23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (280)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Nefndin, sem kosin var í Landsbankamálinu, hefir leyft sér að koma fram með frv. þetta á þgskj. 123.

Hún var á einu máli um, að það sem gera þyrfti til stuðnings bankanum, væri að auka veltufé hans. En eins og tekið er fram í nefndarálitinu, er peningamarkaðsástandið svo slæmt, að ekki virðist tiltök að fara fram á, að landssjóður taki lán nú þegar til þess að auka veltufé Landsbankana.

Í nefndarálitinu er hér um bil alt tekið fram, sem segja þarf. Eg ætla þó að leyfa mér, að bæta nokkrum orðum við, því að það er orðin venja að fylgja hverju máli af stað með ræðu, þó það liggi ljóst fyrir. (Sigurður Sigurðsson: Það er slæm venja).

Hér er ekki um mál að ræða, sem snertir að eins eitt kjördæmi. Það er alment landsmál sem snertir alla þjóðina í heild sinni. Eg vona því, að mér sé óhætt að gera ráð fyrir, að hér komi engin flokkasskipun til greina né neitt af því tæi, sem getur hindrað að jafnmikið velferðamál nái fram að ganga.

Eins og hv. þm. muna, var það samþykt á þinginu 190 í að taka 2 miljóna króna lán til þess, að búa bankanum til veltufé. En slíkt lán, sem greiða þarf af rentur og tíðar afborganir, er engin veltufjáreign. Það eina veltufé, sem bankinn hefir, er lánstraust það sem honum var veitt árið 1885 og nokkru síðar þegar hann var stofnaður, með því að landssjóður gekk í ábyrgð fyrir 1/2 millíón króna seðlaútgáfu, sem síðar var færð upp í 3/4 millíón kr. Annað veltufé hefir bankinn ekki fengið. Og þessi ábyrgð landssjóðs, hún er hvorki annað né meira en þegar t. d. kaupfélag gengur í ábyrgð fyrir vöruslatta, sem menn kaupa.

Það er hvorttveggja sami hugsanagangurinn. En hugsanagangurinn var annar 1885, en hann er nú. Nú eru menn farnir að sjá, að ábyrgð dugar skamt, en það er veltufjáreign, sem þarf. Menn voru farnir að sjá þetta strax á þinginu 1902; þá datt engum í hug að byrja Íslandsbanka nema með veltufjáreign — 3 milliónum króna. Landsbankinn á enga veltufjáreign, nema ef telja á þessa lánuðu seðla, sem að vísu verða ekki teknir af honum aftur. En annað er það ekki — ekki einn eyrir.

Tímarnir hafa breyzt mikið síðan 1885. Nú er miklu meiri þörf á peningum en þá var, þó að ekki væri nema viðvíkjandi verzluninni. Árið 1885 námu útfluttu vörurnar rúmum 4 milj. kr., en 1911 nærri því 16 milj. kr. Með öðrum orðum, útfluttu vörurnar eða afurðir landsins hafa ferfaldast á þessu tímabili. Þó að ekki væri til annars en að velta þessu hagkvæmlega, svo menn biðu ekki tjón við að selja vörurnar á óhentugum tíma, væri brýn þörf á, að veltuféð væri aukið. Þess utan er fjöldi fyrirtækja, sem verið er að framkvæma, svo sem raflýsingar o.fl. og mörgum öðrum þörfum fyrirtækjum mundu sveita- og sýslufélög koma í verk, ef fé væri til þess.

Eins og nefndin hefir tekið fram í áliti sinu, væri full þörf á að tekið væri stórlán handa bankanum. En eins og eg drap á áðan, og líka er tekið fram í áliti nefndarinnar, er tíminn óhentugur til þess, peningaleigan er svo dýr í heiminum sem stendur. En úr því að ekki er hægt að fara beinu leiðina, verða menn að sætta sig við að fara óbeinu leiðina, sem er að vísu lengri, en miðar þó að sama marki, sem sé þá leið, að landssjóður taki að sér, að greiða þá skuld, sem stafar af 2 milj. kr. láninu sem tekið var samkvæmt lögum frá 1907. Með því móti mundi bankanum safnast á 20 árum 2 milj. króna eigið Veltufé, auk seðlanna, 3/4 milj. kr.

Fyrir þá sök, hvað veltuféð er lítið, verða búðirnar að halda áfram að vera bankar. Það var ætlast til þess, þegar Landsbankinn var stofnaður, að svo skyldi ekki vera. En það sýnir sig, að víða er þessu hér um bil eins háttað enn í dag, eins og það var 1885. Það sýnir veltufjárleysi bankanna. Sjálfsagt kemur að því, að öll vöruskiftaverzlun verður afnumin með lögum. En það verður aldrei hægt fyr en bankinn hefir fengið nægilegt veltufé. Þá fyrst er engin þörf á henni.

Að vísu hefir bankinn safnað í sjóð, svo nefnan varasjóð, nálega eins miklu fé og upphaflega veltuféð var, sem sé alt að 3/4 milj. kr. En þetta fé getur bankinn ekki haft í veltu sökum banda, sem á því hvíla. Minnist eg síðar á það, þegar rætt verður um hitt frumvarpið, sem er samhliða þessu.

Hér er ekki um annað að ræða en að safna í dálítið forðabúr, sem landsmenn geta flúið til þegar nauðsyn krefur. Það er aðaltakmarkið, og það hefðu menn helzt átt að setja sér undir eins 1885 þegar bankinn var atofnaður. Einhvern tíma verður að byrja á þessu, og þar sem fjárhagurinn er nú yfirleitt mjög góður, virðist engin ástæða til að bíða lengur.

Eg hefi heyrt það hér, að það væri óviðeigandi að landssjóður legði bankanum til veltufé — skattlegði þjóðina til þess. En eg fæ ekki séð, að það sé annað, en það sem altaf hefir verið gert. Landssjóður hefir altaf lagt fé til þess að landsmenn gætu notið arðs af atvinnuvegunum, og í skólana leggur hann stórfé, til þess að þjóðin græði andlega. Hér er það fjárhagslegur gróði, sem farið er fram á að landssjóður styrki. Eg get heldur ekki hugsað mér að bankinn geti fengið veltufé á annan hátt, en að landið leggi það til. Það væri öðru máli að gegna. ef hann væri hlutabanki, sem honum væri ef til vill hollara, því að þá mundi hann eiga fleiri stuðningsmenn. En meðan bankinn er Landsbanki; er það landið sem verður að styðja hann.

Um ástæðar bankans að öðru leyti, get eg vísað til skýrslu sem gefin var út í vetur. Má þar sjá ljóslega alt um hag bankans, og það sem gera þarf honum til eflingar.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, fyr en eg heyri undirtektir háttv. deildar. Vona eg, að hún verði nefndinni samdóma um, að þetta sé það allra minsta, sem hægt sé að gera bankanum til styrktar.