23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (294)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Valtýr Guðmundsson:

Eg get ekki skilið háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.). Mér skildist hann ekkert hafa á móti því frá landstjórnarinnar hálfu, að bankinn hefði varasjóð í veltunni, og vitnaði í orð Glückstads um það, sem eg hefi einnig heyrt, eins og háttv. umboðsm. ráðherra líka sagði, að títt væri um alla aðra banka, sem mun vera rétt. Hins vegar þótti háttv. umboðam. ráðh. lítil trygging fólgin í ábyrgð landssjóðs, nema því að eins að landssjóður lægi með svo og svo mikla fúlgu í verðbréfum. Eg skil ekki, hvern veg þetta fær samrýmst. Hvernig fer háttv. umboðsm. ráðherra að ganga inn á það, að bankinn fái varasjóðinn í veltufé án nokkurrar tryggingar, en halda því fram hins vegar, að ábyrgð landssjóðs sé ónóg trygging. Það er einmitt öfugt, að fólk mundi verða hrætt, ef tryggingunni yrði alveg kipt í burtu, en á landasjóðs ábyrgð mundu allir treysta.

Eg minnist þess í bankahruninu í Kaupmannahöfn 1908, þegar hræðslan var sem mest, þá tók ríkið að sér ábyrgðina, og urðu þá allir rólegir.

Með þessum hætti, ábyrgð landssjóðs, kæmi alls ekki til neins efa eða ótta, því að áhættan yrði engin, nema því að eina að stjórnin sýndi vanrækslu í eftirlitinu.

Ef svo færi, að stjórnin þættist ekki geta haft nægilegt eftirlit með sparisjóðnum, sem raunar engin hætta er á, þar sem annar af “revisorunum„ er útnefndur af ráðherra og starfandi maður í stjórnarráðinu, þá er hægurinn hjá að búa til ný lög og koma sparisjóð Landsbankans undir sams konar eftirlit og er með hinum almennu sparisjóðum út um land.

Eins og eg hefi tekið fram, álít eg þetta tryggingar-ákvæði bráðnauðsynlegt, þegar bankinn hefir varasjóð sinn í veltu. Landssjóði er engin hætta búin með því, en hitt vinst, sem mikils er um vert, að menn verða rólegri og óhræddari um fé sitt, þegar landssjóður stendur á bak við.