11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í C-deild Alþingistíðinda. (2654)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Valtýr Guðmundsson:

Á þskj. 825 er komin fram brtill. við 13. gr. C. III, um Eimakipafélag Íslands. Þarf eg ekki að tala langt mál um það, því að háttv. framstigumaður hefir lýst afstöðu okkar meiri hlutans í samgöngumálanefndinni. Meiri hluta nefndarinnar hefir ekki verið skiljanlegt það kapp, sem menn hafa lagt á að fella þetta skilyrði burtu fyrir styrkveitingunni, að samningar takist við það um strandferðir eigi síðar en 1916. Það hefir verið sagt, að þetta skilyrði gæti orðið til þess að drepa eða hindra stofnun félagsins, en þetta getur mér ekki skilist. Þetta skilyrði er einmitt til þess, að gefa félaginu enn meiri hvöt til stofnunar félagsins, og að það taki að sér strandferðirnar. Okkur í meiri hluta samgöngumálanefndarinnar er alveg óskiljanlegt, hvernig bráðabirgðastjórn Eimskipafélagsins getur lagt svo mikið kapp á að þetta verði ekki sett sem skilyrði fyrir styrkveitingunni. Ef félagið hefir hugsað sér — eins og getið er í útboðsboðsskjalinu og eins í bréfi til samgöngumálanefndarinnar — að taka að sér strandferðirnar, þá er það alveg óskiljanlegt hvers vegna bráðabirgðastjórnin vill meina Alþingi að setja þetta skilyrði. Að félagið komist ekki á stofn vegna þessa skilyrðis, það kemur ekki til nokkurra mála, því enginn ætlast til þess að bráðabirgðastjórnin stofni félagið, heldur getur hún að eina kallað saman hluthafafund, sem svo getur atofnað félagið og það er síður en svo, að samgöngumálanefndin vilji hnekkja stofnun þessa félaga, heldur þvert á móti vill hún gera alt sem í hennar valdi stendur til þess að hjálpa félaginu á fót og tryggja tilveru þess. Og það er enginn betri vegur til þess að tryggja tilveru þess, en að landssjóður gerist hluthafi í félaginu. Það er bezta tryggingin að landssjóður eigi svo mikinn hluta í félaginu, að hann geti ekki látið það falla, nema með því að akaðast stórkostlega. Þess er að gæta, að þetta atriði var samþykt í efri deild með því nær öllum atkvæðum. Og mér er kunnugt um það, að þm. í efri deild leggja mjög mikla áherzlu á þetta atriði, og þó því yrði breytt hér í deildinni, er engan veginn víst að sú breyting yrði samþykt í efri deild.

Um leið og eg minnist á styrkinn til Eimskipafélagsins, vil eg minnast á styrkveitinguna til strandferðanna. Samgöngumálanefndir efri og neðri deildar hafa komið fram með álit sitt um það í framhaldanefndaráliti á þingskj. 835. Samgöngumálanefndin hefir lagt til að gefa stjórninni sem frjálsastar hendur um, hvernig atrandferðastyrknum skuli varið. Þykir sumum stjórninni gerðar of frjálsar hendur í þessu, og hefðu átt að vera settar einhverjar ákveðnari reglur um notkun styrksins, en samgöngumálanefndin leit svo á, að það mætti treysta stjórninni í þessu efni og ætti því að gefa henni sem frjálsastar hendur, því það gæti orðið til þess að samningar strönduðu, ef gerðar væru of miklar reglur af þingsins hálfu. Hefir það sýnt sig áður, að of miklar reglur frá þingsins hálfu hafa orðið til þess að samningar um strandferðir komust ekki á. En til þess nú að stjórnin yrði ekki of ströng í kröfum sínum, þá hefir samgöngumálanefndin tekið það fram, að hún álítur, að ekki beri að krefjast atkvæðisréttar fyrir hönd landssjóða eftir krónutali í hluttöku hana, sem gæti leitt til þess að stjórnin yrði alls ráðandi í félaginu. Ræður nefndin til þess að treysta stjórninni í þessu efni, treystir hún því, að stjórnin fari eftir því sem hún hefir bezt vit á. Ef hún gerir það ekki, þá má hengja hana á eftir, en það er ekki hægt að gera við þingið, því þó það geri eitthvað vitlaust, þá er þó ekki hægt að hengja það á eftir; það er ábyrgðarlaust, en stjórnin ekki.

