak, það væri princip hennar að vera á móti þessari fjárveitingu.

Eg hefi nú setið á þingi siðan 1901 og hefi eg aldrei vitað, að fjárlaganefndin héldi Saman lengur en til 2. umræðu, og á síðari þingum jafnvel ekki svo lengi. Það er líka eðlilegt, að hver einstakur fjárlaganefndarmaður haldi sinni skoðun, eins og hver annar þingmaður í öllum öðrum nefndum, hvað sem meiri hluti fjárlaganefndarinnar hefir samþykt. Þess vegna vona eg, að háttv. nefnd sé ekki solidarisk um þetta atriði.

Til þess að fara ekki bak við þingið, skal eg geta þess, að vitanlega þarf meiri fjárveiting en þetta. Svo er ráð fyrir gert, að í viðbót við þetta þurfi 7500 kr. á ári í 2 ár úr landssjóði, auk framlagsins annarstaðar frá.

Eg vona nú, er menn hugleiða þetta, greiði þeir atkvæði með þessari brtill., þeirri einu fjárveitingu, sem farið er fram á til beggja þessara stóru sýslna.

Þá á eg ásamt öðrum tveim háttv. þingm. brt. á þgskj. 825. Hún fer fram á það, að fella burtu skilyrðið fyrir fjárveitingunni til ins fyrirhugaða Eimskipafélags Íslands, um að hún sé bundin við það, að félagið taki að sér strandferðirnar.

Háttv. framsm. (P. J.) tók það fram, að hann byggist við, að þessi brtill. mundi valda ágreiningi og verða þrætuepli. Okkur hefir alt af komið vel saman í samgöngumálanefndinni, háttv. framsm. fjárl.n. og mér, og höfum aldrei átt þar í þætum. Eina og menn mun reka minni til, var fjárveitingin, vegna upplýainga, sem fram komu í málinu, samþykt hér í deildinni án þessa skilyrðis með 16 atkv. Eg vona, að þeir inir sömu séu enn sömu skoðunar, og væri því ekki nauðsyn fyrir mig að skýra málið, en eg má til að gera það, úr því að háttv. fjárlaganefnd vill ekki kippa burtu þessu skilyrði, sem Ed. hefir smeygt inn.

Málið horfir þá þannig við.

Það er ekkert viðlit til þess að Eimskipafélagið verði stofnað, nema það hafi nægan styrk og veltufé. Hvorugt er trygt, svo framarlega sem þessi brt. verður ekki samþykt og skilyrðið numið burt. Til þessa geta legið orsakir, sem félaginu er alla ekki um að kenna. Það er kunnugt, að þær 400 þús. kr., sem landssjóði er ætlað að verja til hlutakaupa í félaginu, eru bundnar því skilyrði, að stjórnin vilji og geti útvegað svo stórt lán; við þetta getur Eimskipafélagið alla ekki ráðið. Raunar er stjórninni lagt létt verk í hendur, þar sem henni er heimilað að veðsetja báða bátana. En það kemur fyrir eitt. Þar sem nú ekki einu sinni á að greiða félaginu neinn styrk án þessa skilyrðis í fjárlögunum, þá liggur það öllum í augum uppi, að akilyrðið getur orðið þess valdandi, að félagið komist aldrei á stofn, svo framarlega sem stjórnin ekki útvegar þetta 400 þús. kr. lán.

Enn geta fleiri ástæður leitt til þess að félagið verði ekki stofnað.

Ef t. d. landsstjórnin heldur því fram, að hún fái atkvæðisrétt í félaginu fyrir hönd landasjóða fyrir öllum hlutum hana, 400 þús. kr., þá get eg hugsað mér það að félagið geti alla ekki að því gengið.

Að vísu hefir samgöngumálanefndin í nýju áliti frá sér sett ýmsar reglur fyrir stjórnina í þessu efni. En stjórnin getur skotið sér undan að taka þær bendingar til greina. Til þess að það sé víst, þarf að minsta kosti skýra yfir, lýsing hæstv. ráðherra um að hann taki þær að öllu leyti til greina.

Svo framarlega sem þessi breyt.till. á þgskj. 825 verður ekki samþykt, þá er útséð um það, að félagið verði stofnað, nema því að eina að hæstv. ráðherra lýsi ótvírætt yfir því, að hann geti útvegað þetta 400 þús. kr. lán.

Eg hefi átt tal um þetta efni við ýmsa þingmenn í Ed., og efast ekki um það, að ef skilyrðið er nú felt burt hér, muni Ed. gera sér það að góðu og nefndin þar fallast á það, þar sem málið hefir nú skýrst þannig.

Eg hefi nú reynt að gera mönnum það skiljanlegt, að ef ekilyrðið er látið standa, þá er það alveg eina víst, að Eimskipafélaginu sé dauðinn vís, svo framarlega sem ið fyrirhugaða 400 þús. kr. lán fæst ekki. Þetta vona eg að háttv. þm. hafi skilið, og skilið til hlítar.

