23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (276)

73. mál, skoðun á síld

Flutn.m. (Magnús Kristjánsson):

Það er óhætt að fullyrða, að þessi lög, sem frv. fer fram á að breyta, hafa gert mikið gagn. Samt er ekki hægt að segja, að þau hafi reynst alveg gallalaus, og það eru þeir gallar, sem hér á að reyna að bæta úr. Lögin um síldarskoðun hafa náð tilgangi sínum fram yfir allar vonir. Þessi vara, sem getur gefið, og hefir gefið, landsmönnum og landssjóði svo miklar tekjur, hefir alt af síðan lögin komu til framkvæmda verið að vinna sér meira og meira álit á útlendum markaði. Það hefir ekki komið fyrir á síðustu árum, að hún hafi verið dæmd óbrúkleg vara í útlöndum, elns og fyrir hefir komið áður, og má nærri geta, hvílíkt stjórtjón slíkt getur verið, þegar jafnvel um heila skipsfarma er að ræða. Nú gilda þessi lög ekki lengur en til ársloka, og þar sem þau eru góð og gagnleg, þá er óhjákvæmilegt að framlengja þau nú á þessu þingi. Um það hygg eg að ekki verði skiftar skoðanir. En svo er annað atriði, sem eg vildi mega minnast á, þó að þetta sé 1. umr., og það er, að þessi lög hafa aldrei verið gildandi nema fyrir svæðið milli Horns og Langaness — það er að segja fyrir Norðurlandi. Því er nú að vísu svo farið, að þessi veiðiskapur hefir verið mestur á því svæði, enn sem komið er, en það er þó ekki útilokað, að aðrir landsfjórðungar komi þar með. Þess vegna er það nauðsynlegt og eðlilegt, að lögin taki til alls landsins, enda kom það fram á fiskiþinginu, sem svo hefir verið kallað, og háð Var hér í Rvík fyrir skemstu, að fulltrúarnir óskuðu breytinga í þessa átt. Það kann nú að vera, að einhver álíti að þetta muni hafa mikinn aukinn kostnað í för með sér, en eg mun síðar gera grein fyrir því, að svo muni ekki þurfa að vera, ef rétt er að farið.

Það er farið hér fram á fleiri breytingar, en eg finn ekki ástæðu til að fara frekar út í þær við þessa umr., og skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni. Eg Vona að háttv. deild taki því vel, og álít að þótt það sé ekki stórt, muni samt vera réttara að íhuga það í nefnd, og vil eg því stinga upp á 5 manna nefnd, að lokinni þessari umr.