11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Kristján Jónsson:

Með fáeinum orðum verð eg að mæla með breyt.till. minni á þgskj. 841, en hún fer fram á það að hækka styrkinn til mótorbátsferða á Hvítá, upp í 800 krónur, úr 600 krónum. Þessi styrkur var ákveðinn 800 krónur hér í Nd um daginn. Ed. hefir fært hann niður í 600 kr. Hver rök liggja til þess, veit eg ekki. Þetta er lítill sparnaður, en getur orðið til þess að ferðirnar leggist alveg niður. Fyrir því kem eg með breyt.till., og legg til að styrkurinn sé aftur færður upp í 800 kr. Það sem gerir svo erfitt fyrir þessar ferðir að borga sig, er, að bátnum, sem fer ferðirnar, eru settar ákvenar ferðaáætlanir. Báturinn verður að fara inar ákveðnu ferðir, þótt hvorki sé flutning eða farþega að hafa. Það gerir honum samkepnina erfiða. Aðrir bátar, sem við hann keppa, nota tækifærin er arðsvon er af flutningum, og fara því að eins ferðir, að þeir hafi vissa von um flutning á vörum eða mönnum eða hvorutveggju; þeir bátar geta grætt á ferðunum. Mér hefir verið tjáð, að menn þar efra treystu sér ekki til að halda bátnum úti, nema 1000 kr. styrkur fengist; en eg hefi alt að einu ekki viljað fara fara fram á meira en 800 kr. Það hefir verið talað um, að sumir mótorbátar, sem landssjóður hefir styrkt, væru að öllu leyti í höndum einstakra Verzlana; hér er ekki slíku til að dreifa, því að bátnum er haldið út af bændum beggja megin Hvítár. Þetta er að öllu leyti bændafyrirtæki, sem hefir mikla þýðingu fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslur, eins og áður hefir verið vikið að.

Þegar svo er athugað ákvæði fjárlaganna, um að styrkurinn megi ekki fara fram úr helmingi rekstrarkostnaðar, er útgerðarmenn þannig verða að leggja fram, virðist það eigi vera neitt stórræði, að samþykkja styrkveitinguna, eins og eg æski að hún sé.

Frekara álít eg ekki þörf að tala fyrir þessu máli. Háttv. deild hefir áður samþykt þá upphæð, sem brtill. fer fram á, og eg leyfi mér að vænta þess, að svo verði enn. Áður en eg sezt niður, vil eg þakka háttv. þingmanni N.-Ísf. fyrir það, hve hlýlega hann mælti með þessari litlu brtill., um leið og hann talaði fyrir þeim brtill., sem hann hefir komið fram með við þessa umr.