11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2490 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Magnússon:

Eg skil ekki almennilega í því, ef háttv. þingmaður Seyðfirðinga er eins gallharður járnbrautarmaður eins og hann lætur, að hann skuli þá ekki vilja stuðla að því, að málið fái sem beztar viðtökur hér í deildinni. Það liggur í hlutarins eðli, að góður undirbúningur hlýtur að gera málinu mjög mikið gagn. En hvort sem tillaga járnbrautarnefndarinnar eða hin er tekin, þá er hér um litla fjárveiting að ræða, eftir atvikum. Það má vera, að ekki sé óskynsamlegt, að hafa það fyrir augum, að landið sjálft ráðist í það að leggja járnbrautina.

Mér virðist ekki fjarska-langt á milli þess, að landið eignist járnbrautina, og hins, að það ábyrgist rekstrarkostnað hennar, ef aðrir eiga hana.

Eg þykist ekki þurfa að fjölyrða um þetta mál, því að undirtektir hæstvirts ráðherra hafa verið mjög góðar og háttv. fjárlaganefnd styður tillöguna að sínu leyti. Vona eg því, að tillaga járnbrautarnefndarinnar verði samþykt. En 4000 kr. er alt of lítið, það skilur hver maður — jafnvel þó að ekki eigi að gera meira en háttv. þm. Seyðf. viðurkennir að gera þurfi.