Það sem aðallega hefir vakað fyrir samgöngumálanefndinni, er það, að þar sem við vitum ekki um samningsskilyrðin, sem ætt kunna að verða, að áherzla sé lögð á það, að stjórnin hagi sínum samningum þannig, að hlutirnir í Eimskipafélaginu komist ekki í hendur útlendinga, heldur verði í höndum Íslendinga sjálfra, og jafnframt þannig, að landssjóður hafi ekki of mikil ráð í félaginu, heldur skuli félagið sjálft jafnan hafa aðalráðin. Nefndin leggur aðaláherzluna á, að félagið verði alíslenzkt. og aldrei annað.

Hugsun samgöngumálanefndarinnar er það, að strandferðirnar verði landssjóði ekki nein byrði. Álítur nefndin að landssjóður hljóti að verða skaðlaus af strandferðunum þegar þær fá jafnmikinn styrk og Sameinaðafélagið hefir fengið fyrir að halda uppi bæði millilandaferðunum og strandferðunum. Og það er vitanlegt, að Sameinaðafélagið hefir ekki haldið uppi þeim ferðum sér til skaða, og því ætti landasjóður ekki heldur að þurfa það. En skyldi það sýna sig, að landssjóður biði að einhverju leyti skaða af strandferðunum, þá efast nefndin ekki um það, að þingið hlaupi undir bagga. Hugsun samgöngumálanefndarinnar er sú, að þingið bíti ekki um of við neglur sér þetta tillag til strandferðanna. Ef nauðsyn krefði. í framtíðinni að hækka þennan styrk, þá mætti gera það, en að svo komnu er samgöngumálanefndin sammála um það, að styrkurinn þurfi ekki að vera hærri, en hann er settur nú.

Svo vildi eg — minnast á 13. gr. D. VIII. Fjárlaganefndin fer fram á, að þessi liður falli burt, þessi, að kaupa núverandi símastöðvarhús á Akureyri, sem efri deild hefir lagt til að 14000 kr. yrðu veittar til. Eg hugsa, að háttv. deildarmönnum sé þetta mál ekki vel kunnugt, og vil eg því fara um það nokkrum orðum.

Svo er mál með vexti, að símastjórinn, Forberg, — hefir árið —1910 gert samning við eiganda hússins um, að kaupa húsið með því skilyrði, að Alþingi leggi fé til þess á næsta þingi, »sem eg skuldbind mig til þess að vinna að af fremsta megni: að það geri«. Forberg fór nú fram á þetta við ráðherra, lagði það til að landið keypti húsið. En þessi till. var alls ekki lögð fram fyrir næsta þing á eftir, þingið 1911, eins og sjálfsagt hefði verið, heldur fer Forberg nú fram á það, að símastöðin verði flutt burt úr húsinu — sem hann áður taldi ófært sökum kostnaðar — og landið láti byggja nýtt hús fyrir simastöðina. Áður hefir Forberg rökstutt það, að það þyrfti að kaupa núverandi símastöðvarhúsið, með því að það væri svo mikill kostnaðarauki að flytja úr húsinu. En nú leggur hann til að byggja nýtt hús og flytja þangað stöðina, sem hann áður taldi ófært, auk þess sem hann vill nú bregðast samningnum um kaupin á húsinu. Það verður ekki annað sagt, en að þetta sé nokkuð skrítið. Símastjórinn virðist líka vera æði illa að sér, þar sem hann í bréfi til fjárlaganefndarinnar segir, að fjárveiting til þess að kaupa húsið hafi verið feld á þinginu 1911 og hann sé því laus ailra mála hvað samninginn snerti. Þetta er æði undarlegt, þar sem þessi fjárveiting var alls ekki lögð fyrir þingið 1911 og skilyrðunum í samningnum er því ekki fullnægt.

Þær upplýsingar, sem liggja fyrir um þetta mál, sanna, að það yrði arðvænlegra að kaupa þetta hús, heldur en að byggja nýtt hús á þessari tilteknu lóð. Auk þess sem kostnaðurinn við flutning simastöðvarinnar yrði mjög mikill, þá liggur þetta hús á betri stað í bænum, en hitt myndi gera, sem bygt yrði, því þótt það að vísu lægi meira Centralt í bænum nú, þá myndi húsið sem símastöðin er nú í, liggja meira Centralt þegar bærinn ykist, sem vel má búast við. Í kringum húsið eru margar byggingalóðir, sem eru engar á hinum staðnum, sem líklegar væru til þess að hús yrðu bygð á, sem þyrftu síma, eins og verzlunarhús og þess háttar. Á þessu svæði, Oddeyrarsvæðinu, eru engin líkindi til að byggist neitt að ráði, nema þá helzt af fátækara fólki, sem ekki hefir síma.