Eg hafði leyft mér að koma fram með breyt.till. á þgskj. 813, um að hækka styrkinn til dr. Helga Péturss úr 1200 kr. upp í 2000 kr., en mér hefir verið bent á, að sú breyt.till. kæmist ekki að, af því að sama upphæðin hefði verið feld úr frumvarpinu eftir að það kom til Ed. Þess vegna hefi eg leyft mér að koma fram með breyt.till. á þgsk j. 864, um að hækka styrkinn upp í 1800 kr. Það er eiginlega br.till. við br.till. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) á þgskj. 847, sem fer fram á að færa sama styrk upp í 1500 kr.

Eins og eg hefi áður tekið fram, er það hart að ætla að klípa af styrknum til þessa manna, að eina vegna þess að hann hefir orðið fyrir þungri vanheilsu. Því fremur er þetta óviðkunnanlegt sem þegar áður hafa verið klipnar 500 kr. af styrk til sama manna — hann hafði sem sé áður 2500 kr. — og hafði hann þó þá einnig styrk úr Carlsbergssjóði, sem hann ekki hefir lengur. Einkum fer illa á þessu, þegar þess er gætt, að manninum er alt af að batna. Hann er nú nýkominn úr löngu ferðalagi og hefir honum stór-farið fram. Eg benti á það við 3. umr., að þessi styrkur væri ekki eingöngu veittur dr. Helga til að rita, heldur og til þess að ferðast og rannsaka landið; verður hann því eðlilega að greiða ferðakoatnað, hesta og fylgd. Þegar þessa er gætt, er auðsætt, að ekki veitti af 2000 kr. styrk. en eg hefi þó ekki farið fram á meira en 1800 kr., vegna þess að það er ekki hægt.

Ef klipið er af þessum styrk, þá leiðir af því, að dr. Helgi verður að sitja heima, og getur það orðið til þess, að honum batni aldrei, en það veit eg, að háttv. deild vill ekki hafa á sinni ábyrgð, einkum þegar maðurinn er á stórum batavegi. Eg skal líka benda á það, að öðruvís hefir verið farið að, þegar líkt hefir verið ástatt sem hér, t. d. nú í sumar hefir þingið veitt styrk til þess að kosta kennslu fyrir kennara einn, sem er veikur, svo að hann fengi haldið launum sínum óskertum. Um dr. Helga geri eg mér fylstu vonir, ef engin óhöpp koma fyrir, að á næsta þingi verði hann orðinn svo hraustur, að þingið sjái ekkert á móti því að veita honum inn fylsta styrk.

Þetta segi eg ekki af því, að þessi maður sé mér nokkuð viðriðinu. Hann er mér óvenslaður alveg bæði að frændaemi og mágsemdum. Eg styð þennan styrk eingöngu af því, að eg hefi sjálfur áhuga á jarðfræðarannsóknum og því er þar að lýtur.

Eg sé á frv., að ein þeirra tillagna, sem eg hafði komið fram með hér við 3. umr., hefir verið tekin upp af háttv Ed. Það er fjárveitingin til Eggerts Briem til að nema rafmagns- og vélafræði í Þýzkalandi. Eg benti þá á, að hér væri of lítið um vélfræðinga; eini maðurinn, sem vér höfum nú, er útlendur, og einu er við nám í Kaupmannahöfn og á tvö ár eftir. Eftir því sem Vélum fjölgar hér, eftir því verður þörfin meiri á að hafa mann, sem getur kent meðferð véla og gert við þær. Þessi maður hefir fengið töluverða praktíska undirbúningsmentun, þótt ekki hafi gengið í skóla, og hefir sýnt það, að hann er frábærum hæfileikum gæddur. Tillaga mín um fjárveiting til hans við 3. umr. hér féll að eins með eins atkv. mun.. En nú hefir Ed. tekið hana upp. Eg vona að það verði ekki einungis 12, heldur 13 menn, sem nú greiða atkvæði með því.

Það var fleira, sem mig langaði til þess að tala um nú, t. d. um Einar Jónsson. Eg varð glaður, þegar eg sá, hvað hv. Ed. hafði gert við styrkinn til hans. Eg varð glaður vegna þess að með þessu móti var manninum bjargað. Eins og háttv. Nd. skildi við hann um daginn, þá var manninum ekki bjargað.

Loks er það eitt atriði, sem eg vil minnast á. Það er lagt til, að 18,000 krónur verði veittar til frekari rannsóknar á járbrautarlagningu. Eg hefi rækilega athugað þetta mál í nefnd og komist að þeirri niðurstöðu, eins og nefndarálit mitt ber með sér, að ekki sé gerlegt að leggja út í það fyrtæki. Annars skil eg ekki í því, að allur meiri hluti járnbrautarnefndarinnar hafi verið á einu máli um það að leggja til að þetta fé yrði veitt. Því að það stendur í nefndaráliti meiri hlutana þessi setning:

Aðrir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar, að málið væri svo undirbúið, að gera megi sér nokkurn veginn grein fyrirkostnaðinum víð fyrirtækið. Eg skil ekki, að þeir sömu menn vilji fara, að kasta út 18,000 krónum til frekari undirbúnings á því sem þeir álíta nægilega undirbúið. Breyt.till. háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) er mikið betri en tillagan sjálf, og ef eg yfir höfuð vildi veita nokkuð til þessara rannsókna, þá mundi eg greiða atkvæði með henni. Eg ætla ekki að fara neitt inn á spursmálið um, hvers vegna eg ekki vil veita neitt; eg skírskota þar einungis til nefndarálits míns, sem er allítarlegt.