23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (281)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Umboðsm. ráðherra (Kl. J.):

Bæði þetta frs. og það næsta á. dagskránni miðar til þess að efla hag Landsbankans. Að því leyti má segja, að þau séu bæði þörf og góð. Því að vöxtur og viðgangur bankans miðar til þess, að efla hag landsmanna yfirleitt. En mér virðist, að háttv. nefnd hafi því nær að eins litið á aðra hlið málsins, þá hliðina, sem snýr að bankanum, en ekki eins á hina hliðina, þá sem að landsjóðnum veit. Háttv. nefnd ætlast til, að þessar miklu endurbætur á hag bankans gangi að öllu leyti út yfir landssjóðinn.

Næstu 20 árin á hann að greiða 100 þús. kr. á ári. Oft hafa verið heimtaðar úr landsjóði, með sérstökum lögum, stórar upphæðir, og er skemst á að minnast, að í háttv. Ed. var í gær afgreitt frumvarp, þar sem farið er fram á 5000 kr. árleg útgjöld, og fleiri frv. eru á leiðinni, sem ganga í líka átt. Þannig gengur það á hverju þingi. En svo stórtækir sem menn hafa verið áður, er þetta þó stórtækast. Mér verður því á að spyrja: Er landssjóður fær um að inna þetta af hendi? Háttv. nefnd segir svo vera, og byggir það á því, að fjárhagurinn sé góður, sem stendur. Það er satt; fjárhagurinn er mun betri, en hann hefir verið 2–3 undanfarin ár. En hann er langt frá því svo góður, að hann megi við jafn miklum útgjöldum árlega, og hér er farið fram á. Peningaforði landssjóðs er í dag þannig:

Hjá Stjórnarráðinu 118–119 þús kr.

Innieign, í Landsbankanum 152 —

Hjá landsféhirði 100 — —

Inn-ieign erlendis (nú í svipinn) 200 –

Samtals rúml. 570 þús. kr.

Peningaforðinn er því í fremur góðu lagi, sérstaklega er inni eign erlendis meiri en áður. En þess verður að gæta, að þetta er ekki nema rétt í svipinn, því von bráðar verður að gjalda af þessu fyrir póstávísanir, landsímsefni, sem keypt verður á árinu, styrk til gufuskipafélagains o. fl. o. fl. Það er því ekki hægt að byggja á því, að þessi upphæð haldist framvegis. En þó að svo reyndist, er upphæðin ekki ýkjamikil ef rétt er athugað.

Eg man eftir því, að landfógetinn gamli, Árni heitinn Thorsteinsson, hélt því fram oftar en einu sinni við mig, að hagur landsins væri ekki góður, ef peningaforðinn, sem alt af væri hægt að gripa til, næði ekki 1/2 miljón kr. Nú hafa öll viðskifti landssjóðs farið vaxandi Síðan hann var landfógeti, svo upphæðin þyrfti að vera talsvert hærri. Þetta fé, sem nú er til taks, — og sumt þó að eins í svipinn — er ekki meira en rúmlega 1/2 milj. kr., og mætti það eftir áliti landfógetans heitins ekki minna vera, Og þó er hagur landssjóðs nú með glæsilegasta móti.

Eg verð því að telja það í meira lagi varhugavert, að heimta jafn mikið af landssjóði og hér er gert. Það má búast við, að útgjöldin vaxi mikið á þessu sumri. Fjárlögin fara að öllum líkindum með meiri útgjöldum frá þinginu, en þau fóru með frá stjórninni. Svo hefir reynslan verið að minsta kosti á undanfarandi þingum, og það er ekki hægt að búast við, að þetta þing gerist nein undantekning.

Ennfremur segir í nefndarálitinu, að tekjurnar muni óðum fara vaxandi, og sérstaklega megi búast við því, að vörutollurinn verði hærri en áætlað er í fjárlagafrumvarpinu. Það er rétt, að vörutollurinn verður að öllum líkindum hærri en áætlað er, en að svo stöddu er ekki hægt að gera sér neina ábyggilega grein fyrir, hve miklu kann að muna. Þó að svo fari, að það munaði 100 þús. kr. á fjárhagstímabilinu, mundi ekki af því veita til þess að vega upp á móti þeim tekjuhalla, sem búast má við að fjárlögin fari með út úr þinginu. Ef háttv. deild hefir mikla von um, að vörutollurinn fari fram úr áætlun, er ekki hætt við öðru en að hún sjái fyrir þeim tekjuauka, ef að vanda lætur. Sé það víst, að tekjur landssjóðsins fari vaxandi, þá er það og jafnvíst, að útgjöldin fara vaxandi. Og hvort veg hraðara? Eg held, að engum geti dulizt, að það eru útgjöldin. Það hefir reynslan sýnt alláþreifanlega nú undanfarið.

Eftir minni þekkingu á fjárhag landsins, verð eg sem sagt að telja það mjög erfitt fyrir landssjóð, að inna jafnmikla upphæð af hendi og hér er farið fram á, ef það ekki allsendis ómögulegt. Og þó að það sé gagnlegt að efla hag Landsbankans, dugir ekki að ganga of nærri landssjóði til þess. Eg trúi því heldur ekki, að landsmenn mundu taka því með þökkum.

Það mætti spyrja, hvort háttv. nefnd hafi ekki hugkvæmst önnur ráð en þessi bankanum til eflingar. Eg býst við, að háttv. framsm. (B. Rr.) muni svara því. Eg get reyndar fyrir mitt leyti svarað því fyrirfram. Eg tel aðrar leiðir einnig mjög erfiðar í svipinn. Ef landssj. væri fær um að standast útgjöldin, væri þetta auðveldasti og beinasti vegurinn. Eg þarf því ekki svar, en tel hins vegar rétt, að hv. nefnd geri kunnugt, hvað hún hefir hugsað sér í þessu efni, og hvort henni hafi ekki dottið í hug aðrir vegir.

Eg verð fyrir stjórnarinnar hönd að mæla á móti frumvarpinu, með því að eg tel það afarerfitt, ef ekki alveg ómögulegt, að landssjóður sé fær um að standast slík útgjöld, sem frumvarpið fer fram á. Nema það væri þá með því einu móti — og sem reynist líklega jafnerfitt, er til framkvæmdanna kemur — að Alþingi taki höndum saman við stjórnina og stjórnin taki höndum saman við Alþingi, að takmarka svo útgjöldin, að engin fjárlög fari út úr þinginu með tekjuhalla, eða að minsta kosti ekki með þeim tekjuhalla, sem tíðkast hefir hingað til.