Eg held því, að séð frá landssjóðs hálfu, sé réttast að halda við það sem háttv. efri deild hefir gert. Mér finst það ekki vel sæmilegt, þegar stjórnarvöldin eru búin að gera skriflegan samning um eitthvað, að þingið fari þá að bregða þeim samningi, og það með rökstuðningi, sem fer í bera mótsögn við sjálfan sig. Eg held því, að ef það væri gert, þá liggi hér eitthvað annað undir.

Fjárlaganefndin hefir komið fram með breyt.till. við 16. gr. 3, að styrkurinn til ræktunarfræðisnema falli burtu, sem háttv. Fd. hefir veitt 800 kr. til. Þessi ræktunarfræðisnemi hefir mér skilist að sé í samræmi við það, sem háttv. Ed. hefir lagt til. verkfræðingur landsins annist, ásamt aðstoðarmönnum sínum, undirbúning og framkvæmd ræktunarvatnsvirkja á meðan landið eigi ekki völ á sérstökum innlendum ræktunar-verkfræðingi, sem mér skilst að sé sama sem kulturtekniker. Eg álít því ekki vel til fallið að fella burtu styrk til slíka manns. Við höfum mikla brúkun fyrir svona mann og ekki eru mikil líkindi til þess að nokkur fari að nema það án nokkurra uppörvunar. Og það er afar-áríðandi að einhver Íslendingur leggi þetta fyrir sig, og því er ekki nema sjálfsagt af þinginu að stuðla að því, og því betra er að veita styrk til þess, þegar ekki er um neinn ákveðinn mann að ræða. Bezti styrkurinn er alt af sá, sem er veittur út í loftið, ekki til neins viss manns; þar er auðséð nauðsyn fyrir hendi og getur ekki verið um það að tala að agitation hafi ráðið styrkveitingunni.

Það er mjög þýðingarmikið að koma upp vatnsfyrirtækjum hér á landi, að veita frjósömu jökulánum yfir láglendið svo þar verði alt þakið kafgresi. Þetta er því sjálfsagðara, þar sem náttúran sjálf hjálpar þar til. Eg hefi oft hugsað um hólminn í Héraðsvötnunum. Engum hefir þar dottið í hug að veita ánni yfir hann, sem væri þó svo auðvelt að gera, svo þar yrðu frjósamar engjar. Og gaman væri að sjá Fljótsdalinn kafloðinn af grasi þegar búið væri að veita Lagarfljóti yfir slétturnar þar, eða þá engjarnar á Valþjófastaðaklaustri þegar búið væri að veita Jökulsá yfir þær. Já, það er sannarlega þörf á manni til þess að gera þetta. Það er ekki að eina nauðsyn, heldur lífsnauðsyn, til þess að fá slíkan mann. Og það er því ekki statsökonomiskt gert að fella burtu styrk handa manni til þess að nema þetta, ef ske kynni að einhver vildi leggja það fyrir sig.

Eg hefi leyft mér að koma fram með eina breyt.till. á þgskj. 844 við 16. gr. 26. Vil eg geta þess að þetta er einasta breyt.till., sem eg hefi komið fram með við fjárlögin.

Vil eg nú leyfa mér að gera stutta grein fyrir þessari breyt.till. minni:

Það hefir verið stofnað nýlega félag hér í bænum, sem nefnist Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Vil eg leyfa mér með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp 1. gr. í lögum þessa félags. Hún hljóðar svo:

»Það er tilgangur félagsins, að auka og efla þjóðlegan heimilisiðnað á Íslandi, stuðla að vöndun hana og fegurð, og vekja áhuga manna á því að framleiða nytsama hluti. Jafnframt ekal félagið stuðla að sem arðvænlegastri sölu á íslenzkum heimilisiðnaðarafurðum, bæði á Íslandi og erlendis«.

