23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (282)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Pétur Jónsson:

Eg verð að játa, að þegar eg sá álit nefndarinnar í Landsbankamálinu, þótti mér tillögurnar bera vott um, að hagur Landsbankans væri verri en eg hafði gert mér í hugarlund, úr því nefndin gat ekki fundið aðra útvegi en þessi framkomnu frumvörp bera með sér. Þau tel eg örþrifaráð. En þar sem eg ekki er bankafróður maður, skal eg ekki fara langt út í málið.

Eg vildi að eins geta þess, að í frv., sem fyrir liggur, þar sem farið er fram á, að teknar séu 100 þúsund krónur úr landssjóði árlega til þess að auka veitufé bankans, þá finst mér það að taka úr öðrum vasanum og setja í hinn. En það er þó ekki þetta, sem mér finst athugaverðast, heldur hitt, eina og háttv. 22 umboðsm. ráðherra (Kl. J.) tók fram, að landssjóður hefir ekki efni á að leggja út þetta fé.

Vildi eg víkja því til nefndarinnar, að hún athugaði, hvort ekki væri hægt að fara einhvern meðalveg í þessu máli.

Í öðru lagi vildi eg gjarnan fá vitneskju um, hvernig nefndin hefir hugsað sér að þessu fé yrði varið. Eg býst ekki við, að því sé ætlað að vera eyðslufé bankans, en ef svo er ekki, verður einhver að eiga þessa innstæðu. Máske á hún að renna í varasjóð Landsbankans, eða máske á landssjóður að eiga hana í bankanum. En hvaða vexti á hann þá að fá af henni ? Þetta finst mér hefði átt að vera tekið skýrt og glögt fram í frumvarpinu.