11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í C-deild Alþingistíðinda. (2657)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Björn Kristjánsson:

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) var enn að tala um þetta Eimskipafélagaskilyrði. Af fyrri hluta ræðu hans var að heyra að hann væri líkrar skoðunar og áður um það atriði. En á síðari hluta ræðunnar skildist mér hann gera þó ráð fyrir því, að svo gæti farið, að ekkert yrði. úr samningunum um strandferðirnar, ef féð fengist ekki til þeirra. Hann sagði að þá mætti grípa til að veita fé á fjáraukalögum á þinginu 1914, ef samningarnir tækjust ekki. Þetta er alveg réttur skilningur, en annað mál er það, hvort það er tiltækilegt úrræði. Ef félagið fær ekki skýlausan, skilyrðislausan styrk nú þegar, getur það ekki haldið stofnfund sinn fyr en eftir þing 1914. En þá ætti það að vera búið að gefa út áætlanir sínar fyrir árið 1915. Það var þetta, sem eg vildi benda á. Félagið getur ekki stofnast fyr en það hefir fengið beina skilyrðislausa fjárveitingu. Á því er útboðsskjalið bygt.

Eg get vísað til nefndarálitsins á þgskj. 835 Viðvíkjandi þeim tryggingarákvæðum handa félaginu, sem samgöngumálanefndirnar í báðum deildum hafa komið sér saman um að benda á. Þar er eitt atriði sérstaklega, sem alveg vantar í nefndarálitið, sem valdið gæti ágreiningi milli landsstjórnarinnar og félagsins, og það er skifting arðsins. Það er eðlilegt, að ekki sé svo gengið frá þessu máli sem skyldi, því hefir verið flaustrað svo af, vegna naumleika tímans. Um önnur atriði, sem tekin eru fram í nefndarálitinu, gæti líka orðið ágreiningur, en sérstaklega er hætt við því um þetta eina atriði, er eg gat um.

Auðvitað veltur þetta mál algerlega á því, hvort stjórnin er hlynt því eða ekki. En nú er það vitanlegt, að hún er það alla ekki. Það er þess vegna nauðsynlegt, að fá að vita, hvort nokkur von er um að stjórnin fari eftir þeim bendingum, sem í nefndarálitinu standa. — Út af því vildi eg mega gera tvær fyrirspurnir til hæstv. ráðherra.

1. Vill hann lýsa yfir því að hann vilji og treysti sér til að útvega 400 þús. kr. lán til strandferðanna?

2. Vill hann skuldbinda sig til að komast að samningum við Eimskipafélagið um öll atriðin viðvíkjandi strandferðunum?

Eg spyr ekki af því, að eg viti ekki fyrirfram, hvert svarið verður. Eg veit, að hann segir nei í báðum tilfellunum. Hann getur ekki svarað þeim játandi. (Ráherrann: Eg get svarað strax, eg segi nei Við báðum spurningunum). Eg vissi það. En það sýnir glögglega, að engin trygging er fyrir því að félagið geti stofnast nema styrkurinn sé veittur skilyrðislaust á fjárlögunum.

Það sýnir, að þetta atriði, sem eg hefi barist fyrir bæði hér í deildinni og í samgöngumálanefndinni, er á rökum bygt Það er því engum blöðum um það að fletta, hvað deildin á að gera. Hún á að samþykkja till. okkar þriggja þingmanna, eins og hún gerði svo rækilega síðast, þar sem 16 atkvæði voru með henni. Eg skal svo ekki eyða fleiri orðum um málið. Það var aðalatriðið fyrir mér, að fá það skýrt í ljós, hvernig málið horfir við þinginu. Nd. á að láta Ed. bera ábyrgð á því, hvernig þingið skilur við þetta mál.

Út af till. um 18 þús. kr. fjárveitinguna til undirbúnings járnbautarlagningunni skal eg geta þess, að eg er ekki á því að neitt fé eigi að veita. Það er þegar upplýst, að járnbrautarmálið hlýtur að leggjast á hilluna að svo stöddu.

Það hefir verið sagt, að innlent félag, en ekki erlent, ætti að hafa með höndum rekstur þessa fyrirtækis. Eg er þá ekki svo kunnugur efnahag manna, hér á landi, sem eg hélt, ef það verður ekki að eins á pappírnum. Hæstv. ráðherra sagði. að menn hér á landi væru ekki svo efnum búnir, að þeir gætu varið 8–10 þús. kr. til að rannsaka þetta mál verkfræðislega. Þetta er hverju orði sannara. En úr því að efnahagurinn er svona bágborinn, þá má geta nærri, hvernig mönnum gengur að leggja fram eigið veltufé, sem nemur 4–6 milíónum króna.

Hæstv. ráðherra sagði um vitajörðina, að landssjóður hefði engan hagnað af að kaupa hana. Þetta getur rétt verið, því að samningarnir um jörðina eru tryggir. En landssjóður mundi heldur engan skaða hafa af því, og hann munar ekkert um að kaupa þennan litla blett. En manninn, sem vill selja jörðina, munar mikið um það. Og þegar svo standa sakir, þá liggur opið fyrir, hvað landssjóður á að gera. Þetta er ekki svo stórvægilegt mál; það er öðru nær. Maðurinn getur sjálfsagt á einhvern hátt klórað sig út úr sinum örðugu kringumstæðum, þó að jörðin verði ekki keypt. En úr því að svo stendur á, að manninn munar þetta miklu, en landssjóð engu, þá er engin ástæða til að verða ekki við þessum tilmælum.