Þetta félag hefir nú sent þinginu umsókn um styrk, því stofnendum félagsins er ljóst, að það getur ekki unnið styrklaust, þar sem félagið ætlar sér að hafa námsakeið og deildir út um alt land. Eg játa það, að fjárlaganefndin hefir haft fulla ástæðu til þess að synja félaginu um þann styrk, sem það bað um, því það var nokkuð frekt af félaginu að fara fram á svo háan styrk 5000 kr. — þegar það hefir ekki sýnt það í neinu, að það eigi skilið að fá styrk, þegar það er ekki tekið til starfa enn þá. En hitt er ljóst, að hér er um breytingu að ræða, sem er okkur Íslendingum mjög nauðsynleg og því hefi eg leyft mér að koma fram með brtill. um það að þingið veiti félaginu 500 kr. styrk hvort árið. Þetta yrði að eina til uppörvunar að halda félaginu áfram og nokkur hjálp til þess að agítera til þess að fá nýja meðlimi í félagið, því svona félagsstofnun þurfum við að fá. Svona félög hafa verið stofnuð á tölum norðurlöndum — mjög mörg í Noregi og Svíþjóð og allmörg í Danmörku — og alstaðar í öllum þessum löndum hafa félögin gert stórmikið gagn, enda hafa þau líka verið styrkt til þess úr ríkissjóðum landanna og þykir öllum það borga sig vel.

Það er eitt félag í Svíþjóð, sem eg veit um að hefir selt heimilisiðnaðarafurðir fyrir 272 þús. kr., og hefir það alt verið unnið í tómstundum. Þessi félög kenna mönnum og venja menn á iðjusemi, nota hverja tómstund til þess að vinna eitthvert gagn, vekur ást til vinnunnar — vekur ást og ánægju yfir lífinu.

Í skýrslu frá einu félagi norsku segir frá einum ungum manni, sem vann sér þannig inn 9000 kr. Var það alt fyrir vinnu, sem hann hafði unnið í tómstundum sínum. Þessi maður keypti sér svo jörð fyrir 4000 kr. og vann að jörðinni á eftir og alt þetta í frístundum sínum. Er það eftirtektarvert, að þessi maður hafði áður ætlað til Ameríku af því honum fanst hann ekki hafa nógu góða atvinnu. En svo fór hann í eitt af þessum félögum og nú vill hann ekki lengur fara til Ameríku og iðrast ekki eftir því að hafa farið í félagið.

Dæmi upp á það, sem þessi smávegis iðnaður getur unnið að, er t. d. það, að flétta körfur úr tágum. Það er fremur einfalt verk og er alveg eins hægt að gera það hér og í öðrum löndum.

Árið 1893 voru fluttar inn í Noreg úr Svíþjóð körfur fyrir liðlega 50 þús. kr. En svo kom upp heimilisiðnaðurinn í Noregi og nú er svo langt frá því, að þeir sæki þetta til Svíþjóðar, að nú flytja þeir út körfur fyrir 158 þús. kr. ári, auk alls, sem þeir brúka handa sjálfum sér. Þetta er nú ekki nema eitt lítið dæmi, en svona er það á mörgum sviðum.

Nú er því svo farið hér á Íslandi, að allmargir hafa lítið að vinna á vetrum. Að vísu er nú fólksekla í sveitum, en þá er allur sjávarlýðurinn, sem oft og einatt verður að liggja í landi. Væri nú ekki munur, ef hann vendist á að gera eitthvað til þarfa þann tímann? Nú er svo komið, að 1/3 þjóðarinnar á heima í kauptúnum og sjávarþorpum, og í Reykjavík einni eru um 13% af öllum landsmönnum. Þar var veiðitíminn ekki nema 28 vikur árið 1908, en að meðaltali um land alt var hann ekki nema 20 vikur. Væri nú ekki gott, að þessi lýður gæti aukið tekjur alnar með einhverri aukavinnu Ætli þá færu ekki færri á sveitina en nú?

Nú sem stendur er varið um 150 þús. kr. á ári til sveitarstyrks. Þær þúsundir mundu verða færri, ef Íslendingar temdu sér heimilisiðnað. Það má búa hér til margt, sem nú er fengið annarstaðar að, t. d. flytjum við inn barnaleikföng fyrir rúml. 30 þús. kr. á ári, og eru mörg þeirra ljót og ósmekkleg, og allar líkur til þess, að vér gætum gert þau betur sjálfir, því að Íslendingar hafa ætíð haft orð á sér fyrir að vera hagir menn. Ekki getum vér einu sinni búið oss til höfuðföt eða hálslínið, og ef einhver á silkihatt, þá er ekki hægt að fá hann burstaðan, því að burstar eru ekki búnir til hér á landi. Auk þess er hér það verkefni fyrir hendi, að halda við þjóðlegum iðnaði, því að hér hefir verið þjóðlegur iðnaður í landinu, þótt hann sé nú að því kominn að deyja út, en hann þarf að rísa upp endurfæddur. Eg vona því að þingið muni styðja þessa tillögu, því að það er hvöt fyrir félagið, og eg efast ekki um að það verður álitið verðugt fyrir styrkinn síðar, þegar það hefir sýnt trú sína í verkinu.

Þá er brt. frá járnbrautarnefndinni við 16. gr. 32, um að veittar séu alt að 18,000 kr. til frekari rannsókna á járnbrautarstæðinu. Eg er nú í nefndinni og hefi ekki gert ágreiningsatkvæði um þessa tillögu, en eg tók það fram í nefndinni, að eg er henni mótfallinn. Ekki svo að skilja, að eg sé móti því, að fé sé veitt til frekari aðgerða í málinu. Eg er eins og allir vita einmitt stálharðari járnbrautarmaður en flestir aðrir. Hitt er það, að eg álít að nú hafi þegar verið gert nóg í þessu máli til þess að hægt sé að halda því í horfinu, og að nú liggi næst fyrir að fara að útvega tilboð til járnbrautarlagningarinnar, og um þau tilboð á svo þingið að dæma. En til þess að útvega það tilboð, þarf fé. Það er ekki nóg að auglýsa eftir því, heldur verður að senda mann utan, sem hefir í höndum öll skilríki þessu viðvíkjandi, og þess vegna er eg meðmæltur brt. háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) um að veita 4000 kr. í þessu skyni. (L. H. Bjarnason: Vill háttv. þingm. fara sjálfur fyrir það fé ?). Hvað sem um það er, veit eg, að ekki kostar svo mikið að fara t. d. til Lundúna og Parísarborgar. Það er talað um, að betur þurfi að rannsaka snjóþyngslin á brautarstæðinu en gert hefir verið. Eg álít nú að það sé hreinasta óráð að vera að fá sérfræðing frá öðrum löndum til þess að rannsaka þetta og annað eins. Ef nokkuð á úr því að verða, þá verður að fá eitthvert félag til þess að taka það að sér, og það gerir ekkert félag án þess að senda af sinni hálfu verkfróðan fulltrúa til þess að rannsaka alt það er að brautarlagningunni lýtur. Það er því ekki annað en að kasta peningunum í sjóinn, að landið fari að kosta þessa frekari rannsókn. Það getur það sparað sér.

Ef landssjóður ætlaði sjálfur að taka járnbrautarlagninguna að sér, þá væri þetta auðvitað sjálfsagt. En eg álit að málið sé alls ekki komið á þann rekspöl enn þá, að eg þori að leggja slíkt til fyrir landssjóðs hönd. Og undir öllum kringumstæðum yrði að aðferð aldrei annað en þrautaúrræði, ef annað bregzt.

Eins er það of snemt að að tala um að nú, hvort nota eigi gufuafl eða rafmagn. Fyrst er að vita, hvort brautin verður lögð yfir höfuð. Þetta er eins og að smíða negluna á undan bátnum, því að það verður aldrei svo mikill munur á rekstrarkostnaðinum, hvort hreyfiaflið sem tekið er, að það riði mikinn baggamun þegar um það er að ræða, hvort brautin á að komast á eða ekki. Hins vegar tel eg líklegast, að rafmagnið verði ofan á þegar til kemur, því að nú er t. d. í Svíþjóð verið sem óðast að breyta hreyfiafli járnbrautarvagnanna úr gufuafli í rafmagn. Og sama er að segja um Ameríku. Og þá tel eg ekki nema sjálfsagt í landi, sem hefir jafnmikið vatnsafl og hér er, að nota það, heldur en að kaupa afl framleiðsluna frá öðrum löndum.

Eg hefi nú talað nokkuð lengi, og þótt eg hefði gjarnan viljað taka nokkuð fleira fram, þá vil eg ekki eyða meiri tíma en þetta. En eg vil að það komi greinilega fram, að þótt eg sé í nefndinni og hlyntur járnbrautarmálinu, vil eg þó ekki þessa háu fjárveitingu til framhaldsrannsóknarinnar.